Hringferð um Pólland

1. Um Pommern til Gdansk

Sléttumannaland eða Pólínaland hefur land heitið á íslensku; en á nítjándu öld upphófust framtakssamir menn sem fóru að kalla það Pólland, líklega blaðamenn, því sú stétt hefur verið einna ötulust við að skíra upp lönd á voru máli – oft af þeirri ástæðu að þeir vissu ekki gjörla á móðurmáli sínu nöfn staða sem voru í umræðu hjá þeim; vera má reyndar að útlend staðanöfn breytist í öllum túngum af þessari orsök; þetta er kanski þróun málsins. Venjulega endurskíra íslenskir blaðamenn lönd uppá dönsku, en að því er Pólland varðar virðist þó hermt eftir ensku, og er það eitt fyrir sig nógu skrýtið á nítjándu öld þegar varla nokkur maður á Íslandi kunni þá túngu. Þarlandsmenn kalla land sit Polska.

Halldór Kiljan Laxness komst svo að orði í grein sem birtist í Tímariti Máls og Menningar 1958. Hvert er þetta land sem þarna er lýst og hvaða þjóð býr þar. Er það kanski ekki byggt einni þjóð? Hvað með náttúru þessa lands, landslag, gróðurfar og dýraríki? Í þessum þætti og þeim þrem sem á eftir koma verður leitast við að draga upp mynd af Póllandi, náttúru landsins, legu, þeirri menningu sem þar hefur þrifist, sögu þarlendra og samskiptum þeirra við okkur.

Nafnið á landinu sem Halldór Laxness kaus gjarnan að nefna Sléttumannaland er dregið af orðinu pole sem merkir akur. Við gætum því kanski kallað það Akurgerði rétt eins og Sléttumannaland. Víst er að bæði nöfnin passa ágætlega því bróðurpartur þessa lands er sléttlendi og akrar.

Á 7. og 8. öld settist grein vesturslava að á landsvæði milli ánna Ódru og Vislu, á því svæði sem Pólverjar nefna Stóra-Pólland, Wielkopolska til aðgreiningar frá landi lengra í suðri, kringum Kraków, sem þeir nefna Minna Pólland, Mawopolska. Þeir nefndu sjálfa sig Polanie, (sléttumenn) og landið Polska. Það er ómögulegt að benda á einhver landamerki sem í rás aldanna hafa verið mörk Póllands. Pólsku orðin macierz (móðurland) og auczhesna (föðurland) hafa oftar en ekki verið hálfgerð þversögn andspænis raunveruleikanum því þessa sömu ættjörð hafa ýmist Rússar eða Þjóðverjar nefnt land sitt og jafnvel ættjörð. Landamerki, menning og þjóðerni á því svæði sem Pólland hefur náð yfir hefur með öðrum orðum verið stöðugum breytingum undirorpin. Eða með orðum sagnfræðingsins Norman Davids: Pólland hefur verið fiðrildi, sem fer í dag og kemur á morgun flögrandi frá einni formgerð til annarar. Sumir sagnfræðingar hafa kallað Pólland farandríki (Saisonstaat)

Þótt það Pólland sem við heimsækjum í þessum þáttum nú í byrjun 21. aldar að okkar tímatali, sé eins í laginu og það sem Nóbelsskáldið íslenska ferðaðist um, um miðbik síðustu aldar, er fjarri því að svo hafi það alltaf litið út. Fá lönd í Evrópu, og sennilega ekkert, hafa lifað svo dramatískar breytingar sem þetta og þjóðin sem þar ræður húsum. Frá því seinni heimstyrjöld lauk hefur það verið rúmir 312.000 ferkílómetrar að stærð, ríflega þrefalt stærra en Ísland. En sú stærð og form eru tiltölulega ný. Mér finnst stundum að myndlíkingin –amaba Evrópu – eigi við. Landamerki hafa teygst og togast í flestar áttir og um 123 ára bil sást það varla á landakorti. Undir lok 15. aldar var ríkjasambandið Pólland-Litháen stærst ríkja í Evrópu og náði yfir 1,115.000 fer km., sem samsvarar tæpri tífaldri stærð Íslands. Ríflega öld síðar hafði það skroppið saman og var 990.000 fer km. En var eftir sem áður stærst ríkja í Evrópu, næstum tvisvar sinnum stærra en Frakkland. En þegar hér var komið sögu var skammt í að halla færi undan fæti þessa stórveldis á brauðfótum. Á tímabilinu frá 1772 til 1795 var landinu skipt í áföngum upp á milli þriggja nágranna sinna, Rússlands, Prússlands og Austurríkis. Þegar 19. öldin reið í garð var það ekki til nema á gömlum og úreltum landakortum. Segja má að á árunum 1812-1874 hafi sést glitta í það, svona rétt til að minna fólk á að þjóðin sem kallaði sig Pólverja var ekki horfin þótt ríki hennar væri í flugumynd. Hins vegar hurfu síðustu leyfar pólskra landamerkja 1874 og sáust ekki aftur á kortum fyrr en friðardaginn 11. nóvember 1918. Sá dagur er stofndagur hins nýja pólska ríkis og annar af tveim þjóðhátíðardögum þessarar þjóðar, hinn er 3. maí, en meira um það síðar.

Það Pólland sem leit dagsins ljós haustið 1918 stoppaði þó stutt við. Eftir griðarsáttmála Hitlers og Stalíns 23. ágúst 1939, skiptu þessir grannar landinu enn einu sinni á milli sín. Þjóðverjar tóku vestur-hlutann en Rússar þann eystri. Þegar stríði lauk vorið 1945 og Pólland komst aftur á kort sem sjálfstætt ríki hafði landamerkjum enn verið breytt og síðan þá hefur það þá lögun sem við þekkjum. Nú búa þar tæpar 40 milljónir Pólverja og 95% þeirra eru rómversk kaþólskrar trúar. Að Því liggja sjö ríki: Rússland (Kalinigrad) sem einu sinni var Austur Prússland, Litháen, Hvítarússland, Úkraína, Slóvakía, Tékkland og Þýskaland. Og þó lögun Póllands hefi ekki breyst síðustu hálfa öld hefur grannríkjum, sem eiga landamæri að Póllandi fjölgað mjög síðan 1989. Á því ári, því ári sem Samstaða var að ná völdum og austurblokkin að hrynja lágu að Póllandi aðeins þrjú ríki; Sovétríkin, Tékkóslóvakía og Austur-Þýskaland.

Við skulum láta sem við séum í ferðalagi í því skyni að kynnast landi, þjóð sögu og menningu. Við tökum ferju frá Nordre toldbod við Löngulínu í Kaupmnnahöfn, okkar gamla höfuðstað. Hún er pólsk, heitir Pomerania, ég held að einmitt þetta skip hafi siglt á milli Svínóvits og Kaupmannahafnar fyrir ríflega 20 árum, þegar ég hóf að heimsækja þetta land sem augu heimsins beindust þá að. Nafn ferjunnar er a.m.k. það sama og þá og útlitið svipað. Hún er stór, tekur 900 farþega með veitingastöðum, börum, spilavíti og sundlaug, svo eitthvað sé talið. Þegar verst lét í byrjun 9. áratugar 20. aldar, Samstaða var að fæðast og múrbrestir heyrðust frá Gdansk, óttuðust margir innrás úr austri og stundum olli þessi ótti því að engir aðrir voru sýnilegir á þessu glæsilega skipi en ég og áhöfnin. Já nú sem þá er haldið yfir Eystrasalt til lítils bæjar við landamæri Þýskalands, bæjar sem um langt skeið var þýskur, og hét Svínamunde, en er nú pólskur og heitir Svínóvits.

Þegar ég kom til þessa bæjar fyrst gengu um götur hans ungir menn með fulla vasa af pólskum Slots-seðlum sem þeir buðu til kaups á verði sem var aðeins brot af því sem þau kostuðu í heiðarlegum banka. Munurinn var hins vegar sá að í banka fór maður út með umsamda upphæð, en í skiptum við þessa gamma götunnar stóðu útlendingar gjarnan eftir með aðeins brot þeim dygru sjóðum sem þeir héldu sig vera að innbyrða. Svo listilega unnu þessir menn við að afla sér tekna að mér fannst stundum að það væri hverjum þeim sem heimsótti Pólland hreint nauðsynlegt að verða rændur, það væri í það minnsta dýrmæt reynsla.

Auk gamma götunnar voru líka á ferli í þessum bæ, og ekki síst á kaffihúsum, ungar konur og miðaldra sem virtust áhugasamar um einhvers konar kynni við karlmenn.

En nóg um það. Við hittum hvorki fyrir svartamarkaðsbraskara né portkonur að þessu sinni heldur höldum sem leið liggur með rútu í norðurátt með strönd Eystrasalt. Fyrsti áfangastaður okkar er Gdansk.

Rétt við Svínóvits, í mynni Óderfljóts er eyjan Wolin. Hún er að hluta friðað náttúruvætti. Þar er land vaxið skógi; furu, beyki og eik, og yfir höfðum okkar má af og til sjá haförn. Fyrir nokkrum árum fór ég sem oftar með hóp um Pólland. Í honum var meistari Árni Waag, sem var heil alfræðibók um fugla. Í þessari ferð vonaðist hann til að sjá einhvern sjaldgæfasta fugl Evrópu, galinu gomedíu, sem mun eiga sér varpstöðvar í suð-austur hluta Póllands. Reyndar fundum við engin merki um galinu gomedíu en leit Árna bar þann árangur að við sem vorum svo heppin að njóta samvista við hann fengum litið undur himinsins; haferni, gullerni, storka, bæði hvíta og svarta, fugla af ólíkri stærð, lit og allri gerð.

