roman-folk-1200x630
Rómar – Litrík þjóð á faraldsfæti

Það er ekki langt síðan að fréttir bárust af ókennilegu fólki sem stundaði spilverk í Austurstæti og betlaði aura. Það liðu ekki margir dagar þar til verðir siðgæðis og reglu tóku fólkið og kom því um borð í Norrænu svo tryggt væri að það færi sömu leið og það kom. Nokkrum árum áður, á listahátíð í Reykjavík, var mikið gert úr ,,himsfrægum” hópi tónlistarmanna sem einhver næmur áhugamaður um tónlist hafði uppgötvað í ónefndu þorpi í Rúmeníu. Þessari flottu hljómsveit var fagnað af troðfullu húsi þau kvöld sem hún lét listir sínar. Sannarlega voru snillingar á ferð, snillingar sem sjá má nánast í hverju þorpi Róma í Rúmeníu. Það er nefnilega staðreynd að tónlist er eins og partur af anatómíu þessa fólks, eins og líffæri sem veldur dauða sé það fjarlægt. Um líkt leiti og listamennirnir frömdu seið sinn á Hótel Íslandi bárust fréttir af fólki, konu, karli og barni eða börnum, sem hafði komið með ferjunni til Seiðisfjarðar og farið landleiðina til Akureyrar. Þar sást til fólksins við að stela sveskjum og rúsínum eða einhverju álíka úr verslunum. Fólkið var handsamað og flutt nauðugt um borð í sömu ferju og hafði flutt það til landsins. Í þessum dæmum kristallast viðhorf Íslendinga, íslenskra stjórnvalda, til fólks af þjóð Róma. Viðhorf sem mæta Jóni og séra Jóni. Reyndar eru þessi dæmi ekki aðeins talandi um viðhorf Íslendinga heldur um það viðmót sem mætt hefur Rómum víða í samfélögum ,,siðaðra” manna austan hafs og vestan. Hvaða fólk er þetta sem við sjáum svo oft í götum evrópskra borga við að betla, spila og fremja töfrabrögð eða spá fyrir vegfarendum? Hvaðan kom þetta fólk?

Rómar eru dreifðir um allan heim en flestir búa í Evrópu og þar líkt og víðast annars staðar hafa þeir ekki sérstaka opinbera réttarstöðu sem þjóð eða etnískur minni hluta hópur. Engar nákvæmar tölur eru til yfir fjölda Róma í Evrópu en talið er að þeir séu á bilinu átta til tíu milljónir, þar af býr um það bil 80% þeirra í Austur Evrópu og fyrrum Sovétlýðveldum. Erfitt er að segja með nokkurri nákvæmni hversu margir þeir eru vegna þess að stjórnvöld margra ríkja telja aðeins það fólk vera Róma sem er á faraldsfæti að hætti forfeðranna. Sum ríki draga úr fjölda Róma og neita jafnvel tilvist þeirra innan marka ríkisins. Þeir sem ferðast um í vögnum teljast vera í mesta lagi hálf milljón og flestir í Austur Evrópu. Í Rúmeníu og Búlgaríu má enn sjá slíka ferðalanga en þeim fer þar fækkandi.

Í skýrslu sem Evrópuráðið stóð að í samvinnu við Alþjóðasamband Rómaog sem birt var árið 1999 var áætlað um fjölda Róma í ríkjum Evrópu. Niðurstöðurnar sýndu að flestir bjuggu í Rúmeníu, 1,8 milljónir. Í Búlgaríu og á Spáni töldust vera 600.000 í hvoru ríkinu um sig. Í Ungverjalandi 450.000, Slóvakíu 420.000, Rússlandi 400.000, Júgóslavía (Serbía/Kósovo) 300.000, Tékklandi 300.000, Makedónía 250.000, Frakkland 150,000, Grikkland, 120,000, Þýskalandi, Bretlandi og Ítalíu töldust búa 100.000, Í Albaníu 85.000, Úkraínu 75.000 og Póllandi 50.000.

Tungumál Róma greinist að minnsta kosti í þrjár hvíslar: Domari er það mál nefnt sem talað er af Rómum fyrir botni Miðjarðarhafs og í Íran. Lomavren er tunga armenskra Róma (Lom). Domari og Romany eru mjög fjarskyld og hafa sennilega greinst að þegar áður en Rómar héldu í sína löngu ferð frá Indlandi. Málvísindamaðurinn Dr. Ian Hancock, eða Yanko le Redžosko eins og hann heitir á máli feðra sinna, telur að forfeður þeirra sem tala Domari- hafi lagt upp í ferðina nokkru áður en Rom og Lom lögðu af stað frá Indlandi. Þessar þrjár greinar eru eins konar stofngreinar síðan skiptast þær í fjöldan allan af stærri og smærri kvíslum. Romany skiptist í að minnsta kosti í 17 málýskur sem sumar eru öðrum mjög ólíkar. Það telst til fjölskyldu Indó-íranskra mála og náskylt tungum sem talaðar eru á norð-vestur Indlandsskaga.

Þeir hafa yfirleitt tekið upp trúarbrögð þeirra sem þeir eru í nábýli við. Evópu eru flestir Kristnir, ýmist kaþólskir, mótmælendur eða tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni, grísku eða rússnesku. Einnig eru margir múslímar og reyndar má finna þá víðast á trúarbragðaskala evrópuþjóða.

Gömul Rómamunnmæli segja frá er Guð ákvað dag einn að skapa manneskju.Hann tók leirklump, mótaði hann og bakaði í ofni. Þá þurfti hann að skreppa frá rétt sem snöggvast, en gleymdi sér.Þegar hann loks kom til baka var leirmyndin brunnin og svört.Þessi varð ættfaðir blökkufólksins.Guð reyndi aftur, en nú var hann svo hræddur um að sama sagan endurtæki sig, að hann opnaði ofninn of fljótt,- myndin var of föl að mati hins almáttka.Þar með var skapaður ættfaðir þeirrar kvíslar mankyns sem við nefnum hvíta kynstofninn.Þrátt fyrir þessi mistök lét Guð ekki hugfallast. Hann reyndi í þriðja sinn og nú heppnaðist brennslan.Þessi, sem hafði svo fagran hnetubrúnan lit, varð ættfaðir Róma.

Sú skoðun er þekkt meðal ýmissa samfélagshópa og þjóða, bæði að fornu og nýju, að dökkt hörund sé tákn um minni mannkosti, frumstæða hugsun og villimennsku. Á hámiðöldum ól kristin kirkja á slíkum skoðunum með sögum um hvíta Krist sem bæði var ljóshærður og bláeygur og sögum um baráttu hins góða og þess illa,- um baráttu milli hinna góðu hvítu engla og vondra svartra djöfla. Samkvæmt þeim litaskala flokkuðust Rómar líklega undir rökkrið og hafa tæpast þótt nógu góðir.

Sennilega er þessi sköpunarsaga Róma orðin til sem vörn gegn lítilsvirðandi fordómum í garð þeirra. Sagnir í þá veru að þeir væru komnir af Kain eða afkomendur íbúa Sódómu og Gómoru voru algengar.Enn segir í gömlum munnmælum að Adam hafi sorðið Evu eftir andlát sitt og þar með var fyrsti Róminn getinn.Önnur þjóðsaga segir Róma vera afkomendur forsögulegra dverga og í Finnlandi er til þjóðsögn sem segir að Guð hafi skapað manninn meðan Kölski skapaði Rómann.Guð blés anda í manninn svo hann fékk sál, en rak svo við framan í Rómann og þannig fékk hann sína sál.

Lengi má telja litríkar sögur um uppruna þessara merkilegu ferðalanga sem birtust í evrópskum samfélögum hámiðalda og síðar, dökkir á hörund, förufólk í litríkum klæðum með lausbeislaðar trúarhugmyndir og siði, fólk sem að auki talaði tungu sem hvunndagsfólk í Evrópu gat engan veginn skilið. Þetta er þjóðin sem kallar sig Gajo, Rom eða Romani (manneskja) og annað fólk Gadje (hinir). Við erum fólkið og svo eru hinir. Rómar skiptast í undirflokka, RomSinti, og Kale og hver undirflokkur skiptist í enn fleiri greinar.

Orðið ,,sígauni”er komið úr grísku og var notað um trúvillinga í Frygíu. Af einhverjum ástæðum festist það á Rómum, kannski vegan þess að þeir komu þá leiðina til Grikklands.Þetta orð er aðeins eitt af mörgum orðum, með fremur neikvæða merkingu, sem notuð hafa verið um þessa þjóð.Árið 1971 hvatti Alþjóðasamband Róma til þess að ,,Rom,, yrði notað sem samheiti þjóðarinnar í stað gildishlaðinna orða eins og sígaunar, gitanes, zigari og gypsies. Í íslenskri málhefð hefur orðið sígauni öðlast þegnrétt, án þess að í því felist ávirðing eða annað gildismat. Í þessari grein verður þó farið að óskum Alþjóðasambands Róma og notað samheitið sem þjóðin sjálf kýs að nefna sig.

Hvaðan og hvenær?

Samkvæmt munnmælum Róma lögðu forfeður þeirra upp frá Sind héraði í suðaustur Pakistaneru. Einhverjir hópar eru taldir hafa lagt af stað á 6. eða 7. öld fyrir Krist en fyrsta stóra bylgja Róma er talin hafa borist til Íran á fyrsta árþúsundinu e. Kr. Sennilega hófst sú ferð við hernám múslíma á Sind 711 til 712. Meðan á dvölinni í Íran stóð varð ljós skipting þjóðarinnar í þrjár megin greinar: GitanosKaldrrash og Manush.Með rannsóknum á máli þeirra, Romani eða Romany, hefur fræðimönnum tekist að öðlast nokkuð skýra mynd af hvert leiðir þeirra lágu eftir að þeir lögðu upp í þá ferð sem virðist hvergi á enda.Aðferðin felst í að fundin eru tökuorð í tungu þeirra sem hafa verið tekin úr málum þeirra þjóða sem Rómar hafa búið með. Þessi aðferð gefur aðeins óljósa hugmynd um ferðir þeirra, en veitir litla eða enga vitneskju um hvenær og hversu lengi þeir dvöldu í hverju landi.

Ekki er vitað hvers vegna þeir yfirgáfu heimkynni sín í Indlandi.Menn hafa leitt getum að ýmsum ástæðum svo sem stríði, hungursneyð eða sjúkdómum.Enn aðrir telja að þeir hafi þegar á Indlandi flakkað um og lifað við svipaða lífshætti og þeir hafa gert allt fram á þennan dag. Víst er að enn í dag býr fólk í Norðvestur-Indlandi og Pakistan sem flakkar um og hefur ofan af fyrir sér með smíðum, hljóðfæraleik og töfrabrögðum; sömu greinum og einkennt hafa Róma.