Á Volin er talið að Jómsborg, sú sem Haraldur Blátönn lét byggja einhverntíma um 950, hafi staðið og henni mun hafa verið eytt af Valdimar hinum mikla árið 1170. Reyndar hafa menn ekki fundið nein merki hennar þrátt fyrir leit en sennilega hefur hún staðið einhversstaðar hér við minni Óder. Hins vegar lifir goðsögnin um Jómsborg og jómsvíkinga enn góðu lífi. Sagt er að jómsvíkingar, sem voru orðlagðir bardagamenn, séu frægastir fyrir hetjulegan dauða sinn, enda þeir uppi á þeim tíma sem alvöru hetjur glottu við dauða sínum. En Jómsvíkingar eru ekki dauðir, því hægt er að fara inn á vefslóðina jomsvikings.com og sannreyna að þeir lifa góðu lífi.

Landið hér um slóðir er flatt og hús sum komin til ára sinna, þorpin föl og heldur litlaus, nema hvað sumstaðar við þjóðveginn hafa þorpsbúar sett upp styttu af jómfrú Maríu, gjarnan við altari eða á stalli stundum skreyttum borðum. Þar stendur hún bláklædd og undirleit innan lágrar girðingar og oft logar á ljósum við fótstall hennar og þar eru gjarnan blómaskreytingar. Á þessum slóðum er þó minna um heilaga Jómfrú en víða annar staðar, enda erum við á því svæði þar sem mótmælendatrú er hvað útbreiddust. Við erum í Pommerania, Pommern, sem um langt árabil þekktist undir nafni þjóðar, sem þýskir krossriddarar útrýmdu á miðöldum. Við erum sem sagt á leið um Prússland og höldum í norð-austur. Hér og í Masúríu, enn austar og í Slesíu, vestar, þ.e.a.s. í þeim héruðum þar sem Þjóðverjar ríktu um aldir standa mótmælendur hvað föstustu fótum í pólsku samfélagi. Um 1% þjóðarinnar eru mótmælendur, sem merkir að þeir séu tæplega 400 þúsund.

Frá þessum slóðum, var ættaður frændi Margrétar I. Danadrottningar sem sameinaði Norðurlönd undir einni stjórn og stofnaði Karlmarbandalagið til mótvægis við Hansakaupmenn. Við dauða hennar 1412 tók Eiríkur af Pommern við konungdómi þótt hann hafi talist konungur frá stofnun Karlmarbandalagsins. Hann stóð þá á þrítugu. Var stríðlyndur, atorkumaður með glæstar hugmyndir um sig og hið mikla Eystrasltsveldi sem Margrét frænka hans hafði skenkt honum. Næstu tvo áratugina átti Eiríkur í miklum útistöðum við nágranna sína Hansamenn og Englendinga og raunar ýmsa mektarmenn þess þríveldisins sem hann stýrði. Þar kom að hann var harakinn frá völdum og bjó um sig á Gotlandi og lagðist þar í víking.

Það er langt um liðið síðan Eiríkur stundaði sjórán á Eystrasalti, sem er okkur á vinstri hönd þar sem við ökum í norður í átt til Gdansk. Þangað er ferðinni heitið þennan daginn, en Gdansk er einmitt sú borga Evrópu sem hvað best geymir merki auðlegðar Hansakaupmanna, undir þeirra stjórn hét hún ekki Gdansk heldur Dansig. Stofnun borgarinnar er rakin til ársins 997 og er því nánast jafngömul kristni í Póllandi en með kristnitöku varð pólska ríkið til. Í áðurívitnaðri grein Halldórs Kiljan Laxness minnist hann á þessa sögulegu samstöðu með Íslendingum og Pólverjum sem leiddi til að þjóðirnar tóku kristni um svipað leyti:

…báðir taka við trú frá Rómi á svipuðum tíma, semsé nær aldamótum 1000, alveg nákvæmlega á því tímabili þegar rómskristni var svo aum að einginn félagsskapur á jörðu hefur komist á lægra stig andlega og siðferðilega svo menn viti. Þetta var sú tíð þegar páfar og aðrir sómamenn þessa félags voru allir með hugann við það hvernig þeir gætu komið eitri hver ofaní annan á sem áhrifaríkastan hátt,- einmitt þá urðu bæði íslendingar og pólínamenn svo hrifnir af stefnunni að þeir gerðust kristnir.

Lengi stafaði íbúum borgarinnar við Visluósa og bændum á sléttunum þar í kring ógn af heiðnum nágrönnum í austri, Prússum og Litháum. Á 13. öld var svo komið að þeir áttu í vök að verjast og 1226, svona um það leyti sem Sturlungaöld var að hefjast hér á Íslandi, kallaði Konráð fursti af Masovíu á aðstoð þýsku krossriddarareglunnar. Með krossriddurum hófst þýskt landnám í Póllandi og síðar með austurströnd Eystrasalt, allt að Finskaflóa.

Þýska krossriddarareglan var kristin munkaregla sem boðaði guðsorð með sverði og blóði. Þegar ljóst þótti að henni tækist ekki að vinna Landið helga hvarf hún á braut norður til Evrópu, settist um stund að í Transilvaníu og lét ófriðlega, en var hrakin þaðan. Þegar svo var komið má segja að það hafi verið lán hennar að Innesentius III. páfi hvatti til krossferða í norður í stað austurs og jafnframt kom hjálparbeiðni frá Konráð fursta af Masovíu vegna ágangs heiðinna Prússa og Litháa. Riddarar krossins, sem fram að þessu höfðu verið árásarsveit breyttu sér í friðargæslusveit og fóru norður í Pólland að boða fagnaðarerindið. Þeir settust að norð-austur af Gdansk og fengu nokkurt land til umráða sem náði inn í Masúríu. Þeir reyndust ekki aðeins kunnáttumenn í vopnaskaki heldur þjarkar miklir í verklegum framkvæmdum og skipulagningu. Brátt var risinn kastali og áður en varði höfðu þeir sent eftir landsmönnum sínum þýskum til að yrkja jörðina og vinna sérhæfð störf handverksmanna. Krossriddarar gengu rösklega til verks, neyddu Litháa til að ganga af trú sinni og útrýmdu þeirri baltísku þjóð sem var nefnd Prússar. Það er kanski kaldhæðni sögunanr að einmitt þetta nafn horfinnar þjóðar skyldi festast á hinni nýju þýsku herraþjóð og nýnumið land. Og skyndilega og næsta óforvarandis var varnarliðið, gesturinn í húsi Pólverja, búinn að taka sér líkt hlutverk og gesturinn í frægri bók Svövu Jakobsdóttur. Hann var reyndar öllu illvígari en gestur skáldsögunnar, því hann varð ekki aðeins húsbóndi á annars heimili heldur ýmist eyddi heimilsfólkinu eða hneppti það í fjötra. Með líkum hætti unnu Þjóðverjar lönd allt norður að Finnskaflóa og sátu þar sem yfirstétt fram að seinni heimstyrjöld.

Þegar norðar dregur á ferð okkar fer landslagið að breytast. Hæðadrög og vötn og sumsstaðar skógar gleðja augað. Við erum komin til Kasjúbíu eða kasjúbsku Sviss í Pomerellen, Litlu Pommern. Nafnið Kasjúbia er dregið af nafni þeirrar þjóðar sem hér býr, lítillar þjóðar sem nefnast Kasjúbar. Það er ekki nóg með að menning Pólverja sé margbreytileg og sagan dramatísk, heldur búa margar þjóðir í þessu landi. Í fjöllunum í suð-austurhluta landsins búa Lemkar, Boykar enn austar inn í Úkraínu, Úkraínumenn, Litháar, Hvítrússar, Sígaunar og einhverjir Gyðingar.

Kasjúbar eru ein þessara þjóða og hér fyrir vestan Gdansk eru þeirra heimkynni. Þessi þjóð er vestslavneskrar ættar,hugsanlega afkomendur hinna fornu Pommera. Í byrjun 14. aldar lögðu þýskir krossriddarar þetta land undir sig, um miðja 15. öld tóku Pólverjar við og um skeið var Kasjúbía undir Sænskum kóngi, sem frá vestfalska friðnum í lok 30-ára stríðsins og fram til 1720 skreytti sig m.a. með titlinum „hertogi af Kasjúbíu“. Þegar Póllandi var skipt í fyrsta sinn af þrem á 18. öld, það var 1772, varð Kasjúbía prússnesk og var þýkst land fram yfir fyrri heimsstyrjöld. Vilhjálmur II þýskalandskeisari skreyti sig með titlinum „hertogi af Vindlandi og Kasjúbíu“. Með yfirráðum Þjóðverja var lögð áhersla á þýskuvæðingu samfélagsins. Stjórnsýsla og menntun fór fram á þýsku, en það var ekki fyrr en uppúr miðri 19. öld sem hin eiginlega þjóðarvakning varð á meðal Kasjúba. Reyndar voru þeir þar samtíga öðrum þjóðum Evrópu sem fylltust rómantískri þjóðerniskennd.

Þegar þar kom reyndu ýmsir að nýta sér hina nýju þjóðernisvakningu; Þjóðverjar sem mótvægi við hina auknu pólsku þjóðeniskennd, sama var að segja um Rússa sem höfðu lagt undir sig hluta Póllands í góðu samkomulagi við Prússa og Austurríkismenn. Pólverjar litu hins vegar ekki á Kasjúba sem sérsteka þjóð og sögðu að þeir töluðu þýskuskotna málýsku, en þjóðin væri þó ekki nógu pólsk til að teljast Pólverjar. Sama máli gegndi um Prússa sem sögðu Kasjúba ekki nógu þýska til að teljast Þjóðverjar. Kanski átti orðatiltækið „lús á milli tveggja nagla„ vel við stöðu Kasjúba á 19. öld.

Það var kanski hér á einhverjum þessara akra sem mamma Gunters Grass kom undir. Grass segir frá því í byrjun síns mikla verks, Blikkktromman, þegar brennuvargurinn Koljaiczek, eftirlýstur sakamaðu, var á flótta undan herlögreglunni og kom hlaupandi þar sem Anna Bronskí sat við reykjarmökk af brennandi kartöflugrösum í einhverjum kartöflugarði í Kasjúbíu og grillaði nýjar kartöflur og át. Þegar hún sá hvers kyns var, þessi litli feiti maður á æðisgengnum flótta lyfti hún upp pilsum sínum fjórum og hann skreið þar í skjól. Hvort það var þá sem mamman kom undir er ekki ljóst en hitt er víst að á meðan herlögreglumennirnir vöppuðu þar í kring og spurðu hana spjörum úr dró hún augasteinana inn undir augnlokin en lét skína í hvítuna, þuldi skírnarnöfn dýrlinganna fyrir munni sér á kasjúbísku – og það varð átríðufullt og áberandi,-.

Þegar Pólland varð sjálfstætt ríki á nýjan leik eftir fyrri heimstyrjöld var Kasjúbía einmitt á því svæði sem veitti Pólverjum aðgang að hafi, „Pólska hliðinu“ svonefnda. Sambúð Kasjúba og Pólverja var þó að mestu áfallalaus og samtök voru stofnuð sem börðust fyrir jafnrétti og kröfðust þess að embættismenn í Kasjúbíu og aðrir sem færu með málefni Kasjúba töluðu mál þeirra. Hörmungar seinna stríðs bitnuðu jafnt á kasjúbum og öðrum borgurum Póllands. Eftir heimstyrjöldina voru flestir Þjóðverjar ýmist reknir frá löndum sem þeir höfðu lagt undir sig frá því á miðöldum, flúnir eða drepnir, og þar með var í sviphending 600 ára gamalt sambýli orðið sagan ein. Hins vegar beið Kasjúba ekki aukið frelsi fyrstu árin eftir seinni heimstyrjöld, enda féll ekki krafa smáþjóða, hvað þá örþjóða að heimsmynd stalínismans. Það var ekki fyrr en eftir afhjúpun Krusjefs á glæpum Stalíns 1956 að Kasjúbar gátu farið að rækta garðinn sinn í friði. 1957 hófu þeir að gefa út tímaritið Kaszébé og nokkru síðar Pommerania sem lagði áherslu á blóðbönd Kasjúba og hinna fornu Pommera.

Kasjúbar hafa varist hverskonar tilraunum, bæði þýskra Prússa, Pólverja og stalínismans til að útmá þjóðareinkenni og tungu. Í dag virðist nokkur sátt vera komin á í tvíbýli Pólverja og Kasjúba sem þeir síðarnefndu lýsa kanski best með orðum skáldsins Jan Hieronim Derdowski: Það er engin Kasjúbia án Póllands og ekkert Póland án Kasjúbíu. Það hefur heldur ekki brugðist þegar erlend stórveldi hafa gert sig heimkomin í krafti hervalds að Kasjúbar hafa fylgt sér undir fána Póllands. Þorpin hér fyrir vestan Gdansk eru flest Kasjúbaþorp og þar lifir tunga þeirra góðu lífi. Kennsla fer fram í mörgum grunnskólum á máli þeirra og þeir halda stoltir fram sérkennum sínum.

Kasjúbar eru veiðimenn og hafa yndi af gleðskap og söng og fátt er skemmtilegra en að njóta gestrisni þeirra, snæða heilgrillað villisvín og njóta söngs og dansmentar þessarar litríku þjóðar, sem hefur þrátt fyrir allt tekist að varðveita sérkenni sín miðju í þjóðahafinu.

Við yfirgefum nú Kasjúbiu og nálgumst borgina. Borgin er þó ekki Gdansk heldur Gdynja. Milli þeirra er Sopot og saman mynda þær eina heild, líkt og Kópavogur, Reykjavík og Seltjarnarnes, enda kallaðar einu nafni „Þríborgin.“

Árið 1308 náði þýska krossriddarareglan, sem áður er sagt frá, yfirráðum yfir Gdansk og nefndi hana uppá þýsku, Dansig og svæðið í kringum hana Pommerellen – Litlu Pommern. Þegar þar var komið sögu var orðinn fullur fjandskapur með Pólverjum og Krossriddurum og stöðugar ýfingar þar sem Pólverjar fóru oftasts heldur halloka. 14. öldin var hins vegar ekki eitt pólskt svartnætti, síður en svo. Á ýmsan hátt var gríðarlega jákvæðar breytingar einmitt þá. Kazimierz III, sem nefndur hefur verið hinn mikli kom til valda árið 1333 og ríkti til 1370 Hann samdi frið við Krossriddararegluna til að tryggja veldi sitt, lét reisa fjöldan allan af köstulum, varnargörðum og borgum og sagt hefur verið um hnn að hann hafi tekið við Póllandi úr tré en skilað því til næstu kynslóða úr steini. Á 14. öld styrktust stjórnsýsluleg tengsl Póllads og Litháens, sem fundu samnefnara í andstöðunni við ágangi Þjóðverja. Það bandalag sem þá myndaðist leiddi til stórveldis sem um skeið var stærst ríkja í Evrópu, náði frá Eystrasalti til Svartahafs. Herjir þessa tvíeldis öttu oft kappi við hina vopnuðu riddara krists og þar kom að herjir Pólverja og Litháa höfðu betur. Sá atburður átti sér stað í skammt frá bænum Grunwald í Austur-Prússlandi. Orustan var einhver stærsta og blóðugasta í Evrópu síð-miðalda, ekki færri en 30 þúsund hermenn voru í hvorri fylkingu þann 15. júlí árið 1410. Þessarar orrustu minnast Pólverjar enn sem einhvers mikilvægasta sigurs síns á vígvelli. Þessi sigur olli þáttaskilum í samskiptum Pólverja og krossriddarareglunnar og með henni hófst sókn Pólverja að Eystrasalti. Gdansk endurheimtu þeir árið 1454 og héldu borginni til 1793. Þá komst hún enn í hendur Þjóðverja sem nú nefndust Prússar og yfirráðum þeirra lauk ekki fyrr en 1945. Reyndar fengu Pólverjar aðgang að Eystrasalti þegar landið komst aftur á kort sjálfstæðra ríkja haustið 1918, en Dansig fylgdi þá ekki með í kaupunum. Borgin var áfram þýsk, en fríríki undir vernd Þjóðabandalagsins. Pólverjar höfðu þá aðgang að sjó en enga hafnarborg sem heitið gæti og gripu því til þess ráðs að byggja eigin hafnarborg norð-vestur af Dansig, borgina Gdynia. Nú standa þær þarna hlið við hlið með borgina Sopot á milli sín.

Þessar þrjár borgir hafa hver sín sérkenni, enda að vonum, reistar á ólíkum tímum og við misjafnar aðstæður. Gdansk ber merki þess tíma þegar hún var rík Hansaborg og ein mikilvirkasta kornútflutningshöfn við Eystrasalt. Hús gamla bæjarins í ýmsum stílgerðum bera með sér auðlegð horfinna eigenda. Sama má segja um Sopot. Hún var reyndar ekki Hansaborg, en hún lýsir einnig af ríkidæmi horfinna eigenda.

Sopot var og er vinsæl vegna legu sinnar við sjóinn og góða baðströnd. Á Sólríkum sumardögum millistríðsáranna var þessi strönd vinsæll legustaður ríkra Þjóðverja og borgin fræg fyrir spilavíti og hið ljúfa líf. Á tímum Pólska alþýðulýðvelsins kepptust flokksbroddarnir við að eiga hér hús, eða í það minnsta athvarf. Einhverntíma heyrði ég að Kastró hafi gjarna notið þarna hvíldar, eins og hann hefði ekki nóg af gylltum ströndum á Kúbu sinni. Síðan 1928 státar þessi borg af lengstu trébryggju í norðanverðri Evrópu, gott ef ekki í Evrópu allri. Hún er ríflega hálfur kílómetri og framlenging á aðalbreiðstræti borgarinnar með hið táknræna nafn Monte kasínó. Við efri enda þeirrar götu og dálítið til vinstri ef gengið er frá sjó, er krá sem ber nafn eins þekktasta sonar borgarinnar. Einhver skærasta stjarna þýskrar kvikmyndagerðar, leikarinn Klaus Kinsky ólst upp í þessu húsi. Af núlifandi íbúum borgarinnar þekkja Íslendingar sennilega best Stanislaw Laskovski f.v. sendiherra Póllands á Íslandi og núverandi heiðursræðismann Íslands í Póllandi.

Æviminningar hans sem komu út í íslenskri þýðingu undir lok 20. aldar og bera það dramatíska nafn – Myrkur örvæntingar birta vonar- leiða lesandann inn í sögu mikilla umbrota og átaka. Fjölskyldan sem var aðalsættar var send eftir seinni heimstyrjöld í útlegð á sovésk samyrkjubú þar sem sennilega hefur átt að –af-aðla hana – en að lokum fór flest vel. Stanislaw komst heim til Póllandis, komst til mennta og náði frama innan utanríkisþjónustunnar. Hann og hans yndislega kona hafa oft reynst íslendingum haukar í horni þegar slíkra hefur verið þörf.