Í Búlgaríu eru til munnmæli sem ef til vill eiga sér einhverja stoð í raunveruleikanum:

Einu sinni höfðum við Rómar mikinn konung.Hann var prins okkar, hann var konungur okkar.Í þann tíð bjuggu allir Rómar saman á einum stað í fögru landi. Nafn þess var Sind.Þar ríkti mikil hamingja, mikil gleði.Nafn höfðingja okkar var Mar Amego Dep.Hann átti tvo bræður. Nafn annars var Romano, nafn hins var Singan.

Allt var gott þar til styrjöld braust út.Múslímarnir hófu stríðið.Þeir breyttu landi Róma í ösku og ryk.Allir flýðu í einum hóp frá sínu eigin landi. Landlausir og fátækir lögðust þeir í flæking um önnur lönd.Leiðir skildi með bræðrunum þremur. Þjóðin deildist í þrennt og fylgdi hver hópur sínum leiðtoga.Einn hópurinn fór til Arabíu, annar til Bísans og sá þriðji til Armeníu.Þessa hópa köllum við í dag Róma, Sinti, og Kalé.

Til Evrópu

Koma Róma til Evrópu er sveipuð óvissu, eins og svo margt í sögu þeirra.Fyrst er getið um ferðir þessa fólks í Evrópu í heimild sem skrifuð var af kristnum munki á eynni Krít árið 1322.Hann lýsir framandi aðkomufólki og sagði meðal annars ,,Þeir eru sjaldan lengur en þrjátíu daga á hverjum stað og flytjast stöðugt búferlum með sín smáu, svörtu tjöld, eins og vansælt flóttafólk sem Guð hefur útskúfað.”

Í evrópskum samfélögum miðalda, þar sem langt að komnir gestir voru fáséðir, vakti koma þeirra athygli. Enginn þekkti til uppruna þessa fólks og engu var líkara en að það sprytti upp úr jörðinni.Forvitnir bændur og borgarbúar þustu á móti því með útrétta arma og buðu það velkomið.Fáum nægði að skoða og grandgæfa þetta litríka tónelska fólk á alla kanta og vegu heldur var freistandi njóta aðstoðar þess við að skyggnast inn í það sem flestum er hulið, hina óræðu framtíð. Þann starfa höfðu spákonur Róma og engir stóðu þeim á sporði í þeim vísindum.

Hinn evrópski miðaldaheimur sem Rómar rötuðu inn í var mótaður af nánu sambandi fólks við jörðina, vinnuna og trúna.Vinnan var grundvöllur alls.Þetta var heimur hins fastmótaða stéttskipta lénsveldis,heimur konunga og keisara, aðals og þeirra geistlegu manna sem sátu góð embætti. Þessu fólki þurftu bændur að framfleyta og ekki aðeins því heldur stórum skörum hirðfólks og hermanna.

Inn í þennan heim komu Rómar, heim sem var skipt upp í ríki og byggðir, sem að sínu leyti deildust upp í lokuð samfélög þar sem þéttriðið tengslanet hélt utan um fólk.Hin geysilega þýðing vinnunnar réð því að Jón Jónsson bóndi var fyrst bóndi og síðan Jón Jónsson.Það var ekki oft sem bóndi eða bæjarbúi fóru út fyrir sveitar- eða bæjarmörkin. Með fáum undantekningum varð fólk að búa þar sem það var fætt og þurfti skriflegt leyfi yfirvaldsins til að bregða sér í næsta hérað. Sá sem var svo óheppinn að vera hankaður á slíkri ferð án leyfis gat átt á hættu að verða dæmdur frá lífinu vegna flakks.Alheimurinn var lítill og einfaldur að skilja.Jarðarspildan, hið félagslega venslanet, öryggi samfélagsins og sáluhjálpin var það sem mestu máli skipti.Himinn og helvíti voru framtíðin og allar gjörðir frá vöggu til grafar voru skýrar og í greinilegu sambandi hver við aðra.

Yfirbót í Drottins nafni

Rómar komu til Evrópu á þeim tíma er veldi kirkjunnar var hvað mest. Með valdi sínu yfir sálum fólks skóp kirkjanhugmyndaheim sem varð ein af höfuðstoðum lénsskipulagsins.Með lærðum tilvitnunum í heilaga ritningu var alþýðu innrætt að una við sitt í þeirri vissu að fyrir undirgefni við veraldlega drottna þessa lífs myndi launað ríkulega á Paradís.Við þessar aðstæður var ákaflega hentugt fyrir Róma a að látast vera pílagrímar á yfirbótaferð.Í fyrstu var þeim trúað. Skýring þeirra á yfirbótaflakkinu var vissum breytingum undirorpin frá einum stað til annars.Ein var sú að þeir hefðu verið reknir úr Egyptalandi vegna þess að þeir hefðu ekki skotið skjólshúsi yfir Maríu og Jesú á flótta þeirra.Önnur var á þá leið að þeir hafi neitað Jesúbarninu um vatn, og enn önnur að þeir hafi verið heiðingjar sem snúist hefðu til kristni og aftur til heiðni og loks frelsast á ný. Vegna þessarar hrösunar hefðu þeir fengið þá refsingu að flakka land úr landi í sjö ár.

Þótt Róma sé fyrst getið í Evrópu árið 1322, þá hófu þeir ekki ferð sína um álfuna fyrr en í byrjun 15. aldar. Til Danmerkur höfðu þeir meðferðis leyfisbréf frá Jakobi IV. af Skotlandi.Jakob konungur IV. hafði fengið heimsókn Róma einhvern tíma um aldamótin 1500. Hann fékk að heyra þá sögu að þar væri kominn jarlinn af „Litla-Egyptalandi“ ásamt fylgdarliði sínu.Jarnlin þóttist hafa verið flæmdur úr landi og væri á píslarvættisgöngu.Svo snortinn varð Jakob af hinum grimmu örlögum að hann vildi senda her til að aðstoða jarlinn og hans eðla fylgdarlið við að ná aftur landi sínu. Svo mikil var trú hans, að hann athugaði ekki hvar á jarðarkringlunni þetta land, „Litla-Egyptaland“ lá.Vafalaust hefði það bögglast eitthvað fyrir honum.Enskumælandi fólk kallar Róma enn í dag „Gypsies “ sem er komið af orðinu „egyptian“, eða Egypti.

Hokhano baro

Frásögnin af því þegar Rómar léku á Jakob konung hefur fengið sess í platsögusafni þeirra og sumir kalla þetta fyrsta stóra platið; „hokhano baro“. Hokhano baro er sæmdarheiti yfir sérdeilis mikilfenglega pretti sem Rómar fremja gegn öðrum en Rómum, þeim sem þeir nefna einu nafni „gadje“. Sá er mikill sem getur narrað og prettað með glæsibrag. Hámarkið er að fremja hokhano baro, en sá sem platar kynbræður sína er skúrkur.Hokhano baro getur verið þjófnaður, og skiptir þá ekki máli magn eða virði þess sem stolið er, heldur glæstur stíll og fágun verknaðarins.

Þjófnaður er umdeildur en ekki óvanalegur starfi meðal Róma. Hokhano baro hefur fylgt þeim í Evrópu frá fyrstu tíð.Á miðöldum mun sú aðferð hafa verið algeng að fá einhvern auðtrúa til þess grafa fjármuni sína í jörð, gjarnan gull, silfur og dýra steina. Áður hafði ,,kennarinn“ grafið sína eigin fjármuni í jörð að væntanlegu fórnarlambi ásjáandi og látið sjóðinn liggja niðurgrafinn í nokkra daga.Á tilsettum tíma var féð grafið upp og brást þá ekki að það hafði stórlega aukist, líkt og góð kartöfluuppskera. Þegar fórnarlambið sá þessi undur fór ekki hjá að draumurinn vaknaði um að verða ríkur eða enn ríkari.Og þegar ekkert þurfti að gera annað en grafa sjóð í jörð og láta hann liggja þar óhreyfðan í tiltekinn tíma, oftast þrjá sólarhringa, lét margur freistast til þess að fara að slíkum ráðum. Þegar tíminn var liðinn og eigandi sjóðsins hugðist vitja fjármuna sinna hafði lærimeistarinn jafnan horfið sporlaust og sjóðurinn með.Til er saga frá Dom-héraði á Indlandi sem sýnir að þjófnaðurinn hefur verið heiðrað starf meðal Róma:

Faðir sagði einhverju sinni við son sinn:„Sonur minn, það er tími til kominn að þú lærir framtíðarstarf þitt. Ég skal kenna þér að stela.“„Það get ég nú þegar, pabbi minn,“ svaraði strákur. „Geturðu stolið eggjunum undan gauk sem liggur á hreiðri?“„Ég veit ekki.“„Nú jæja, ég skal sýna þér.“ Þeir gengu varlega að tré nokkru sem gaukur hafði gert sér hreiður í.Faðir og sonur klifruðu upp og faðirinn tók eggin svo varlega að gaukurinn veitti því enga athygli. Strákur fylgdist með hverri hreyfingu föður síns og í hvert skipti sem faðirinn setti egg í vasa sinn tók strákur það og lét í sinn eigin vasa.Þegar öll eggin voru komin undan gauknum klifruðu feðgarnir niður og pabbinn hló við syninum.„Hérna eru sannanirnar,“ sagði hann og ætlaði að taka eggin úr vasanum.En engin egg.Þegar strákur tók þau upp úr sínum vasa lagði faðirinn hönd á öxl sonar síns og sagði stoltur:„Sonur minn, þú er sannur Dom.“

Úr samúð í óvild

Á miðöldum og í upphafi nýaldar voru Evrópubúar að öllu jöfnu trúrækið fólk, enda agaði kirkjan flesta hugsun og setti trúfræðilega mælistiku á menningu og þjóðlíf.Þegar kirkjunnar mönnum varð ljóst að þetta fólk, sem fór um í vögnum sínum, fetaði ekki troðnar slóðir hvorki hvað varðaði atvinnuhætti né aðrar venjur fóru æ fleiri efasemdaraddir að heyrast. Í táradal jarðlífsins skar hver sá sig úr sem sýndi af sér lífsgleði með ástríðufullum söng og dansi. Þegar kirkjunnar mönnum þótti ljóst að hér voru engir pílagrímar á ferð eins og þeir sögðust, breyttist samúð í óvild.Í ljósi tíðarandans er eðlilegt að Rómar, sem hvorki höfðu trúarstofnanir né tæpast aðra trú en þá sem golan hvíslaði þeim í eyru hverju sinni, mættu talsverðri andúð þegar pílagrímasögurnar fóru að gerast ótrúverðugar.Ýmsir fóru að óttast að aðrir tækju háttalag þessa þeldökka förufólks sér til fyrirmyndar og myndi þá forsjón kirkjunnar vera syndugum mönnum ótryggt haldreipi.Slíkan dáraskap, blekkingar og guðlast mátti ekki lýðast. Andúðin á þeim fór saman við æ meiri óvild í garð Gyðinga. Þeim var gefið að sök eins og Gyðingum að hafa átt þátt í krossfestingu frelsarans. Það er reyndar þversagnarkennt hversu kirkjan hefur lengi litið hefur á þá sem þátt áttu í krossfestingunni sem óvini trúarinnar og bandamenn hins illa. Þó var verk þeirra hluti af lögmálinu og forsenda frelsunar trúaðra í heimi sem hinir sömu álíta verk hins almáttka Guðs. Víst er að refsiþörf miðalda kirkjunnar bitnaði ekki síður Rómum en Gyðingum og á báða hópa voru bornar ýmsar sakir og sumar af sama toga.