Þriðja borgin af þríborginni er Gdynía, sem allir Íslendingar þekkja frá skipafréttum. Hún er yngst þessara borga og af sumum sögð ljót. Um 1920 þegar hafist var handa við byggingu borgarinnar var þar fyrir lítið Kasjúbaþorp á landi sem hafði tilheyrt dómkirkjunni í Ólíva. Áður en fjórði áratugurinn var liðinn var litla þorpið við ströndina horfð og í þess stað komin iðanndi hafnarborg. Það var einmitt þessi leið Pólverja að hafi, „Pólska hliðið“ svokallaða sem var einn helsti þyrnir í augum nasista. Við pólska hliðið hófst seinni heimstyrjöldin með árás þýskra herja að morgni 1. september 1939. Orustuskipið Slesvík-Holstein hóf að skjóta á Gdansk og pólska herstöð á Westerplatte við mynni Vislu. Árásarliðið mætti viðspyrnu illa búinna hersveita Pólverja sem máttu sín lítils gegn ofureflinu. Þó vörðust 170 pólskir hermenn á Westerplatte í viku. Það er kaldhæni sögunanr að á svipuðum slóðum, á sandrifinu Hel fyrir utan Gdansk þar sem þjóðverjar hófu stríðið þar gáfust þeir síðast upp. Þýsk herdeild varðist á sandrifinu fram á sumar 1945

Þegar Gdynia var hernumin voru íbúar hennar fluttir brott, hún gerð að flotastöð og nafni hennar breytt í Gotenhafen. Að loknu stríði var borgin nánast rústir einar og við tók mikið uppbyggingarstarf. Nú búa í þessari borg sem svo margir tengja ljótleika um 250 þúsund íbúar og flestir sennilega bara býsna stoltir af borginni sinni. Þótt erfitt sé að leggja hlutlæga mælistiku á hugök eins og ljótt og fagurt, held ég að margar lýsingar á þessari borg eigi rætur að rekja til þeirra sem fóru aldrei lengra en frá skipi og á næstu knæpu, drukku þar frá sér góðan smekk og fóru í besta falli á kvennafar. Þessi borg hefur margt til síns ágætis fyrir þá sem hafa gaman af borgarskipulagi og arkitektúr. Stór hluti hennar er skipulagður sem heild og það eitt gerir hana sérstaka. Hún er auk þess byggð á skömmum tíma á árum sem fúnkís var að ryðja sér braut. Hún ber þess merki. Hún getur því ekki státað af glæstum húsum hansakaupmanna, né þýskum auðmannahúsum frá 18. og 19. öld eins og nágrannaborgirnar. Hins vegar hefur hún fram yfir þær heildrænt skipulag sem vinnur á við kynnin.

Íslendingar hafa haft mikil kynni af Gdynia. Á tímum pólska alþýðulýðveldisins sigldu hingað reglulega fraktskip með síld og annan varning sem sem Pólverjar voru drjúgir við að kaupa. Í staðinn keyptum við af þeim m.a. Prins Polo, kristal, vodka og gott ef ekki einhverja Ursustraktora. Auk þess eru þar miklar skipasmíðastöðvar þar sem mörg íslensk skip hafa orðið til eða verið breytt og bætt.

Við Ökum inn í Gdansk úr norðri, frá Sopot og ökum inn á 3. maí stræti og inn á 1. maí torg. Okkur á vinstri hönd blasa við kranar skipasmíðastöðvarinnar og krossinn mikli sem verkamenn reistu til minningar um félaga sína sem stjórnvöld drápu þar 1973. Nú er skipasmíðastöðin ekki lengur kennd við Lenín, eins og hún var þá, hún var einkavædd og fór á hausinn, en kranarnir standa enn tignarlegir eins og hegrar. Skipasmíðastöðin er nú minningin ein án síns upprunalega hlutverks, líkt og gamli borgarmúrinn okkur á vinstri hönd og Gullna hliðið, þar sem konungar riðu um þegar þeir komu í sína árlegu skattainnhemtu. Innan borgarmúranna standa háreist hús hansakaupmanna í sínum klassíska glæsileik. Yfir þeim hvílir einhver dulúðug ró sem þessa stundina þegar við ökum hér, er böðuð rauðum geislum hnígandi sólar.

2. Frá Gdansk til Masúríu

Íslendingar höfðu nokkur samskipti við Dansig hér á öldum áður, og hver veit nema að gamli kraninn sem stendur við höfnina og er frá því á 15. öld hafi einmitt verið notaður til að búa skip fyrir siglingu til Íslands. Á tímum einokunarverslunar Dana á Íslandi 1602-1787, var til þess tekið í annálum að þegar uppskerubrestur varð hjá dönskum bændum hafi íslendingar glaðst því þá fengu þeir ekki lélegt danskt korn heldur Dansvíkurmjöl sem þótti gæðamjöl.

Gedansk átti 1000 ár afmæli árið 1997 sem merkir að fæðing hennar hafi borið upp á árinu 997. Sú borg sem við sjáum nú ber heldur lítil merki uppruna síns, en þeim mun sterkari svip 15. 16. og 17. aldar. Gamli bærinn, sem er líkt og margir gamlir bæir Póllands, eftirlíking sálfs sín, var byggður í þeirri mynd sem nú ber fyrir augu af þýskum Hansakaupmönnum. Í rás aldanna hafa íbúar þessarar borgar þurft að glíma við ýmsar hörmungar; náttúrulegar og af mannavöldum. Mér er þó til efs að nokkurn tíma hafi þeir liðið annað eins helvíti og í lok seinni heimstyrjaldar. Að henni lokinni blasti við þeim sem lifðu rústaauðn. Eftir stríð var þegar hafist handa við að endurreisa borgina, en gamli bærinn var svo illa leikinn að erfitt reyndist að finna rétta hæðarpunkta. Einar tröppur fundust við elstu götu borgarinnar, ul. Mariska (Maríustræti). Þessar tröppur vissu menn að voru kjallaratröppur hússins númer 10 og þar með var hæðarpunktur kominn. Þá hófst það þolinmæðisstarf að raða saman steinum og brotum.

Þessi borg er kanski sú borg Evrópu sem á sér hvað dramatískasta sögu allra borga á 20. öld. Hér hófst seinni heimstyrjöld og héðan bárust fyrstu brestirnir sem boðuðuðu fall múrsins. Hér voru veralýðssamtökin Solidarnoch, Samstaða stofnuð og yfir hlið skipasmíðastöðvarinnar sem kennd var við Lenín hoppaði ungur rafvirki sumarið 1980 og hafði með þeirri ákvörðun meiri áhrifum á heimssöguna en þegar Sesar reið yfir Rubiconfljót tveim árþúsundum áður. Reyndar hófst þetta ferli ekki í Gdansk heldur borg austar í Póllandi, ekki langt frá úkraínsku landamærunum, í borginni Lublin, borg Isacs Besivig Singers, í hinni gömlu gyðingaborg sem nú geymir mynjar um gyðinglega fortíð sína í gyðingahverfinu í gamla bænum, grafreit þeirra og í bröggum Majdanek útrýmingabúðanna sem blasa við frá gamla bænum.

Það var sem sagt í Lublin sem verkamenn gerðu verkfall í maí 1980 og þaðan barst bylgjan til Gdansk þar sem Samstaða var stofnuð. Í ágúst 1980 bar Samstaða fram 21 kröfu sem stjórnvöld neyddust til að ganga að, kröfur um þriggja ára fæðingarorlof í stað eins árs, að eftirlaunaaldur kvenna yrði miðaður við 50 ár og karla við 55 ár, að laun yrðu vísitölutryggð og að tryggt yrði nægt pláss á vöggustofum og leikskólum fyrir börn útivinnandi foreldra. Kröfur um verkamannaráð og aukna sjálfstjórn í verksmiðjum urðu æ háværari. Verkamenn í verksmiðjum kröfðust meiri áhrifa á vinnustöðum sínum, jafnframt því sem þeir vildu draga úr miðstýrðum áhrifum embættis- og stjórnmálamanna sem höfðu írekað sýnt getulseysi sitt við að leysa Pólverja úr fjötrum ofstjórnar, sem raunar birtist helst í óstjórn. Samstaða fylgdi ágúst-sigrinum eftir og efldi sóknina dag frá degi. Jafnframt urðu stjórnvöld æ ráðviltari og magnlausari. Ríkið var efnahagslega gjaldþrota og engu var líkara en flokkurinn hefði steitt á pólitísku blindskeri og sæti þar fastur. Þær raddir urðu æ háværari, og háværastar vestan járntjalds, að Rússar væru að íhuga innrás.

Þann 13. desember 1981 hófst nýtt tímabil í sögu Póllands. Þann dag lýsti Wojciech Jaruzelski hershöfðingi og forsætisráðherra yfir neyðarástandi og setti herlög í landinu. Í framhaldi af því létu stjórnvöld hefja fangelsanir á leiðtogum andstæðinga sinna og reyndu að setja heraga á vinnandi fólk, einskonar hervæðing vinnunnar átti að hefjast. Vafalaust hafði flestum þeirra verið ljóst um nokkurt skeið að til úrslitaátaka myndi koma og þá yrði fátt til sparað. Flestir leiðogar Samstöðu voru fangelsaðir og máttu þola þann hrottaskap sem einkennisklæddir varðhundar kerfisins í öllum löndum eru svo gjarnir á að sýna fjötruðu fólki. En á tímum herlaganna sem voru í gildi til 21 júlí 1983, sýndi Samstaða styrk sinn, ekki aðeins með því að maður kæmi í manns stað, heldur ekki síst með því að breyta um eðli. Gamla Samstaða hvarf en við tók önnur sem erfitt var að festa hönd á.

Í fyrstu var Samstaða samtök verkamanna við Lenínskipasmíðastöðina í Gdansk en varð brátt launþegasamtök með deildir í borgum og bæjum og flestum verksmiðjum. Samtökin kröfðust gagngerra breytinga á pólsku samfélagi, efnahagslegra, pólitískra og félagslegra. Styrkur samtakanna fólst í þeirri staðreynd að þau voru verkalýðssamtök sem báru fram róttækar kröfur sem áttu miklu fylgi að fagna langt út fyrir raðir verkafólks. Vinir mínir Olga og Andrzej voru kanski dæmigerð fyrir þann breiða stuðning sem Samstaða naut frá upphafi. Hún var þá húkrunarkona og í stjórn Samstöðudeildarinnar í Varsjá, hann flokksbundinn kommúnisti og háttsettur í ráðuneyti. Ég var í heimsókn hjá þeim vorið 1982, þegar herlög voru enn í landinu. Inni í stofu var Samstöðumerki. Þegar ég spurði hvernig þetta færi saman að vera flokksbundinn kommúnisti, háttsettur ráðuneytismaður og með Samstöðumerki uppá stofuvegg, svaraði Olga með glettni í augum að Andrzej væri góður kommúnisti.

Reyndar var mér stungið í tugthús í miðborg Varsjár í upphafi þessarar heimsóknar, á sjálfum stjórnarskrárdeginum, 3. maí. Afbrot mitt var það eitt að hafa verið að taka myndir af átökum mótmælenda og herlögreglu (Zomo-liða) á torginu í gamlabænum. Þessi fangelsisdvöl mín var hvorki löng né ströng, en lærdómsrík auk þess sem rakspírinn minn var gerður upptækur, enda þekkt vopn gagnbyltingarsinna.

En nóg um það. Þessu ferli átaka Samstöðu og Kommúnistaflokksins, sem tugthúsvist mín var reyndar hluti af, má segja að hafi lokið í júní 1989 með því að gamla kerfið gafst einfaldlega upp og boðað var til kosninga þar sem Samtaða sýndi gríðarlegan styrk. Fimmtudaginn 15. júní það ár var ég á ferð í Gdansk gagngert til þess eiga viðtal við Lech Walesa formann Samtöðu. Ég spurði hann þá m.a:

,,Frá því að Samstaða var stofnuð í ágúst 1980 og fram að því að herlög voru sett sem bönnuðu starfsemi samtakanna, 13. desember 1981 hélst þú og aðrir í forystu samtakanna því fram að samstaða yrði aldrei annað en verkalýðssamtök; ekki pólitískur flokkur. Í kosningunum nú í júní bauð Samstaða hins vegar fram sem pólitískt afl. Má skilja framboðið nú sem svo að forysta Samstöðu hafi horfið frá fyrri skilgreiningu sinni?”

Walesa: ,,Ef horft er á málið að utan er hægt að segja að svo sé. Samstaða er fyrst og fremst umbótahreyfing og innan samtakanna eru ýmsar pólitískar stefnur. Samstaða er því ekki pólitískur flokkur í þeim skilningi sem þið fyrir vestan leggið í það orð. Samstaða er upprunalega verkalýðssamtök og nýtur stuðnings mikils hluta pólsks verkafólks. Við viljum auðvitað fyrst og fremst vera verkalýðssamtök en það er bara ekki hægt að vera einungis verkalýðssamtök við þær aðstæður sem við glímum við í Póllandi nú. Bágborið hagkerfi þessa ríkis er komið að hruni. Pólitískar aðstæður og lagalegur grunnur eru og þess eðlis að Samstaða á engra kosta völ ef ekki á illa að fara fyrir pólsku þjóðinni. Aðalvandinn er sá að það er enginn einn sem getur tryggt gott þjóðfélagskerfi. Þess vegna kýs Samstaða að hjálpa til við að leysa þessi efnahags- pólitísku- og hagfræðilegu vandamál. jafnframt verðum við að forðast beina stjórnarþátttöku. Enn sem komið er megum við ekki fara í stjórn og í öllu okkar starfi verðum við að gæta þess að ein tegund einræðis breytist ekki í aðra. Af þessum ástæðum kjósum við að aðstoða við að leysa vandamálin án þess að að taka á okkur völd, né taka að okkur mál sem verkalýðssamtökum kemur ekki beinlínis við. Þegar okkur hefur tekist að leysa þessi brýnustu vandamál í samvinnu við ýmsa aðra ætlum við að snúa okkur að þeim málum sem ætluð eru góðum verkalýðssamtökum.”

Í kjölfar kosningasigurs Samstöðu var formaðurinn kjörinn forseti Póllands og segja má að Samstaða hafi ráðið ferð pólskra stjórnmála og efnahagsmála. Það er þess vegna kaldhæðni sögunnar að maðurinn sem var í forystu þessa breytingaferlis og varaði við að ein gerð einræðis gæti breyst í aðra var einmitt sakaður af sínum nánustu samstarfsmönnum að hneigjast til einræðis. Einn þeirra var Pjotr Nowina Konopka og var aðstoðarmaður Walesa 1989. Hann gekk úr vistinni, og eins og margir fyrrum samstarfsmenn Walesa ásakaði hann forsetann um einræðistilhneigingu. Gagnrýnendur Walesa héldu því margir fram að helstu fyrirmyndir hans væru Pivsudski marskálkur sem var einræðisherra í Póllandi á millistríðsárunum og Benito Mussolíni, Il Duche. Mussolíni líkingin er ekki gripin úr lausu lofti því eitt helsta áhugamál Walesa var að koma á fót umbótafylkingu sem átti að vera borin uppi af helstu atvinnurekendum, verkalýðsleiðtogum, embættismönnum og stjórnmálamönnum. Markmiðið var að draga úr spennu á milli ólíkra þjóðfélagsafla en þess í stað láta þau vinna saman að umbótum. Á Ítalíu var þessari hugmynd valið nafnið korporativismi, eða starfsgreinaskipan og fólst í því að koma á stjórnkerfi sem grundvallaðist á samtökum atvinnugreina og draga sem mest úr vægi stjórnmálaflokka. Það virðist hálf kaldhæðislegt að manninum sem sagði þegar hann stóð á þröskuldi valdanna i júní 1989 að umfram allt yrði að forðast að ein tegund einræðis breyttist ekki í aðra, hafi eftir að hann sjálfur komst til valda verið ýmist líkt við Pivsduski eða Mussólíni.

Árið 1989 og næstu ár var gríðarleg verðbólga í Póllandi. Fyrir mér lýsti hún sér hvað best í fjölda frímerkja sem voru á pólskum bréfum sem mér bárust. Með hverri viku fjölgaði þeim og enn á ég umslag af stærðinni A-4 sem er svo þéttþakið frímerkjum að nafn mitt kemst varla fyrir. Í verðbólgunni blómsstraði neðanjarðarhagkerfi sem reyndar hafði lifað ágætu lífi áratugina á undan. Þó breytti það um svip. Sumarið 1991 voru meðallaun Pólverja 2 milljónir slotisa sem tæpast var nóg til að lifa af. Fyrir utan og neðan hið opinbera hagkerfi var því annað og þegar ég var þarna á ferð þá um sumarið og undraðist hvernig þetta væri hægt svöruðu vinir mínir mér því að þeir skildu ekkert betur en ég hvernig Pólverji sem fengi t.d. 2 milljónir zlotisa í laun eyddi fjórum milljónum á mánuði og léti afganginn í banka.

Gdansk er ekki sú sama í dag og í gær, frekar en fólkið sem þar býr, frekar en aðrar borgir og annað fólk. Breytingar síðustu 15 ára hafa hins vegar verið hraðfleygar, sem gildir reyndar um flestar pólskar borgir og samfélagið allt. Verðlag hefur hækkað, þótt langt sé í land að það nái íslensku mælikvörðum, byggingar í alþjóðlegum gljáfúnkís hafa risið og vestrænir skyndibitastaðir eru við hvert fótmál. Lenín-skipasmíðastöðin var einkavædd, henni gefið nýtt nafn, áður en hún fór á hausinn. Sama gildir um flesta banka og fyrrum ríkisfyrirtæki, flest var einkavætt og mikið selt til auðugra erlendra einstaklinga eða fyrirtækja. Nú er svo komið að flestir bankar Póllands eru í eigu útlendinga, stærsti hluti stórfyrirtækja og jafnvel hafa mál þróast á þann veg í Póllandi að Pólverjar eiga ekki sín eigin dagblöð lengur.

Við kveðjum Gdansk, borgina sem þessar breytingar allar hófust í og höldum eftir þjóðbraut 77 í átt til Varsjár, en þangað er ferð okkar ekki heitið í þessum áfanga heldur til Olstein í Masúríu. Við gerum þó krók á leið okkar rétt áður en við komum að Elblag, beygjum til hægri í átt til Malbork, eða Marienburg eins og þessi mikli miðaldakastali hét á máli þeirra sem reistu hann, krossriddaranna þýsku sem áður hafa komið við sögu. Þessi gríðarlegi múrsteinskastali á Vislubökkum var reistur í mörgum áföngum, en bygging hans hjófst seint á 13. öld. Þorpið sem þar stóð fékk nafn af kastalanum og hét á máli Þjóðverja Marienburg (Maríuborg). Eftir tæplega tveggja alda stjórn yfir héruðunum hér um kring neyddist krossriddarareglan til að selja Malbork, reyndar ekki til Pólverja heldur Tékka sem, seldi hann aftur pólsku krúnunni. Pólskir konungar notuðu svo kastalann sem áningarstað þegar þeir fóru frá Varsjá að heimta skatt af fríborginni Gdansk. Þegar Póllandi var svo skipt upp á milli stórveldanna þriggja á 18. öld komst Malborkkastali undir stjórn, fyrri eigenda, Prússa og komst ekki í hendur Pólverja fyrr en sem grjóthaugur í lok heimstyrjaldarinnar síðari. Ótal stríð umliðinna alda léku hann grátt og ekki síst það síðasta, heimstyrjöldin 1939-1945. Þjóðverjar höfðu vopnageymslur sínar þar og þegar Rauði herinn nálgaðist var hann sprengdur.