Að tukta holdið var álitið af hinu góða, svo fremi sem það mætti verða sálum til hjálpræðis.Árið 1571 gaf Píus páfi V. út tilskipun um að allir karlkyns Rómar skyldu látnir á galeiðurnar.Þannig vannst að minnsta kosti tvennt:Líkamlegar þjáningar gátu fært sálirnar nær frelsun og auk þess gátu þeir orðið til gagns í stríðinu við Tyrki um Lepanto í Hellas.Svo einbeittur var páfi að hann gerði reglurækan munk nokkurn sem dirfðist að andmæla þessum aðförum.

Í Svíþjóð var harðýðgi kirkjunnar svo mikil, að erkibiskupinn Lárentíus Petri gaf út fyrirskipun til presta þess efnis að þeir skyldu á engan hátt þénusta Róma; hvorki jarða þá né skíra.Þótt hann fyrirskipaði hvergi beinlínis að þeir skyldu beittir sömu meðhöndlun og algeng var á meginlandinu, aflífun, þá nefndi hann hengingu með greinilegri velþóknun.

Í þrældómi

Fyrstu heimildir um þræla af þjóð Róma eru frá Wallasíu, þar sem nú er Rúmenía. Árið var 1385.Einni öld síðar var getið um Róma í ánauð á landareignum í Moldavíu.Ekki er vitað hvernig þeir urðu þrælar eða af hvaða sökum, en vera má að einhverjir hafi sjálfviljugir látið frelsi sitt sér til bjargar frá svelti.Aðrir hafa ef til vill fallið í skuldafjötra og sloppið undan enn verri örlögum á þennan hátt.En hvað sem öðru leið voru þeir endanlega sviptir frelsi sínu og húsbændurnir, sem oftast voru aðalsmenn eða velmegandi kirkjuþjónar, gátu selt þá að vild eins og hvern annan búsmala eins og eftirfarandi auglýsing ber með sér.

Auglýsing

Hjá sonum og erfingjum hins látna Serdar Nicolainica í Bukarest eru 200 Rómafjölskyldur til sölu.Mennirnir eru flestir óðalsRómar (hafa verið þrælar á óðalssetri), gullsmiðir, skósmiðir, hljómlistarmenn og landbúnaðarverkamenn.-Þeir seljast ekki færri en fimm fjölskyldur saman.Því er verð hvers einstaklings tveimur dúkötum lægra en vanalega og við greiðslu mun verða veitt öll hugsanleg fyrirgreiðsla.

Í allmörgum héruðum Austurríkis-Ungverjalands var algengt að Rómar væru hnepptir í þrældóm.Húsbændurnir höfðu ótakmarkað vald til að siða og tukta þræla sína.Kjör hinna ánauðugu má marka af örlögum eins sem reyndi að flýja frá kúgara sínum í Siebenburgen í Transilvaníu árið 1736.Eftir að hann náðist ritaði húsbóndinn í dagbók sína:

Þetta er önnur flóttatilraun Peters Chitschdy.Samkvæmt beiðni minnar ástkæru konu lét ég slá hann með písk undir iljarnar þar til blæddi úr, en síðan voru fætur hans baðaðir úr sterkum sóda.Til að refsa honum fyrir hið óskiljanlega tungumál var efrivör hans skorin burt og hún steikt, en hann síðan neyddur til að éta hana.

Á flótta

Um aldamótin 1500 var staða Róma víðast hvar í Evrópu allt önnur en verið hafði er þeir nutu þess, nýkomnir, að vera álitnir pílagrímar.Nú voru þeir ýmist taldir heiðingjar, svikarar við kristindóminn, njósnarar Tyrkja eða fjölkunnugur galdralýður.Margar ýkjusögur komust á kreik og voru seinna notaðar sem ásakanir gegn þeim.Fólk trúði því að þeir væru sóttberar og eitruðu brunna, stælu börnum til fórna og stunduðu jafnvel mannát.Árið 1498 hófust ofsóknir gegn þeim í Þýskalandi með því að þingið í Speyer kvað svo á að þeir skyldu reknir úr landi vegna þess að þeir stæðu að svikráðum við kristindóminn.Í fljótu bragði virðist brottvísun ekki vera hörðrefsing, síst þegar henni er beitt gegn fólki sem alltént er á stöðugu flakki.En á komandi árum og áratugum voru sams konar ákvæði fest í lög í hinum ýmsu Evrópulöndum og Rómar flæmdir frá einum stað til annars. Mörg ríki hertu refsingar gegn þeim sem náðust innan landamæranna. Algengt var að sá sem fangaði Róma fengi allar eigur hans.Slík lagaákvæði urðu til þess að á Spáni, Frakklandi og víðar voru skipulagðar Rómaveiðar og Rómadráp.

Í Prússlandi var svo kveðið á um í lögum frá 1725, að hengja bæri alla þá sem höfðu fyllt 18 ár og teknir væru innan landamæra ríkisins.Í Austurríki var ákveðið að allir karlkyns Rómar skyldu drepnir; konur og börn skyldu svipt öðru eyranu.Þessi harðneskjulegu lög náðu þó ekki tilætluðum árangri, því Rómar héldu áfram að ferðast um þessi lönd.

Á seinnihluta átjándu aldar hófust kerfisbundnar tilraunir, víðsvegar í Evrópu, sem beindust að því að fá Róma til að hætta flökkulífi sínu.María Theresia, drottning Austurríkis-Ungverjalands skipaði svo fyrir árið 1761, að allir Rómar í Ungverjalandi skyldu fá búfestu.Bann var lagt við að þeir byggju í tjaldi. Í stað flökkulífs skyldu þeir reisa hús á jarðspildu sem þeir fengu úthlutað og hefja jarðyrkju.Þeir máttu ekki kallast sígaunar en þess í stað skyldu þeir nefndir nýyrkjar (Neubauern).Samtímis var þeim bannað að stunda sína fyrri iðju svo sem hrossaprang, tónmenntir og smíðar.Þeir máttu heldur ekki tala sitt eigið mál og hermenn voru fengnir til þess að koma karlkyns „nýyrkjum“ í skóla.

Fyrstu tilraunirnar af þessu tagi misheppnuðust. ,,Nýyrkjarnir“ yfirgáfu jarðarspildurnar og héldu áfram sínu fyrra flökkulífi.Því voru síðar gefnar út enn strangari fyrirskipanir, sem höfðu til dæmis í för með sér að börn voru tekin af foreldrum sínum og fólki meinað að giftast fyrr en að uppfylltum ýmsum skilyrðum.En þessar tilraunir enduðu líkt og svo margar aðrar sem miðuðu að því að hneppa Róma í fjötra; þær misheppnuðust. Öld eftir öld hefir þessi þjóð verið sem brenninetlur í höndum evrópskra stjórnvalda.Jafnskjótt og Rómar höfðu verið fangaðir voru þeir í besta falli sendir úr landi, og flóttinn hélt áfram.Árið 1765 hófu frönsk stjórnvöld að veita verðlaun fyrir hvern fangaðan Róm.Tuttugu og fjórir frankarfengust fyrir karl, en níu frankar fyrir konu.Ekki þarf að líta lengra en til Danmerkur nítjándu aldar til að finna dæmi um Rómaofsóknir.Þann 11. nóvember 1835 var gerð Rómahreinsun á Jótlandi.Þá náðust tvö hundruð og sextíu karlar, konur og börn.

Þótt kærleiksblómin hafi lifað og dafnað í hinni frjósömu mold sem nærð var á guðsorði, þá er víst að lítt hafa Rómar fengið að njóta ilmsins.Baráttan gegn þeim var lík baráttu ljóssins og myrkursins, enda þótti líklegra að þetta dökkleita fólk væri nákomnara Kölska en Hvítakristi.Ótal bábiljur og hindurvitni voru látin réttlæta þessa skoðun.Sem dæmi um sögur sem sveimuðu eins og dökkt flugnager yfir Evrópu, verður hér drepið á eina mannætusögu frá Ungverjalandi:

Árið 1782 komst sú saga á kreik, að Rómar hefðu étið fólk frá ónefndu héraði.Tvö hundruð Rómar voru teknir til fanga og ásakaðir um mannát.Ekki gerði það sök þeirra minni að þeir neituðu, og því var aðeins um eitt að ræða, að pína þá til játningar.Átján konur voru síðan hálshöggnar og fimmtán karlar hengdir, sex steglaðir og tveir aflimaðir.Eitthundrað og fimmtíu sátu í fangelsi og biðu þess að röðin kæmi að þeim þegar keisarinn sendi nefnd til að rannsaka hvort rétt væri.Nefndin komst fljótt að sannleikanum.Það fólk sem átti að hafa verið étið lifði og bar þess engin merki að hinir grunuðu hafi svo mikið sem nartað í það.

Undir lok sextándu aldar og á fyrrihluta þeirrar sautjándu voru sett lög á Norðurlöndunum þremur- Svíþjóð, Danmörk og Noregi, sem ætlað var að sporna við flakki Róma um löndin.Í réttarsögu Svíþjóðar eru lög þessi einstæð vegna harðýðgi. Þau voru þau kunngerð árið 1637 og byggja að hluta til á opnu bréfi sem gefið var út í nafni Kristjáns IV. og birt í Danmörk og Noregi 1589.Þetta var útrýmingaráætlun.Karlmennina skyldi hengja án dóms og án undangenginnar rannsóknar.Konur og börn átti að flæma úr landi.Þrátt fyrir þá hörku sem birtist í þessum lögum báru þau ekki tilætlaðan árangur.Það var engu líkara en sænskur almenningur tæki sig saman og þættist ekki vita af þeim.Fimm árum síðar voru lögin milduð nokkuð.Samkvæmt breytingunni skyldu aðeins þeir sem urðu uppvísir að þjófnaði eða öðru illdæði missa lífið.Aðra, sem náðist í, átti að flytja sýslu úr sýslu þar til þeir væru að lokum komnir úr landi.Ef þeir sneru aftur skyldi handsama þá og láta vinna í járnum upp á vatn og brauð.