Enn er haldið af stað og áður en við komum til áfangastaðar okkar að þessu sinni stoppum við, við bæinn Grunvald í Masúríu. Við þennan bæ átti sér stað einhver frægasta orrusta Pólverja. Það var árið 1410 og þá börðust hersveitir bandalags Pólverja og Litháens við þýsku krossriddarana og höfðu betur. Við erum komin inn í fyrrum Austur Prússland, landsvæði sem var bitbein Pólverja og Þjóðverja allt frá því að krossriddarar lögðu landið undir sig á 13. öld og fram að árinu 1945. Hér við Grunvald reistu Pólverjar minnisvarða um orustuna 1410 en það minnismerki sprengdu Þjóðverjar í loft upp eftir í seinna stríði. Skammt hér frá, við bæinn Olstynek lét Hitler hins vegar reisa minnisvarða árið 1934. Þetta minnismerki Hitlers átti ekki að minna á ófarir þýskra herja undir lok miðalda heldur glæstan sigur Hindenburgs markskálks yfir Rússum 1914. Þann minnisvarð sprengdu Rússar svo þegar þeir fóru hér um árið 1944. Já það virðist sama hvar maður stígur niður fæti hér í Póllandi alls staðar hrópar sagan á mann allt í senn, krefjandi, ögrandi, stórkostleg og harmþrungin.

Við höldum frá Grunvald og stefnum í norðurátt, um sveitir Masúríu. Landslag hér er breytt. Í stað flatlendis taka við skógivaxnir ásar, vötn, lítil þorp og bæir. Mörg húsin eru úr tré og byggð samkvæmt aldagamalli hefð. Á vötnum sjást bátar, ýmist fiskimanna eða sportbátar fólks sem nýtur þessarar fögru náttúru, sem Pólverjar nefna sjálfir -hin grænu lungu sín. Þegar krossriddara bar að voru sveitir Masúríu dreifbýlar. Hér fyrir norðan og austan bjuggu Prússar og Litháar. Við fyrstu skiptingu Póllands árið 1772 varð Masúría hluti Prússlands og hér bjuggu þýskir bændur með þýska siði. Fram til 1945 var Masúría þýskt land og enn sjást merki þýskrar fortíðar, m.a. í hlutfallslega stórum söfnuðum mótmælenda, í byggingum og nöfnum staða og bæja sem flest eru bæði pólsk og þýsk.

Við ána Lyna (Wina) í Masúríu er borgin Olsztyn eða Allenstein uppá þýsku, stærsta borg Masúríu. Þar búa tæplega 170 þúsund manns. Fyrir seinna stríð var meirihluti borgarbúa þýskumælandi og borgin hluti af Austur Prússlandi, en í lok stríðs voru þýskumælandi íbúar borgarinnar reknir til vesturs og í þeirra stað komu Pólverjar sem flæmdust undan Rússum sem sóttu að úr austri. Gamli bæjarhlutinn er líkt og flestir gamlir bæjarhlutar pólskra borga endurbyggður, og kanski oftar en einu sinni. Þegar Rauði herinn sótti inn í borgina undir lok seinna stríðs voru ríflega 40% hennar eyðilögð. Fyrri heimstyrjöld fór heldur ekki framhjá íbúum borgarinnar og engin öld síðustu þúsund ára fór svo framhjá að ekki kæmi til einhverra stríða stórra eða smárra. Árið 1521 þurftu borgarbúar að verjast árásum hinna þýsku krossriddara. Einn af skipuleggjendum varnanna var Nicolaus Copernicus, sem þá var háttsettur embættismaður í borginni. Nikulás Kóperníkus, þessi mikli vísindamaður endurreisnartímans, fæddist í borginni Torun árið 1473, stundaði nám í Kraków og á Ítlíu, var embættismaður um hríð hér í Olstyn og lést 1543 í klaustrinu í Frombork. Þar hafði hann reyndar búið og starfað lungan úr starfsævi sinni og þar skrifaði hann sitt klassíska verk De revolutionibus orbium coelestium (Um hreyfingu himintunglanna) þar sem hann sýndi fram á að það væri Jörðin sem snerist um öxull sinn og um sólina en ekki öfugt. Sennilega varð það honum til bjargar hversu seint rit hans kom út, en það birtist rétt fyrir dauða hans árið 1543. Reyndar var því ekki gefin neinn sérstakur gaumur fyrr en síðar þegar Galeleo Galilei vitnaði til bókarinnar en þá var hún líka bannfærð af kirkjunni. Þótt Kóperníkus sé einhve merkasti fulltrúi endurreisnarinnar er felst mikilvægi hans fyrst og fremst í þeim grunni sem hann lagði fyrir aðra sem síðar komu; menn eins og Kepler, Galilei og Newton. Hálfbróðir okkar Íslendinga, Bertel Thorvaldsen var fenginn til að gera styttu af Kópeníkusi þegar hann dvaldi í Varsjá árið 1820. Styttan var tilbúin tíu árum síðar og trónir á stalli í miðborg Varsjár og hefur gert það hátt á aðra öld.

Við höldum áfram ferð okkar um Masúríu í austurátt að landamærum Hvíta-Rússlands. Eftir því sem okkur miðar austar fer storkum einnig fjölgandi á þökum húsa og á staurum. Pólland er reyndar það landi í heiminum öllum sem getur státað af stærstri storkabyggð. Ekki færri en 41 þúsund pör verpa hér á hverju sumri. Við þekkjum flest þann hvíta, í það minnsta af afspurn en svart afbrigði er einnig til, þó miklu minni stofn. Ef vel er gáð og heppnin með okkur gætum við þó komið auga á svart storkapar. Hér um slóðir hafa þeir varpstöðvar. Það virðist þversagnarkennt að mengunin sem sögð var hafa hrakið svo til alla storka frá Danmörku virðist ekki hafa bitið á storkastofninn í Póllandi, og þó er mengun sögð mikil í Póllandi. Hennar verður hins vegar ekki vart hér í Masúríu, í það minnsta ekki þeirrar sem maður greinir með augum og nefi.

Náttúra Masúríu, sem dregur að sér fólk sem vill njóta fegurðar og kyrrðar, er ekki heppileg til verksmiðjuvæddrar stórræktunar. Bændur hér um slóðir eru flestir smáir einyrkjar og þegar mannlífið hér er sett undir efnahagslega mælistiku verður niðurstaðan ekki uppörfandi. Iðnaður er fremur lítill og mikið atvinnuleysi. Atvinnuleysi er mjög breytilegt eftir landshlutum. Ástandið er alla jafna best í borgum, en verst hér í Masúríu og í austurhlutum Póllands. Á þessum svæðum hefur atvinnuleysi í mörg ár verið um og yfir 20%.

Ráð þeirra sem ekki vilja sætta sig við atvinnuleysi er að hverfa til borganna og leita þar gæfunnar. Oft lenda ungmenni sem fara þá leið í gæfuleit stutta og greiða braut í hundana. En auðvitað er það ekkert lögmál. Sumir fara líka enn lengra en til einhverrar stórborgar Póllands og halda til nágrannalanda í leit að vinnu. Þýskir vinir mínir hafa í mörg ár haft systur tvær héðan sem heimilishjálp. Báðar eru þær giftar og búsettar í litlu þorpi í Masúríu. Þær leigja herbergi í Berlín og skiptast á um að fara þangað til dvalar hálfan mánuð í senn til að þrífa. Svo eru aðrir sem halda enn lengra, jafnvel til Íslands.

Hér ekki langt frá þar sem við ökum, í landslagi sem gæti verið af póstkorti, landslagi sem er eins og frummynd rómantískrar náttúrufegurðar, er bærinn Stare Jucka. Í júní árið 2000 var ég þar staddur ásamt hópi íslendinga. Við höfðum þegið þar heimboð þar sem reitt var fram kaffi og kökur af mikilli rausn, ógleymanlegar eplakökur og þær frægu hunangskökur frá Torun sem þar hafa verið bakaðar frá því á miðöldum og hafa ásamt Kóperníkusi gert bæinn frægan. Í hópnum voru nokkrir knattspyrnufýklar sem höfðu fráhvarfseinkenni sem mögnuðust upp við þá staðreynd að þá stundina fór fram leikur í einhverri stórkeppni, gott ef ekki heimsmeistarkeppni. Eftir að hafa gert kaffi og kökum skil brugðu þeir sér á þorpskrána þar sem leikur var sýndur á skjá. Eitthvað hafa hljóð okkar landanna vakið eftirtekt því Pólverjar sem þarna voru brostu og sögðu Ísland. Ungur maður vatt sér að mér og spurði á góðir íslensku hverra erinda við værum þar. Þegar ég hafði svarað því spurði ég hann á mót hverju það sætti að hann talaði svo góða íslensku. Það er af því að ég vinn í Garðinum svaraði hann. Í ljós kom að undanfarin níu ár hafði hann farið á hverju hausti til Íslands, hann leigði herbergi í Sandgerði og ekur á hverjum morgni til vinnu þar sem hann hefur verið ráðinn frá fyrstu tíð. Ég komst auk þess að því mér til mikillar furðu, að fjöldi þorpsbúa talar Íslensku og allir vita meira en meðal-Pólverji um Ísland. Eins og svo oft áður er skýringar er að leita í ástinni.