Þótt sænskur almúgi hafi brugðist mannúðlega við er á reyndi um miðja sautjándu öld, þá voru þó ýmsir sem leystu vandann með drápum.Það er auðvelt að gera langan lista yfir hroðaleg dráp sem framin voru í skjóli laga.Í Þýskalandi voru þeir hengdir, í Austurríki þótti réttast að brenna þá á báli.Á einum stað var vinstra eyrað snittað af, á öðrum það hægra og þannig mætti áfram telja.

Slíkar ofsóknir og þjáningar öldum saman geta engir skilið nema ef til vill þeir og afkomendur þeirra sem reynt hafa.Þær viðtökur sem Rómar hafa mætt á flakki sínu gegnum aldirnar hafa rist djúp sár sem tæpast gróa á einni mannsævi.

Valdið er ljúft.En það er þá fyrst sætt þegar hægt er að sýna það í verki.Þegar valdhafinn finnur þörf til að sýna mátt sinn og yfirburði er einfaldast að beita því gegn þeim sem minna má sín og fáir hafa samúð með.Af þessum toga er veiðihvötin og gildir jafnt á Íslandi tuttugustu aldar sem í Evrópu miðalda. Líkt og hver sjómaður minnist þess með gleði er hann dró Maríufisk sinn, skín stolt og gleði úr veiðiskýrslu gósseiganda frá Rínarlöndum sem endaði skrá um fellda veiðibráð með þessum orðum; „item sígaunakona með brjóstmylkung sinn.“

Rómantík og raunveruleiki

Átjánda öldin hefur verið kennd við upplýsinguog sú nítjánda við rómantík og þjóðernisvakningu. Báðar þessar aldir voru tímabil mikilla umbrota í evrópskri sögu. Upplýsingin var móðir iðnbyltingarinnar og af iðnbyltingunni fæddist rómantíkin líkt og fólk vildi flýja taktföst slög véla og reykjarkóf borga inn í heim þar sem sunnanblærinn strauk um vanga og bar kveðju frá horfnum tíma. Þjóðsögur komust í tísku og hulduheimar sem fólk hafði lítt hirt um eða óttast fóru að draga að listamenn sem hjúpuðu framandleikann stundum rómantískri blæju. Skáld vegsömuðu forna frægð þjóðar sinnar, listmálarar ortu náttúrulýrik og hetjuljóð á striga og eins og skáldin hvöttu þeir þjóðir sínar til dáða, umfram allt að standa vörð um hinn þríena arf, land, þjóð og tungu. Tónskáld sóttu í alþýðlega þjóðlagahefð og þjóðir Evrópu, stórar og smáar, eignuðust sinn Jónas og sína Fjölnismenn, skáld eins og: Byron, OehlenschlägerGoethe, Schiller, Mickiewicz og Pushkin. Austurrísk-ungverski gyðingurinn Theodor Herzl lagði grunn að hinum pólitíska zionisma, Íslendingar héldu sinn þjóðfund og 1879 héldu Rómar sína fyrstu ráðstefnu um málefni þjóðarinnar í austurríska þorpinu Kisfalu (nú í Slóvakíu).

Franska byltingin og þjóðernisvakning 19. aldar stuðluðu að sameiningu og sundrun; annars vegar að sameingu þjóða í ríki og hins vegar fóru fjölþjóða ríki að brotna upp. Tími þjóðríkja var að renna upp og fjölþjóðleg ríki áttu undir högg að sækja. Hin sundraða Ítalía rann saman í eitt ríki og sama gegnir um Þýskaland. Þjóðirnar á Balkanskaga hertu baráttu sína fyrir frelsi undan Tyrkjum og innan hins fjölþjóðlega Austurríska-Ungverska Habsborgaraveldis fóru að heyrast brestir í undirstöðunum.

Iðnbyltingin var komin á blússandi ferð í Vestur Evrópu, menn vegsömuðu tæknina og óttuðust í senn. Hin svokallaða ,,þróun“ var mærðog skilgreind og notuð sem mælistika á líf og samfélög. Vestræn iðnaðarsamfélög sem voru komin langleiðina að leggja undir sig flesta þætti jarðlífsins settu sig sjálf efst á sinn heima gerða þróunarskala. Þessi skoðun var sett í búning ,,fræðilegrar“ greiningar árið 1855 með bók franska rithöfundarinsJosephs Arthurs Comte de Gobineau: Essai sur l’inégalité des races humaines. Þessi bók markaði braut kynþáttahyggju nútímans og setti hana í fræðilegan búning. Hún leggur áherslu á að þróun samfélaga verði metin á forsendum tækniframfara og verði sett undir efnalega og tæknilega mælistiku. Slík athugun myndi leiða í ljós að þjóðir og kynþættir væru mis langt komnir á þróunarbrautinni. Arískur uppruni tryggði yfirburði yfir flesta aðra kynþætti eins og slava, að ekki sé minnst á fátæka Azkinasy Gyðinga í Austurevrópu og landlausa Róma.

Hvað Róma varðar var 19. öldin býsna þversagnarkennd. Annars vegar fór að gæta aukinnar sjálfsvitundar eins og ,,þjóðfundurinn“ í Kisfalu bar vott um og ríkin á Balkanskaga bönnuðu að hneppa þá í þrældóm líkt og tíðkast hafði um aldir. Kirkjan fylgdi þessu fordæmi og sá til þess að þrælar kirkjunar þjóna fengu frelsi. Segja má að 1837 hafi markað tímamót í viðhorfi kirkjunnar til Róma með því Lúkasarguðspjall var þá þýtt á Romani. Það fór sem sagt að gæta jákvæðrar viðhorfsbreytingar í garð Róma og forvitni í garð þessa framandi fólks. Ýmsir álitu þá lifa,,frumstæðu“ en frjálsu lífi í nánum tengslum við náttúruna sem skáld og aðrir listamenn kepptust um að lofsyngja. Þeir voru tákn hinnar rómantísku dulúðar, ,,uppreisnarmenn“ sem höfnuðu viðteknum gildum. En slíkar alhæfingar reyndust rangar líkt og gildir um flestar alhæfingar sem ætlað er að ná yfir mannlega breytni og andlegt atgerfi þjóða og kynþátta.

Þótt greina megi nokkuð sem til bóta gat talist fyrir lífsbaráttu Róma á 19. öld breyttust viðhorfum almennings til þeirra mjög hægt. Í byrjun þessarar aldar, sem kennd hefur verið við rómantík, þekktist sú tómstundaiðja í þýskumælandi löndum að fara á Rómaveiðar (Heidenjachten).1803 bannði Napóleon Bónaparte þeim landvist í Frakklandi. Konur, börn og gamalmenni voru send í lokaðar vinnubúðir, ungir menn í herinn og aðrir karlmenn látnir í nauðungarvinnu. Tæplega 70 árum síðar fylgdi Bismarck þessu fordæmi Napóleons og bannaði ferðir Róma um þýska ríkið nema þeir gætu framvísað leyfisbréfi eða þýsku vegabréfi. Á næstu árum átti óvildin í garð Róma eftir að magnast mjög í Þýskalandi. Þegar þarna var komið virtist mörgum eina von sín vera að komast vestur um haf. Í dag má finna samfélög þeirra bæði í Suður- og Norður Ameríku eins og reyndar víðast hvar á plánetunni Jörð. Þeir voru þó miklu fleiri sem fóru hvergi, ýmist gátu það ekki þótt þeir vildu eða vissu af reynslu margra kynslóða að grasið var ekki grænna hinum megin hafsins.

Árið 1890 stóðu stjórnvöld í héraðinu Swabíu (hluti Bæheims) fyrir ráðstefnu um ,,Sígaunameindýrin“ (Das Zigeunergeschmeiß). Þar var samþykkt að þegar vart yrði við að Rómar nálguðust bæji og þorp skyldu kirkjuklukkum hringt til viðvörunar. Níu árum síðar komu stjórnvöld í Münschen á fót stofnun sem til eftirlits með ferðum Róma (Nachrichtendienst in Bezug auf die Zigeuner). Alfred Dillman hét sá sem fór fyrir rekstri stofnunarinnar. Hann hóf að láta skrá alla eldri en sex ára og gera skýrslur með myndum, fingraförum, ættfræðilegum upplýsingum og ekki síst upplýsingum um ,,sakaferil“. Þessi upplýsingasöfnun leiddi til útgáfu Zigeuner-Buch (1905). Í inngangi verksins er fullyrt að Rómar séu þýskri þjóð þjáning eins og pest sem henni sé nauðsynlegt að verjast. Ein helsta hættan sem talin var steðja að Þjóðverjum var að þeir blönduðu blóði við Róma. Erfðagallar og meðfædd glæpahneigð þeirra síðarnefndu gntu þá náð að setja mark sitt á þýska eðliskosti. Það voru einmitt slík rök sem lágu til hinna tímamótamarkandi Nürnberglaga 1935. Þá voru runnir upp nýjir tímar sem voru þó ekki eins nýjir fyrir Róma eins og flesta aðra.

Nasistar leysa „sígaunavandann“

Á fyrsta fjórðungi tuttugustu aldar var staða Róma lítt breytt frá því er verið hafði undangengnar aldir.Vissulega var þrælahald bannað og stjórnvöld stóðu ekki fyrir skipulögðum útrýmingaráætlunum, en ennþávoru þeir sem hrakin dýr á flótta.Með lagasetningu var reynt að hefta frelsi þeirra svo sem verða mátti.Á millistríðsárunum var víða reynt að sporna við hinni svokölluðu „sígaunaplágu“. Bæersk lög frá árinu 1926 kváðu á um að þeir yrðu að fá sérstakt leyfi til að ferðast á milli héraða og börn skyldu ganga í skóla. Þeim var bannað að eiga skotvopn, hvorki mátti ferðast né æja í hópum, þeir skyldu tilkynna komu strax til staðarlögreglu og leggja inn persónuskilríki sem tryggingu. Einnig var dvalartími þeirra á hverjum stað takmarkaður og þeim gert skylt að greiða ferðaskatt.Enn fremur mátti vísa þeim burt sem ekki höfðu bæersk borgararéttindi og Rómum sem orðnir voru 16 ára, og ekki höfðu fasta atvinnu, mátti senda í vinnubúðir.