Fyrir mörgum árum var þetta þorp umgjörð ástarævintýris sem dró mikinn dilk á eftir sér. Ungur sjómaður sat á öldurhúsi í Gdynia ásamt félögum sínum. Hann var fremur hlédrægur, jafnvel feiminn og ekki stórtækur kvennamaður. Skammt þar frá sat ung kona og áður en varði hefði myndast augnsamband sem leiddi til einhverra samskipta, sem að sínu leyti leiddu til þess að hann fékk í hendur nafn og heimilisfang hennar. Á siglingu um höfin blá hvarf hún honum vart úr huga og þegar hann kom næst til Póllands fékk hann leyfi til að munstra sig af á milli túra. Hann hélt rakleitt til Varsjár með næturlest. Á þeim árum tók ferðin á milli Gdynia og Varsjár heila nótt og oft var engin leið að fá svefnklefa. Þegar hann kom til Varsjár um morguninn hafði hann ekkert sofið, bæði vegna þess að svefnvagn var ekki að fá og sennilega einnig vegna mikillar tilhlökkunnar. Stare Jucka stóð á miðanum, en hvar er Stare Jucka? Hann hugsaði rökrétt, ályktaði að ef lest færi frá Varsjá til Stare Jucka sem hann vissi, þá kæmi nafnið Stare Jucka upp á skilti í aðalsal Járnbrautarstöðvarinnar. Hann settist því fyrir framan skiltið og beið. Fyrsta klukkustundin leið og sú næsta, enn önnur og sú fjórða. Undir kvöld hvarf syfjan og þreytan fyrir himneskum fögnuði. Nafnið á þorpinu yndislega kom á töfluna sem sagði að lestin færi frá spori 8 kl. 21. Það fór með þá lestarferð eins og fyrri að hann fékk ekki svefnklefa og varð að sitja svefnvana uppi þá nótt líka. Þegar hann kom til Stare Jucka, snemma næsta morgun, hélt hann rakleitt á hótel sem var í þorpinu miðju og bað um herbergi. Hann var ósofinn og vildi hvílast og komast í bað áður en stóra stundin rynni upp og hann sæi dísinga aftur. En þegar hann bar fram ósk um að fá herbergi var honum svara að því miður væru öll herbergi í leigu. – Það var engu líkara en jörðin væri að gefa sig undir mér og við mér blasti hyldýpi örvæntingar,- sagði hann síðar. Þegar stúlkan í lobbýinu sá hversu þetta fékk á hann benti hún yfir götuna og sagði að þar væri hugsanlega hægt að fá heimagistingu. Hann gekk þá yfir götuna og áður en varði var hann kominn inn í eldhús, sat við borðið með brauð, pylsur og osta á diski og glas af vodka. Hann fór allur að braggast og þegar hann hafði tæmt glasið áræddi hann að spyrja um stúlkuna, hvort húsráðendur þekktu hana,- hana Ewu?- já já, hún býr hér í vesturenda þorpsins ásamt eiginmanni og þrem börnum.- – Þegar ég heyrði þetta var eins og jarðsprungan sem ég fann fyrir í anddyri hótelsins nokkru áður væri aftur undir fótum mér og nú miklu breiðari og dýpri en þá. Það þyrmdi yfir mig og ég fór allur að titra. Viðbrögð húsfreyunnar við þessum geðhrifum mínum voru þau að hún fyllti glasið mitt aftur með vodka og aðstoðaði mig við að bera það að vörum. Þegar innihaldið var komið niður fór gjáin að dragast saman og gott ef ekki sást í litla sólarglætu á festingunni. Ég leit í kringum mig og sá að í dyragættinni stóð stúlka sem brosti til mín svo yndislega að ég fann festu undir fótum og birtu leika um huga mér. Má ekki bjóða þér sæti sagði ég við hana um leið og ég klappaði mér á lær til merkis um hvar væri laust sæti. Hún kom til mín, settist og hefur setið þar síðan. Nú er hátt í annan áratugur liðinn og við eigum tvo stráka. –

Þetta er ævintýrið sem dró á eftir sér dilkinn þunga. Því hún flutti til Íslands, reyndar eftir nokkra glímu við báknið. Þegar hún hafði komið sér fyrir fóru vinir hennar að koma til vinnu og svo vinir þeirra og núna er eins og allir þorpsbúar hafi verið á Íslandi, en það eru nú kanski ýkjur.

3. Til Varsjár

Síðasta þætti lukum við með heimsókn hjá þeim heiðurshjónum Þorvaldi og Jönu, en leiðir þeirra láu fyrst saman í þorpinu yndislega, Stare Jucka í Masúríu. Áfram er haldið um land þar sem skiptast á hæðdrög, skógar, vötn, þorp og bóndabæir umkringdir smáum ökrum og túnum. Viða sjást menn standa yfir einni kú, líkt og þeir séu vaktmenn hjá Sekúritas að gæta verðmæta. Reyndar eru vaktmenn kúnna ekki í einkennisbúningi, en þó er klæðnaður þeirra svo svipaður að hann mætti skilgreina sem einvhers konar úniform. Slíka kúágæslumenn sér maður reyndar víðar í Póllandi en hér í Masúríu.

Haldór Laxness veitti þessu einnig athygli og setur þennan starfa undir pólitíska mælistiku í þeirri dýrlegu grein sem margoft er hér vitnað til.

Okkur hefur verið kent og margur trúað því að sósíalismi þýddi meðal annars hjarðir af feitum troðjúgra kúm í afgirtum högum svipað og t.d. í Danmörku, en ef satt er að sósíalismi ríki í Póllandi, og þó ekki væri nema að forminu til, virðist sem þessi hugmynd þarfnist nokkurrar endurskoðunar. Eitt af því skrýtnasta sem fyrir augun ber hvar sem maður ekur um Pólland er karl, kona eða únglíngur sem stendur lon og don yfir heldur rýrri kú (einstökusinnum tveimur, örsjaldan fleirum), og virðist hafa það starf með höndum að bíða meðan skepnan fylli sig. Þessi vinna er einhver andsósíalískust starfsemi sem ég hef horft uppá í landbúnaði.

Já enn sjást kúagæslumenn að störfum í grösugum högum Póllands. Við sjáum líka fólk, oft margt, bogra á nýplægðum ökrum við einhverja sýslan, og á þröngum götum mætum við stundum vagni sem dreginn er af hesti. Hér í Masúríu hefur ekki margt breyst frá því rithöfundurinn Siegfried Lenz ólst hér í litlu þorpi sem hann gerði ódauðlegt með bókinni Þorpið yndislega.

Kanski var það einmitt hér hjá þessu þorpi sem við ökum nú framhjá að, tvær ógleymanlegar persónur bókarinnar, þeir herra Plew og herra Jagelka gengu einn góðviðrisdag.

Báðir voru berfættir. Annar var með geit í bandi, hinn var með kálf. Þeir hittust við gatnamótin og á meðan kálfurinn og geitin virtu hvort annað fyrir sér í forundran, heilsuðust mennirnir berfættu, snússuðu sig og urðu – án mikilla málalenginga – sammála um að þessi drottins dagur mætti teljast hinn ágæstasti markaðsdagur, því að himinninn þandi sinn bláa barm, engispretturnar suðuðu af hjartans lyst og loftið var þrungið vonglöðu bliki. Þegar þeir höðfu eins og áður er að vikið lagt blessun sína yfir daginn, sprændu þeir saman á grasið við þjóðveginn og fengu sér aftur í nefið. Síðan kallaði herra Plew á geitina sína og herra Jegelka á kálfinn sinn. Þeir brugðu kaðlinum yfir öxl sér og stikuðu síðan rösklega af stað með skepnurnar í eftirdragi. Schissomir, þetta indæla markaðsþorp, var sex mílur í burtu og þessar mílur þurfti að ganga. …

Við kveðjum þá félaga herra Plew og herra Jegelka, en bendum þeim sem vilja kynnast þeim frekar, á bók Siegfrieds Lenz, Þorpið yndislega. Sögur frá Masúríu, í þýðingu Vilborgar Auðar Ísleifsdóttur.

Nú er ferð okkar heitið til Biawisa skógar ekki langt frá borginni Byalistok og rétt við landamæri Hvíta-Rússlandi. Ludwig Zamenhof fæddist í Byalistok árið 1859. Hann var gyðingur eins og stór hluti þess fólks sem bjó á þessu svæði innan rússneska keisaradæmisins fyrir seinni heimstyrjöld. Í sumum þorpum og bæjum voru svo til allir íbúar gyðingar og töluðu yiddis, einhverskonar miðaldaþýsku með orðum úr rómönskum málum, slavneskum, hebresku og armensku. Zamenhof lagði fyrir sig augnlækningar, en verður væntanlega fyrst og fremst minnst fyrir það að hafa búið til nýtt tungumál, Esperanto. Að Esperanto skyldi einmitt verða til hér, í þessu fjölmenningarlega og fjölþjóðlega samfélagi, er, þegar allt kemur til alls, ekki svo skrítið. Hér bjó saman fólk af mörgu þjóðerni og talaði óskild tungumál. Sjálfur ólst hann upp við yiddish pólsku, þýsku, rússnesku og hebresku. En það voru ekki nema fáir í þessu fjölþjóðlega samfélagi sem töluðu annað mál en sitt móðurmál. Zamenhof var barn að aldri þegar hann tók eftir því að ólík þjóðarbrot sem bjuggu saman áttu í erfiðleikum að skilja hvert annað. Úr því vildi hann bæta. Það gerði hann með því að búa til mál úr tungumálum sem fyrir voru, indó-evrópskum, slavneskum, yiddish, hebresku. Mál sem er, að sögn þeirra sem það kunna, einfalt, rökrétt og fagurt. Og að sjálfsögðu eru textar samdir á þessu máli.