Við upphaf seinni heimstyrjaldarinnar skiptust Rómar í Þýskalandi í eftirtaldar kvíslar:

  • Sinti. Þeir höfðu komið til landsins þegar á 15. öld og máttu kallast lendir Þjóðverjar. Þeir voru um það bil 13 þúsund árið 1939. Margir voru hljóðfæraleikarar. Orðið Sinte merkir mannsekja, en sennilega er það og þeir sem það er haft um upprunnið í héraðinu Sind á Indlandi.
  • Lalleri eða Lalleri Sinti, sem merkir hinir mállausu (töluðu aðra málýsku). Þeir voru fámennir, aðeins um eitt þúsund árið 1942. Þessir Rómar nutu þess að vera taldir grein af þýskum Sinti, en mál þeirra er þó skyldara máli Roma.
  • Romar. Þeir komu til Þýskalands frá Ungverjalandi á árunum 1860-1870 og stunduðu helst hrossaprang. Árið 1940 voru þeir taldir vera tæp tvö þúsund en hafði fækkað í sextán hundruð tveimur árum síðar. Þýskir Rómar af Rom kvísl kalla sig Ungri eða Ungverja.
  • Balkan Rómar.Þeir töldust vera um átta þúsund og höfðust aðallega við í Burgenland.
  • Litautikker. Þeir voru sennilega grein af Sinti og höfðu aðsetur í Austur Prússlandi. Þeir voru um tvö þúsund árið 1940. Af öðrum Rómahópum í Þýskalandi í upphafi seinni heimstyrjaldar voru færri en eitt þúsund.

Löngu fyrir stríð höfðu margir Rómar hafnað í þýskum fangabúðum vegna baráttu stjórnvalda gegn „þjóðfélagsdreggjum“ eins og það var skýrt í hugmyndafræði nasista.Innan glæpadeildar lögreglunnar var deild sem hafði með höndum eftirlit með Rómum.Búðum þeirra var æ ofan í æ umturnað við leit lögreglu að fólki sem ekki var talið Rómar.Því var síðan komið fyrir í fangabúðum vegna vinnutregðu eða fyrir þá sök að vera talið andfélagslegt í hegðun.Auk þess voru Rómabúðir oft rannsakaðar með vísindalegar rannsóknir að yfirvarpi.Vegna óvissu um uppruna og ,,genetískan hreinleika“ kynþáttarins þótti nasistum úr vöndu að ráða.Þeir töluðu indóevrópskt mál, en lifðu þó lífi sem kynþáttafræðingum þótti dýrslega frumstætt.

Heinrich Himler, yfirmaður SS, taldi Róma vera beina afkomendur indógermannskra forfeðra. Af einhverjum ástæðum hefði hin ,,löggenga þróun” látið þá í friði og þeir orðið eftir með lífshætti og siði forfeðranna lítt breytta. Að hans mati gæfu samfélög þeirra möguleika á að stunda margvíslegar rannsóknir á eðli og ástæðum kynþáttaþróunar og erfðafræði. Því vildi hann að þeim yrði safnað saman á verndarsvæði, skrá þá, flokka og friða, eins og hver önnur minnismerki. Seinna skyldi þeim safnað frá allri Evrópu á slík afmörkuð svæði þar sem þeir mættu búa. Þar með fengju almenningur og vísindamenn tækifæri til að skoða og rannsaka þessar lifandi minjar án þess að þurfa að óttast áreiti.

Eins og kunnugt er skipuðu kynþáttafræði nasista germönskum ,,aríum” í öndvegi meðal þjóða. Þeir litu aldrei á Róma sem aría, þrátt fyrir að romani sé indó-germanskt mál. Náið samneiti við þá gæti spilt hinu norræna þýska blóði. Þjóðverjar sem umgengust Róma voru settir í fangabúðir og merktir með svörtum þríhyrningi, sem var tákn fyrir andfélagslega hegðun. Þótt ýmsir aðrir hefðu þurft að bera svartan þríhyrning á vinstra brjósti fangajakkans var þessi hópur sérstaklega aðgreindur frá öðrum sem báru sama merki. Sama ár og bók Karbers voru Ólimpíuleikar í Þýskalandi eitt af því sem stórnvöldum þótti nauðsynlegt að gera fyrir þá miklu áróðurssýningu var að koma því fólki sem talið var geta skaðað ímyndina af hinum kynhreina ,,aríska” þýska stofni úr augsýn útlendra gesta. Dagarnir 7. til 16. júlí voru því tileinkaðir ,,landhreinsun” með það að markmiði að gera Þýskaland Rómahreint. Í framhaldi af þessu átaki var fyrsti hópur Róma, 400 karlar, konur og börn, sendur í langtímavist í fangabúðunum Dachau. Þegar þangað var komið var fengu þeir fangajakka með svörtum þríhyrning á brjóstinu. Síðar fengu Rómar brúnan þríhyrning í stað þess svarta og víðsvegar báru þeir bókstafinn Z auk þríyrningsins.

Eins og fram hefur komið voru uppi hugmyndir meðal ýmissa leiðtoga nasista um að safna Rómum saman á sérstökum svæðum þar sem þeir gætu verið eins dýrslega frumstæðir og þeim væri eðlilegt. Þessari áætlun átti ekki að hrinda í framkvæmd í Þýskalandi, heldur í hernumdum löndum þar sem Rómar fundust. Stríðið og sá vinnuaflsskortur, sem af því leiddi ásamt ást nasista á „vísindum“ varð brátt til þess að Rómum var safnað saman á öllum hernumdum svæðum og þeir síðan sendir til Þýskalands, þar sem þeir voru ýmist settir í nauðungarvinnu eða notaðir sem tilraunadýr. Eftir því sem hallaði undan fæti fyrir Þjóðverjum þeim mun aðgangsharðari urðu þeir við sigraðar þjóðir sem þeir höfðu á valdi sínu. 1940 voru mörg þúsund þýskir Rómarsendir til fanga- og vinnubúða í Póllandi. Tæpum tveimur árum síðar höfðu forystumenn Þriðja ríkisins ákveðið hver yrðu endalok Róma. 16. desember það ár undirritaði Heinrich Himmler skjal þar sem kveðið var á um að þýskir Rómar yrðu sendir til útrýmingabúðanna Auschwich. Bandamenn Þjóðverja, Ítalír Vichy stjórnin í Frakklandi, Rúmenía, Slóvakía og Króatía undirrituðu samskonar fyrirskipanir.

Árið 1943 versnaði staða Róma á ninum þýsku yfirráðasvæðum til muna. Ungir og gamlir voru þúsundum saman fluttir til Þýskalands í þrældóm, aðrir voru sendir í útrýmingarbúðir. Sem dæmi um þann hrottaskap sem nasisminn kallaði fram, má nefna hvernig fór fyrir honum Lois Simon:

Í hann var fyrst sprautað eitri sem gerði það að verkum að hann þrútnaði út og hlaut langdregið kvalafullt andlát. Næsta dag var líkið flutt til Buchenwald og húðin, sem bæði var ákaflega flúruð myndum frá því hann gegndi þjónustu í útlendingaherdeildinni frönsku og auk þess vel teygð eftir verkan eitursins, notuð sem hilluskraut.

Annað dæmi er haft eftir Angelu Hvdorovic og lýsir dauða systur hennar og frænku:

Fyrst var stúlkan þvinguð til að taka gröf meðan móðirin, sem var þunguð og komin sjö mánuði á leið, var bundin við tré. Þeir ristu á kvið hennar, tóku fóstrið út og köstuðu því í gröfina. Móðirin fór sömu leið og stúlkan líka, en ekki fyrr en þeir höfðu nauðgað henni. Svo lokuðu þeir gröfinni meðan þær voru enn lifandi.

Samantekt á helstu hugmyndum nasista varðandi Róma kom fram í grein Dr. Behrendt undir heitinu, ,,Sannleikurinn um Róma.” Hann sagði þar að þeir hafi upphaflega komið frá Indlandi, en væru orðnir blandaður kynþáttur. Hann taldi þá vera um tvær miljónir í Evrópu og norður-Ameríku, aðeins sex þúsund hreinræktaðir í Þýskalandi og 12 þúsund blandaðir. Þá staðhæfði hann að lög Róma leyfðu ekki takmarkanir á barneignum:

Þeir eru glæpalýður og þjóðfélagsdreggjar sem ómögulegt er að mennta. Sígauna ætti að umgangast eins og þeir bæru arfgengan sjúkdóm. Eina lausnin er að útrýma þeim. Markmiðið ætti því að vera að útrýma, án haturs, þessum gallaða hluta fjöldans. Þessu takmarki væri best náð með þvað safna þeim öllum saman og vana þá.

Norðurlöndin fóru ekki varhluta af slíkum hugmyndum og jafnvel urðu sumir til að taka þær upp, og gera að sínum. Sænskir vísindamenn þóttu leiðandi í kynþáttafræðum á þriðja og fjórða áratug 20. aldar. Bautasteinn þessarar sögu sænskra ,,vísinda” er geymdur í sögusafninu í Lundi. Þar er stærsta hauskúpusafn í heimi. Bóðurpartur safnsins eru hauskúpur af Sömum og Rómum. Einn af þeim sem voru í fararbroddi þessara rannsókna var sænski kynþáttafræðingurinn B. Lundman. Hann fullyrti árið 1938 að meira en þriðjungur af íbúum sumra héraða Svíþjóðar hefðu Rómablóð í æðum. Þeir auðkenndust af kynferðislegri úrkynjun og fátækt. Lundman hafði einnig tekið eftir ófullnægjandi framförum þeirra nemanda sinna sem Rómablóðið plagaði. Hann taldi þó of seint að grípa til róttækra aðgerða, því Svíar væru þegar orðnir of blandaðir. Það besta sem stjórnvöld gætu gert væri að láta vana alla þá sem stæðu neðst í þjóðfélagsstiganum. Hina bæri að hvetja til að blanda ekki sínu hreina blóði í þennan hóp.

Helsti sérfræðingur nasista um málefni Róma var sálfræðingurinn Robert Ritter. Þó hann hafi lagt til að hreinir Rómar fengju að halda áfram flökkulífi sínu og hafa sín eigin lög, verður vart sagt að hann hafi staðið vörð um hag þeirra, þvert á móti. Ritter bar persónulega ábyrgð á fjölda morða á Rómum í Þýskalandi. Hann setti þá reglu, að það fólk sem hafði áttunda hluta Rómablóðs í æðum teldust Rómablendnir. Að hans áliti voru þessir Rómablendingjar hættulegir hinni ríkjandi þjóðfélagsgerð; jafnvel mun hættulegri en hreinir Rómar. Um 18 þúsund Rómar í Þýskalandi voru taldir blendingjar og hefðu ekki verið drepnir, ef sama regla hefði gilt um þá og gyðingablendingja. Að þessu leyti stóðu Rómar verr að vígi en Gyðingar.

Ritter skrifaði árið 1939:

Sérhver tilraun til að leysa Sígaunavandamálið til frambúðar þarf að byggja á þeim skilningi, að kynstofni verður ekki breytt. Við þurfum að gera okkur skýra grein fyrir eiginleikum Sígauna þegar reynt er að leysa þann vanda sem þeir setja okkur í. Ekkert vit er í að fá þessu frumstæða fólki fasta búsetu, kenna börnum þeirra með ómældri fyrirhöfn og innræta þeim hermennskuaga. Ef við Þjóðverjar þyrftum aðeins að fást við nokkur þúsund hreinræktaða flökkusígauna, væri þetta fólk ekkert vandamál. Raunar væri þá aðeins nauðsyn að fá þá til að halda lög síns eigin kynþáttar. Þar fyrir utan yrði náttúrulega einnig að banna Þjóðverjum að, með lagasetningu, að hafa kynferðislegt samneyti við Sígauna. Svo fremi sem þeir lúta lögum vorum gætum við að öðru leyti gefið þeim ferðafrelsi innan ákveðinna svæða, svo þeir gætu brauðfætt sig með því að spila Sígaunamúsík og stunda katlasmíð. Á vetrum gætu þeir svo fengið sameiginlegar íbúðir til að hafast við í. Á öðrum tímum árs mætti, þar sem þeir búa hvort er í vögnum, skipuleggja þá í hópa farandverkafólks, sem setja mætti í jarð- og vegavinnu eftir því sem þörf væri á.

Næst Ritter í Rómafræðum stóð Eva Justin. Hún hóf rannsóknir sínar á Rómum árið 1933, með því að heimsækja Rómabúðir undir því yfirskini að hún væri trúboði. Rómar gæafu henni gælunafnið Loli Trachai sem á rómane þýðir rauðhærða stúlkan. Í formála bókar sinnar sem Eva Justin ritaði nokkru síðar sagði hún, að von hennar væri sú að bókin yrði hvatinn að kynþáttahreinsilögum framtíðarinnar, sem myndu hindra alla frekari blöndun fraumstæðra kynþátta við þýsku þjóðina. Hún hélt því fram, að Rómar gætu ekki, vegna frumstæðarar hugsunar samlagast þýsku þjóðinni, án þess að þýska þjóðin hlyti skaða af. Síðan sagði hún:

Ef Sígauni er menntaður og lagaður að þýsku samfélagi verður hann jafnan undir og fer í svaðið. Því ætti að hætta öllum tilraunum til að mennta Sígauna og Sígaunablendingja. Börn sem alin hafa verið upp í þýsku umhverfi, af Þjóðverjum, ættu að senda aftur til síns heima og þá fullorðnu sem hafa blandast ætti að vana. … Alla menntaða Sígauna og Sígaunablendingja með meirihluta Sígaunablóðs, hvort sem þeir eru félagslega blandaðir þýsku þjóðinni, eða utanveltu og glæpalýður, ætti að hafa fyrir almenna reglu að vana. Þeir Sígaunablendingjar sem hafa samsamast þýsku þjóðinni og hafa minna en 50% Sígaunablóðs, geta talist Þjóðverjar, en þá sem eru utangarðs, þó svo að þeir hafi minna en 50% Sígaunablóðs í æðum ætti skilyrðislaust að vana.

Eva Justin nefndi ekki hvað gera ætti við flökku-Róma, heldur aðeins þá sem höfðu sest um kyrrt í Þýskalandi. Baráttu Þriðja ríkissins gegn Rómum má annars skipta í fimm þrep í tímaröð.

  1. Frá Nürnberglögunum 1935 til lagasetningar árið 1937 um fyrirbyggjandi baráttu lögreglunnar gegn afbrotum.
  2. 1937. Fyrirskipun um fasta búsetu.
  3. 1940. Fyrirskipun um fasta búsetu til fyrirskipunar um búferlaflutninga.
  4. 1942. Fyrirskipun um búferlaflutninga til flutninga til Auschwitz.
  5. Fjöldamorð í Auschwitz dagana 1-3 ágúst 1944.

Rudolf Höss, yfirmaður Auschwitz/Birkenau útrýmingarbúðanna, minntist í minningum sínum baráttu Róma fyrir lífi sínu:

Fram að því augnabliki er átti að færa þá inn í gasklefann var eins og þeir gerðu sér ekki grein fyrir hvað biði þeirra. … Ég sá aldrei logandi hatur í andliti Sígauna. Ef maður kom í búðirnar þeirra þustu þeir oft út úr bröggunum og hófu að leika músík, eða börnin fóru að dansa og stundum sýndu þeir sín vel æfðu töfrabrögð. Þarna var stórt leiksvæði þar sem börnin gátu hlaupið um af hjartans lyst og leikið sér með leikföng af öllum hugsanlegum gerðum. Þegar talað var til þeirra svöruðu þeir af einlægni og spurðu þess sem þá fýsti að vita, án þess að hika. Mér fannst alltaf eins og þeir skildu ekki hvaða örlög biðu þeirra. … En þegar þeir loks skildu hvað í vændum var; þegar þeir voru reknir í hópum að gasklefanum, þá var ekki létt að koma þeim þangað inn. Ég sá það ekki sjálfur, en Schwarzhuber sagði mér, að það væri mun erfiðara en allar fyrri fjöldaaftökur á Gyðingum.

Ekki er með vissu vitað hversu margir Rómar voru létust í þeirri ,,helför” sem beindist að þeim í seinni heimstyrjöld. Talið er líklegt að um tvær milljónir hafi fallið í fjöldamorðum, af völdum hungurs og sjúkdóma. Þar af er talið líklegt að 500.000 hafi verið myrt í fanga- og útrýmingarbúðum.

Fjölmiðlar nútímans og áróðurstækni, gera valdhöfum auðvelt að ala á fordómum og fela staðreyndir. Orsakir þess sem miður fer eru þá raktar allt annað en þær er að finna. Í krafti sterkra fjölmiðla og áróðurstækni er hægt að framleiða skýringar á fyrirbrigðum eins og til dæmis efnahagskreppu. Þannig hafa Gyðingar, blökkumenn og Rómar, verið notaðir sem blórabögglar þegar hinar raunverulegu orsakir hafa legið annars staðar, oft hjá stjórnvöldum sjálfum og þeim öflum sem þau eru fulltrúar fyrir. Í slíkum tilvikum hefur verið nauðsyn að beina reiði fólks að einhverju öðru en þeim sem sekir eru, því ella gæti farið að hrykta í stoðum þess kerfis sem stjórnvöld vilja að verja.

Og hvað svo?

Í hörðu árferði, þegar heilög vandlæting og reiði kraumar í brjóstum heilla samfélagshópa eða stétta, er stundum gripið til þess ráðs að benda á einhvern vel afmarkaðan minnihluta hóp og hrópa: „Þarna er moldvarpan, þarna er ómaginn, þarna er kreppuvaldurinn!“ Þegar slík hróp hljóma nógu hátt og oft breytist skreytnin í viðtekna „staðreynd“ Vera kann að syndaselurinn fái uppreisn þegar rofar til á ný líkt og gerðist með Gyðinga eftir fall Þriðja ríkisins. Þeir fengu ekki aðeins frelsi, heldur heldur auk þess land og og skaðabætur í reiðufé. Auk þess fengu þeir samúð alls hins siðmenntaða heims fyrir þjáningar þær og böl sem þeir urðu að þola vegna kynþáttar síns og trúar.

Líf Róma hélt áfram sem áður. Þeir fengu engar skaðabætur, því víðast í Vestur-Evrópu töldu dómsvöld, að meðferð nasista á þeim hafi ekki átt rætur að rekja til kynþáttar þeirra heldur hafi þeir stofnað „þjóðaröryggi í hættu“. Þessi skýring var talin réttlæta að nokkru ofsóknir gegn þeim. Meðan Gyðingar fengu skaðabætur og land, fengu Rómar hatur og fyrirlitningu. Hvar sem þeir komu voru þeir óæskilegir.

Þegar óveður stríðsins var gengið yfir og þjóðir farnar að huga að framtíðar skipan Evrópu fengu Gyðingar Palestínu að gjöf frá sigurvegurunum, reyndar án þess að fólkið sem bjó þar fyrir fengi nokkuð um það ráðið. Sennilega hefur þessi gjörningur kveikt með Rómum vonir um að hin aldalanga ferð gæti brátt heyrt sögunni til. Leiðtogar úr þeirra röðum fóru því fram á það við Sameinuðu þjóðirnar í byrjun sjötta áratugarins að Rómar fengju sitt ,,Ísrael”. Land þar sem þeir gætu stofnað sjálfstætt ríki, Rómanistan”, land Róma. En þessari ósk var ekki sinn tog ferðin hélt áfram.

Víða í Austur-Evrópu hafa stjórnvöld reynt að leysa ,,Sígaunavandamálið” með því að þvinga þá til að blandast og falla þannig inn í samfélagsmynstrið; gera þá ósýnilaga. Í vestur-Evrópu hafa stjórnvöld beitt öðrum og að vissu leyti hrottalegri aðferðum, sem í mörgu eru skyldar þeim aðferðum sem nasistar notuðu. Helstu ráðin hafa verið að flæma þá burt og gera þeim lífið sem illbærilegast. Ef flóttafólk komst hólpið yfir járntjaldið til Vestur-Þýskalands var því tekið opnum örmum, sjónvarp og hljóðvarp kepptust við að segja frá, með viðtölum og fréttaskýringum; nema ef flóttafólkið var Rómar. Þá var það fangelsað og síðan sent til baka og þótti ekki fréttamatur.

Það er nær sama hvar drepið er niður í Vstur Evrópu, alls staðar er staða Róma áþekk, hrakningarm fátækt og óvild. Þó finnast vissar undantekningar. Hollendingar komu upp neti af vagnaþorpum fyrir þær fjölskyldur sem flakka um. Í Svíþjóð hefur, á hinn bóginn, verið reynt að aðlaga Róma að háttum fjöldans með því að reyna að tryggja þeim varanlegri búsetu, menntun og fasta atvinnu. Þannig er og hefur verið reynt í hinum ýmsu heimshornum, með ólíkum aðferðum og undir ólíkum siðferðilegum og pólitískum merkjum, að fá Róma til að laga sig að ríkjandi gildismati.

Þótt hlutskipti Róma í Svíþjóð og Hollandi sé betra en þeirra sem búa víðast annars staðar á Vesturlöndum, þá er þar sem annars staðar nær algild regla að Rómar fá ekki að að ráða sínu eigin lífi. Sums taðar er hlutskipti þeirra jafnvel svo nöturlegt að morð á Róma telst varla morð.

Á Írlandi gerðist sá atburður, einhvern tíma um miðjan 7. áratug þessarar aldar, að Róminn Michael McInnerey, 41 árs og tíu barna faðir, var skotinn til bana fyrir framan fjölskyldu sína. Þar voru að verki tveir bændur sem réðust á búðir þeirra í Kilkenny héraði. Dómstóllinn fann þá ekki seka um morð, heldur hljóðaði dómurinn uppá tveggja ára fangelsi fyrir manndráp.

Samfélag okkar saman stendur af samtökum og stofnunum sem gegna afmörkuðu og vel skilgreindu hlutverki, allt frá stjórnum heimsvelda til félaga til verndar heimilislausum köttum. Rómar skipuleggja samfélag sitt með öðrum hætti. Þeir hafa engan höfðingja, enga stjórn, engin samtök, enga skóla, engan iðnað, engar efnahagslegar stofnanir. Fjölskyldan og stundum ættin er hin pólitíska og efnahagslega eining sem allt annað hvílir á.

Þeir sem stundum eru nefndir Rómahöfðingjar eru venjulega menn í miklu áliti og með sannanlega reynslu í að kljást við annað fólk, okkur hin, sem Rómar kalla gadje.

Tilraunir hafa verið gerðar til að kjósa kónga, en enginn Rómi hefur verið tilbúinn til að selja honum í hendur svo mikið sem brot af sjálfsákvörðunarrétti sínum. Þá sjaldan Rómakóngar hafa fyrirfundist, hafa þeir verið kóngar án valda. Ef einhver hefur vald til að gefa skipanir, þá er það fjölskyldufaðirinn.

Jafnvel þótt hlutverk konunnar sé síst þýðingarminna meðal Róma en annars staðar, þá er menning þeirra „patriakölsk“, feðraveldi. Oftast er elsti karlmaður fjölskyldunnar foringi, því vísdómur fylgir aldri og styrk. Hann er maður sem aðrir taka mark á, svo fremi sem hann haldi sig við ríkjandi gildismat. Ætli hann hins vegar að ganga á skjön við óskrifuð lög þeirra stendur hann einn.

Í huga þess fólks sem heyrir til hinni iðnvæddu siðmenningu, eru Rómar tengdir spásögnum, hrossaprangi, smíðum og nú bílahöndlun. Raunar leitast Rómar við að halda sem flestum tekjuöflunarleiðum opnum. Þeir hafa ekki efni á að afmarka sig við einstök svið og hafna öðrum þ.e.a.s. að sérhæfa sig, enda myndi þá líf þeirra verða snöggt um litlausara. Þrátt fyrir þessa staðreynd má þó greina vissar takmarkanir eða skilyrði sem þeir setja varðandi störf. Starfið má t.d. ekki fjötra viðkomandi við tímastiku því það fellur ekki að lífsháttum þeirra. T.d. er útilokað fyrir Róma að vinna til lengdar í verksmiðju eða verslun frá 8-16. Föst búseta má heldur ekki vera skilyrði fyrir starfi. Þá má starfið ekki fela í sér beina þjónustu við aðra. Sá Rómi sem vinnur fyrir einhvern annan, t.d. sem kaupamaður í sveit, hann er enginn sannur Rómi. Hins vegar er enginn ærumissir því fylgjandil að eiga sjálfur jörð, þá er viðkomandi nefndur „nai“ og þykir gott. Víða er þó áberandi hneigð í þá átt að lífshættir Róma séu að riðlast og aldagömul menning að týnast.

En breytingar eru ekki alltaf neikvæðar. Mörg tæki nútímasamfélags hafa hreinlega gert sumt úr gömlum lífsháttum að óþarfa. Þannig veldur síminn því að hægt er að hringja í stað þess að að skrölta langar leiðir um holótta vegi í köldum vögnum. En aukin tæknivæðing krefst aukinnar nákvæmni. Allt samfélagið mótast af þeirri auknu reglufestu sem svo mjög auðkennir iðnaðarsamfélög nútímans. Samfélagsformið gerir ekki ráð fyrir utangarðsfólki. Vissulega er sægur af atvinnuleysingjum og fólki sem lent hefur utan garðs af einhverjum ástæðum, en það er aðeins hluti af samfélagsmynstrinu. Í þjóðríkjum samtímans er ekki pláss fyrir algjört utangarðsfólk. Með einhverjum ráðum verður að fá það til að falla að ríkjandi normum.

Hvergi annars staðar en í hinum iðnvædda heimi, eyðir fólk svo mikilli orku í eitt einasta takmark; vinnuna vinnunnar vegna. Það er líkt og við séum rekin áfram af einhverjum innra krafti sem er enn áhrifaríkari en nokkur þrælapískari. Það er vinnan ein og sér sem virðist vera nautn og takmark. Í stað þess að vinna til að lifa, er lifað til að vinna. Það er löngu liðin tíð að markmið vinnunnar sé fyrst of fremst að svala frumþörfum. Nú er unnið til að fjárfesta. Aukin fjárfesting leiðir til aukinnar framleiðslu, sem aftur þýðir aukna fjárfestingu. Þessu heldur áfram þar til markaðurinn er fullmettur og offramleiðslukreppa heldur innreið sína. Maðurinn missir stjórn á sínu eigin sköpunarverki. Hinn tilbúni heimur verður drottnari í stað þjóns,- tilgangur í stað meðals.

Þótt hinar efnahagslegu afurðir aukist bæði að gæðum og vöxtum, þá hefur þessi þróun þó sínar neikvæðu hliðar. Ein af ranghverfum þessarar þróunar er sú að almúgamaðurinn er í hlutverki þjónsins, þjóns sem hefur það á tilfinningunni að hann sé bæði valdlaus og ókunnur, hálfgerður ,,pikkaló” á Hótel Jörð.

Krafan um sem mesta framleiðni leiðir af sér kröfu um sem minnst einstklingseðli. Sú hugsun að vinnan sé markmið í sjálfu sér er orðin svo inngrópuð í okkur, að við eigum erfitt með að skilja Róma, sem ekki vilja dýrka vinnuna á sama hátt. Þessari óstjórnlegu áherslu á sem mesta framleiðni fylgir annað atriði sem er táknrænt fyrir hina iðnvæddu menningu,- hið algera tímaleysi. Við höfum lítinn tíma fyrir okkur sjálf, enn minni fyrir börnin okkar en minnstan fyrir þá sem eru orðnir gamlir og slitnir eða á annan hátt ófærir um að taka þátt í framleiðslunni. Meðan hinir vinnufæru gegna sínu hlutverki í maskínuverkinu eru börnin alin upp á stofnunum, en hinir sem engu hlutverki gegna nema að bíð, fá að gera það í þar til gerðum ,,biðsölum”.

Ef mælikvarðinn á menningu þjóða væri hvernig hlúð er að hinum öldruðu, þá væru Rómar með heimsins háþróðustu menningu.

Það sem okkur finnst sjálfsögð mannréttindi og grundvallar nauðsyn hverjum þeim er vill vera virkur þátttakandi í hinum iðnvædda samfélagi, getur, séð frá öðru sjónarhorni, breyst í andstæðu sína. Lestur og skrift eru ágæt dæmi.

Franski mannfræðingurinn Levi-Strauss hefur bent á hið upprunalega hlutverk lestrar- og skriftarkunnáttu. Hann benti á að lestrar- og skiftarkunnátta hafi verið grunnur að stofnun skipulagðs ríkisvalds. Þetta væri hin dæmigerða þróun allt frá Egyptalandi til Kína, frá þeim tíma er ritlistin kom fram. Hún virðist, að hans mati, fremur hafa auðveldað kúgun en stuðlað að upplýsingu. Hin óhagnýta hlið ritlistarinnar, að uppfylla andlegar og fagurfræðilegar þarfir, er aukaatriði eða hreinlega aðferð til að styrkja, réttlæta eða dylja hið upprunalega hlutverk,- að drottna.

Hvert sem hið upprunalega hlutverk ritlistarinnar hefur verið, þá er víst að Rómar hafa óafvitandi tekið undir skoðanir Levi-Strauss og litið á hana sem tæki til að drottna. Meðan við krefjumst almennrar skólagöngu og skólaskyldu hafa Rómar barist gegn skólagöngu og neitað að læra skrift og lestur. Ástæðan er einföld, skýr og rökrétt. Ef þeir læra að skrifa og lesa má koma til þeirra boðum og bönnum í formi ritaðs máls, og þar með gera þá að skrifræðisþrælum,- þræla möppudýra sem senda þeim fyrirmæli og reikninga. Slíkt er vitaskuld til lítils þegar engin slík þekking er til staðar.

Það eru gömul sannindi, að sá sem þekkir óvin sinn eins og sjálfan sig, hann muni vinna stíðið. Sá sem vill ná tökum á og drottna yfir öðrum hann verður að þekkja fórnarlambið eða lömbin. Þessi sannleikur hefur verið sá sami hvort sem um hefur verið að ræða ríki eða einstaklinga. Rómar hafa betur en flestir aðrir tileinkað sér þessa visku. Þeir hafa brugðist svo við að þeir hafa aflað sér allrar mögulegrar þekkingar um hina, sem þeir hafa getað fengið án þess að lesa. Um leið hafa þeir gætt þess vel að að hinir fengju lítið, helst ekkert að vita um þá sjálfa. Helsta ráð þeirra í þessari viðleitni, að verjast drottnunargirni siðmenningarinnar er lýgin. „Sannleik handa Róm, lýgi handa öðrum“ að ljúga að öðrum er sjálfsagt, jafnvel skylda. Að ljúga að Róma er ófyrirgefanleg synd.

Sá er mikill sem getur narrað aðra og hámarkið er að fremja „hokkano baro“, stóra platið. En sá sem platar kynbræður sína er skúrkur. Hokkano baro getur t.d. verið þjófnaður framinn af einstökum glæsibrag. Þjófnaður er umdeildur en ekki óvanalegur ,,starfi” meðal Róma. Þeir hafa framið hokkano baro allt frá því á miðöldum. Þá var algengasta aðferðin að fá einhvern auðtrúa til að grafa fjármuni sína í jörð, þegar best lét var það gull, silfur og dýrir steinar. Áður hafði Róminn grafið sína eigin fjármuni í jörð að fórnarlambinu ásjáandi og látið hann liggja niðurgrafinn í nokkra daga. Þegar tíminn var fullnaður var sjóðurinn grafinn upp og brást þá ekki að hann hafði stórlega aukist. Þegar fáfróður bóndi eða gírugur kaupmaður sá þessi undur fór ekki hjá að draumruinn vaknaði um að verða ríkur eða enn ríkari. Og þegar ekkert þurfti að gera annað en grafa sjóð í jörð á einhvern tiltekinn stað og láta hann liggja þar óhreyfðan í tiltekinn tíma; oftast þrjá daga, var skiljanlegt að margur freistaðist til að fara að slíkum ráðum. Þegar tíminn var liðinn höfðu Rómarnir jafnan horfið sporlaust og sjóðurinn með, sem átti að aukast. Þessi mesti af öllum gjörningum listarinnar að stela hefur tíðkast fram á okkar daga.

Til eru ótal sögur um vel hepnuð „hokkano baro“, en vafalaust eru þau enn fleiri sem enginn fréttir af nema Rómar. Eitt dæmi frá Englandi á miðjum fjórða áratugnum segir frá er 65 ára gömlum manni sem var staddur út við bílskúrinn sinn. Rómakona staðnæmdist þar hjá og spurði hvort hann gæti hjálpað sér um eina eða tvær skrúfur í barnavagninn sinn. Þegar hún fékk þær og auk þess ókeypis, varð hún svo glöð og þakklát að hún tók í vinstri hönd mannsins og byrjaði að spá í lófa hans. Að því loknu bauðst hún til að blessa fjármuni fyrirtækisins. Hinn grunlausi maður tók konuna inn í eldhús og fékk henni í hendur kassa sem innihélt 26 pund og 10 shillinga í reiðufé. Konan tók seðlana og raðaði þeim á axlir mannsins og blessaði þá, enda sagði hún það sið hjá Rómum. Þegar hún var á brot voru aðeins 19 pund eftir. Það var ekki aðalatriðið að stela sem mestu, heldur hafa reisn, eða fágun yfir verknaðinum.

Til er saga frá Dom héraði á Indlandi sem sýnir að þjófnaðurinn hefur verið heiðrað starf meðal Róma: Faðir sagði einhverju sinni við son sinn: -Sonur minn það er tími til kominn að þú lærir framtíðarstarf þitt. Ég skal kenna þér að stela. Það get ég nú þegar pabbi minn, svaraði strákur. Geturðu stolið eggjunum undan gauk sem liggur á hreiðri? Ég veit ekki. Nú jæja, ég skal sýna þér. Þeir gengu varlega að tré nokkru sem gaukur hafði gert sér hreiður í. Faðir og sonur klifruðu upp og faðirinn tók eggin svo varlega að gaukurinn veitti því enga athygli. Strákur fylgdist með hverri hreyfingu föðurins og í hvert skipti sem faðirin setti egg í vasa sinn tók strákur það og lét í sinn eiginn vasa. Þegar öll eggin voru komin undan gauknum klifruðu feðgarnir niður og pabbinn hló við syninum. Hérna eru sannanirnar, sagði hann og ætlaði að taka eggin úr vasanum. En engin egg. Þegar strákur tók þau upp úr sínum vasa lagði faðirinn hönd á öxl hans og sagði stoltur. Sonur minn þú getur farið að vinna.-

Hæfni Róma að ná upplýsingum og miðla þeim, hefur oft vakið mikla undrun. Frá 18. öld hefur varðveist saga af jarðarför „yfirtartara“, sem sennilega hefur verið Rómi í miklu áliti.

Til þessarar útfarar höfðu safnast mörg hundruð Sígaunar frá ýmsum hlutum Finnlands, á aðeins 14 dögum. Þó svo þetta slekt eigi geti skrifað, né hafi nokkurn póstgang, þá vita þeir jafn vel í strjálustu landsbyggð, af öllu sem flýgur hjá, sérstaklega ef það er eitthvað sem viðkemur þeim sjálfum… Þeir hljóta að hafa leynilegar póstsamgöngur sín í millum, og gætu því orðið samfélaginu skeinuhættir.

Vitaskuld hafa Rómar aldrei ráðið yfir neinum yfirnáttúrulegum samskiptaboðum. Hins vegar má segja að þeir hafi þróað tilfinninguna fyrir fréttaöflun af því sem gerist umhverfis þá og hafa langa reynslu að meta stöðuna út frá því og bregðast skjótt við ef því er að skipta. Skilyrði þess að vera jafnan upplýsur, er að segja jafnan hver öðrum frá öllu sem skeður og hvefur einhverja minnstu þýðingu. Þeir eru óþreytandi hlustendur og hafa þjálfaða frásagnargáfu. Með því að vera sífellt á hreyfingu geta þeir skipst á fréttum frá hinum ýmsu landshlutum og með því að þeir leggja sig í framkróka að segja hver öðrum rétt frá, verður fréttin sönn, jafnvel þótt hún hafi borist á milli fjölmargra manna.

Þessari tegund fréttaflutnings -, má ef til vill líkja við leynilegar póstsamgöngur, ekki síst þegar haft er í huga að gamalt mottó er: „Segðu alltaf Róm satt og rétt, en ljúgðu að hinum.“ Þar við bætist ákveðin tegund boða sem þeir nefna „patrin“. „Patrin“ er tákn sem Rómar skilja eftir á girðingarstaurum, veggjum, glugga-, eða dyrakörmum, trjám og víðar. Með þessum táknum segja þeir frá reynslu sinni, þeim móttökum sem þeir fengu í þorpinu, á torginu á óðalsbýlinu eða í hreysinu. Þanni fá þeir sem á eftir koma að vita til dæmis hvort auðvelt er að selja, hvort áhugi væri mikill á spákúnst, hér býr ekkill, konan í þessu húsi heldur fram hjá manni sínum og þar fram eftir götunum. Þeir sem táknið skilja vita þegar í stað hvar helst er að leita fanga og hvað helst ber að varast.

Allar götur frá komu Róma til Evrópu höfðu hafa þeir ekki sterk félagsleg og pólitísk tengsl og réðu ekki yfir stofnunum sem unnu að málum þeirra. Á þessu varð breyting á fyrstu áratugum 20. aldar. Í apríl 1971 var haldið þing þar sem saman voru komnir fulltrúar þriggja milljóna Róma frá 14 löndum og stofnuðu Alþjóðasamtök Róma (World Romani Congress, WRC). 1976 var haldið fyrsta alþjóðlega þing samtakanna og því valinn staður á Indlandi. Væntanlega með vísan ti luppruna þjóðarinnar. Næsta þing samtakanna var haldið tveimur árum síðar í svissnesku borginni Genf og síðan þá hafa evrópskir Rómar hist árlega í frönsku borginni Saintes-Maries-de-la-Mer.

Þjóðernissinnar í hópi róma hafa borið í brjósti vonir um að hrun Austurblokkarinnar hafi vakið þeim vonir um að þeir gætu komist inn í samfélag Evrópuþjóða á jafnréttis- og jafngildis grunndvelli. Á þingi evrópskra Róma sem haldið var í Róm í október 1991 löðu þeir fram óskir um fá viðurkenningu sem þverþjóðlegt samfélag. Þjóð án ríkis með menningarleg, efnahagsleg og pólitísk réttindi líkt og aðrar Evrópuþjóðir, fullgildir þegnar í samfélagi Evrópuþjóða.

Þegar ríki hinnar horfnu austurblokkar hafa verið að leita eftir því að komast inn í Evrópusambandið hafa keppst við að fullyrða að ekkert misrétti eða kynþáttafordómar sé þar að finna. Þetta hefur sérstaklega gilt um þau ríki sem flestir Rómar búa. Hvað sem slíkum fullyrðingum líður hafa slík orð ekki breytt því enn búa Rómar einmitt þar við sömu fordómana og óréttlætið sem áður. Í hinu frjálslynda Tékklandi hafa til dæmis 300.000 Rómum verið neitað um vinnu og mæta stöðugum árásum. Þarna hafa magnast fordómar sem hafa náð svo langt að í tvær borgir í vestur hluta ríkisins hafa sett fram hugmyndir um að einangra nágrannasamfélög Róma frá öðrum hlutum tékknesks samfélags. Þessar hugmyndir hafa vakið mikla andúð bæði innan Tékklands og utan.

Siðir og venjur

Flestir Rómar eru og hafa verið óskrifandi og hafa því ekki skráð sína eigin sögu.Harla lítið af því sem hér hefur verið nefnt er því komið frá Rómum sjálfum, heldur ,,hinum“ sem þeir nefna einu nafni „Gadje“.Ritaðar heimildir láta þeir sig litlu skipta en leggja þeim mun þyngri áherslu á hið talaða orð og að boðin komist rétt til skila.Það fer því ekki hjá að margt úr lífi þessa sérstæða fólks er og verður okkur hinum hulið.Ekki síst á þetta við um það sem tilheyrir liðnum tíma.Þegar nær dregur verður myndin skýrari.

Sameiginleg gildi:

  • Sterk fjölskyldutengsl.
  • Sterk tengsl og samstaða innan samfélags Roma.
  • Viriðing fyrir hinum eldri.
  • Virðing fyrir látnum.
  • Óskrifaðar reglur um siðferði og viðeigandi umgengnisreglur.
  • Óskrifaðar reglur um hreinlæti.
  • Skýrlífi fyrir giftingu
  • Giftast oft ung.
  • Foreldrar hafa gjarnan milligöngu.
  • Ekki nauðungarhjónabönd (ekki alls óþekkt).
  • Brúðgumi kaupir sér brúði.
  • Þegar gifting er afstaðin verður brúðurinn hluti af fjölskyldu mannsins.
  • Hlutverk konunnar er að sjá um mann og börn og tengdaforeldra
  • Feðraveldi
  • Elsti karlinn nýtur mestrar virðingar.
  • Giftingar innan Romaþjóðar talin ákjósanleg (stundum skilyrði). Ef um blandað hónaband er að ræða þarf makinn að utan að yfirgefa sína menningu.
  • Konan ræður innanhúss en virðing hennar vex eftir því sem börnum fjölgar
  • Hreinlæti mikilvægt. Hreinlæti þýðingarmikið í Hindúismanum.
  • Ohreint:
  • gadje“ (uróhreinn sá sem er ekki Sígauni). Sumir neita að neyta matar sem gadje hefur lagað.
  • Vissir líkamshlutar (fyrir neðan mitti).
  • Neglur ekki klipptar heldur notuð þjöl.
  • Buxur og nærföt fara í sérstakan þvott.
  • Klæði karla og kvenna oft þvegin í sitt hvoru lagi.
  • Mataráhöld alltaf þvegin sérstaklega.
  • Kona sem hefur blæðingar er álitin óhrein.
  • Fæðing er óhrein og verður að fara fram utan heimilis.
  • Móðirin er talin óhrein í 40 daga eftir fæðingu.
  • Lík eru óhrein og ,,smita“ sína nánustu.
  • Lík ekki brennt alltaf grafið.

Myndasafn