Mörg þorp hér í austur-Póllandi voru byggð að mestu, eða öllu leyti Gyðingum. Þeir sem ekki voru Gyðingar voru ekki rómversk kaþólskrar trúar heldur grísk kaþólskrar og grísk orþodox. Gyðingarnir hurfu á árunum 1941-1945, en grísk orþodox rétttrúnaður lifir hér góðu lífi. Í dag teljast 1,5% Pólverja til rétttrúnaðarkirkjunnar. Við skulum bregða okkur inn í slíka kirkju austast í Póllandi. Hún stendur hér í þorpinu við jaðar Biaowisaskógar. Prestur stendur við altarið í gylltum hökkli, síðskeggjaður og tónar djúpum rómi. Söfnuðurinn svarar. Málið sem þessi athöfn fer fram á er ævafornt rússneskt, hefur ekkert breyst í aldir og er allt annað mál en söfnuðurinn talar hvunndags. Söfnuðurinn stendur og tekur þátt í helgihaldinu með því að svara presti þegar við á. Stundum stendur slík messa í þrjár klukkustundir og alltaf standa þeir sem taka þátt. Hins vegar mun ekki vera óviðeigandi að ganga út og koma inn þótt það sé í miðri messu.

Við erum komin út úr kirkjunni og göngum inn í skóginn, sem mun vera síðustu leifar hins óhreyfða Evrópuskógar enda á náttúruverndarskrá UNESCO. Hann þekur 1260 ferkílómetra og nær inní Hvítarússland. Inní skóginum er veiðihús sem Alexander II Rússasar lét byggja ekki löngu áður en hann var sprengdur í loft upp á götu í St. Pétursborg árið 1881. Nú er a.m.k. hesthúsið notað sem gistihús, lúið og þreytt. Töframáttur umhverfisins er þó slíkur að hver sem hér gistir er ekki með hugann við lúnar innréttingar eða salernisaðstöðu. Náttúran töfrar jafnvel þann sem erfitt á með að greina muninn á jólatré og jólatré. Reyndar eru fæst trén í þessum skógi grenitré. Hér eru ævagamlar eikur, og önnur lauftré og innan um þau lifa ýmsar tegundir viltra spendýra, hindur, hirtir, villisvín, otrar, að ógleymdum Evrópu-vísundinum. Það er einmitt hér sem honum var útrýmt í fyrri heimstyrjöld. Það var lífríki jarðar til happs að einhverjum árum áður höfðu Pólverjar gefið Svíum kálfa héðan til að hafa í dýragarði. Þegar stríði lauk og menn uppgötvuðu að vísundinum hafði verið útrýmt fengu Pólvejar til baka kálfa frá Svíum og gott ef ekki Þjóðverjum sem einnig höfðu fengið kálfa. Dýrunum var sleppt í Biawisaskóg og nú 80 árum síðar hefur þeim fjölgað svo mikið að þeir hafa verið fluttir til ýmissa skóga Póllands og farið er að veiða einhver dýr á hverju ári.

Það er erfitt að hverfa úr þessu umhverfi og inn í einhvern myrkasta kafla mannkynssögunnar. Á leiðinni til Varsjár komum við þar sem Treblinka útrýmingarbúðirnar voru. Þær voru hér í austur Póllandi, inni í skógi þar sem erfitt var að koma auga á þá starfsemi sem þar fór fram. Vafalaust spyrja sig margir hvers vegna svo margar illræmdar fanga- og útrýmingarbúðir voru í Póllandi, búðir eins og Belsec, við landamæri Úkraínu, Maidanec, við Lublin, Stutthoff, skammt frá Gdansk, Sobibor, ekki ýkjalangt frá Lublin, Treblinka hér um 100 km. fyrir norðan Varsjá að ógleymdum þeim afkastamestu, Auschwich-Birkenau fyrir vestan Kraków. Svarið er kanski ekki sjálfgefið, en væntanlega felst hluti skýringarinnar í þeirri staðreynd að það var einmitt hér í Póllandi sem gyðingar voru flestir, auk þess sem víða voru ákjósanlegir staðir með tilliti til samgangna víðsvegar að úr Evrópu.

Við gerum hér stuttan stans, enda ekki mikið að sjá. Búðirnar voru sprengdar eftir að fangar gerðu uppreisn í ágúst 1943. En meðan starfsemin gekk hér fyrir fullum dampi komu járnbrautarlestar dag og nótt með troðfulla vagna af fólki. Við komuna blasti við stöðvarhús með klukkuskífu og tíma- og áfangatöflur þar sem sjá má hvenær næsta lest færi til Varsjár, Bialystok eða Lublin. Fæstum af farþegunum gafst tími til að greina að vísar klukkunnar hreyfðust ekki, enda málaðir á skífuna, og lestar komu þétttroðnar fólki sem kom og fór ekki lengra. Treblinkabúðirnar voru útrýmingarbúðir, ekki gerðar með neitt annað í huga en að taka sem flesta af lífi á sem skemmstum tíma, fyrir sem minnstan kostnað. Þann tíma sem þessi dauðafabrikka var starfrækt var Austurríkismaðurinn Franz Stangl hér yfirmaður. Þessi rólyndi lögreglumaður hafði hafið þennan feril sem hinn dæmigerði skrifborðsmorðingi á stofnunum sem sérhæfðu sig í svonefndum „líknardrápum“ á fötluðu fólki. Eftir stríð var hann tekinn og dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að bera ábyrgð á dauða um 900 þúsunda. Hér er nú minnisvarði og safn um þessa skelfilegu sögu grafið inní skógi og ekki í alfaraleið frekar en þá þegar ofnarnir hér voru kyntir á fullum dampi.

Við skulum ekki stoppa hér lengur við. Við eigum eftir að gera lengra stans í Auschwich og fjalla nánar um helförina. Ferðin heldur áfram í átt til höfuðborgar Póllands, Varsjár. Höfuðborg Póllands, borg með um um 1,7 milljón íbúa, borgina sem er eitt iðandi líf, samfélag í gerjun borgina þar sem andstæðurnar syngja dúett.

Þó Varsjá sé að stofni til frá 14. öld var það samt ekki fyrr en á árunum 1596-1611 að hún haslaði sér völl sem höfuðborg Póllands. Borgin óx og blómstraði og varð skjótt miðpunktur pólks athafnalífs og stjórnsýslu. Árið 1596 lét Sigmundur konungur III Vasa flytja stjórnsýsluna frá Kraków til óásjálegs þorps á Vislubökkum. Ákvörðun um flutning konungsseturs hafa Krakóvbúar aldrei fyrirgefið. Sé tilfinningum sleppt var þessi ákvörðun hins sænskættaða konungs rökrétt. Í fyrsta lagi hafði höllin á Wawelhæð orðið illa úti í brunum árin á undan og þar að auki er rökrétt að höfuðborgin væri meira miðsvæðis í ríkinu en Kraków var, lengst suð-austast við rætur Karpatafjalla. Flutningurinn tengist nefnilega stækkun ríkisins með sameingingu Litháens og Póllands. Með henni var ríkið orðið stærst í Evrópu, og Kraków í útjaðrir þess. Hins vegar hafði Varsjá 16. aldar ekki yfir sér konunglega tign, fjarri því. Bærinn var samsafn lágreistra tréhúsa og múrsteinskirkna á masovísku sléttunni, sem var einhver órækarlegasti partur Póllands. Við flutning höfuðborgarinnar var hafist handa við að breyta þessum litla bæ í borg og engu til sparað. Konungshöllin, sem enn stendur, var þá reist og aðrar hallir á næstu áratugum, hallir sem geisla af glæsileika, hallir eins og sumarhöllin Wilanów (Villa nova) og Wazienki í garðinum við Vislu sem nú er oftast kenndur við tónskáldið Copin. Allar þessar hallir eiga það sammerkt með svo mörgum höllum og borgum í Póllandi að vera eftirlíkingar af sjálfum sér.

Með Sigmundi III. hófst timabil mikilla átaka við Svía og á árunum 1655-1657 bombardéruðu þeir Varsjá, undir forystu Karls X Gústavs. Þrem árum áður, eða 1652, voru staðfest lög sem voru sennilega afdrifaríkari en árásir Svía. Þessi lög, liberum veto, leyddu til algjörs stjórnleysis, með því að þau heimiluðu hverjum og einum þingmanni að fella lagabreytingar, með öðrum orðum, hver þingmaður hafði neitunarvald um framgang mála. Þetta ákvæði átti sennilega að vera framsækið og lýðræðislegt, en ef svo var breyttist það strax í andhverfu sína. Í reynd var landið stjórnlaust og hverskonar framfarir útilokaðar. Að sjálfsögðu gátu nágrannaríkin, Rússland, Prússland, Austurríki og jafnvel Svíþjóð notfært sér þetta. Í byrjun 18 aldar komu Svíar aftur og skildu eftir sig rústir, blóð og tár, en liðu sjálfir undir lok sem stórveldi, en hin stórveldin þrjú sem hér voru nefnd lifðu áfram og áttu eftir að koma við sögu Póllands.

Á seinni hluta 18. aldar þutu yfir landið pólitískir straumar sem vildu rífa þjóðina upp úr þeirri ringureið sem hafði verið einkennandi fyrir pólskst sjórnmálalíf um langt skeið. En það var um seinan. Nábúaríkin þrjú voru búnir að leggja drög að örlagavef.

Árið 1772 réðust herir Prússa, Rússa og Austurríkismanna inn í landið og skiptu þriðjungi þess á milli sín. Þrátt fyrir niðurlægingu og þrátt fyrir að 35% þjóðarinnar væri kominn undir erlenda stjórn, gáfu umbótamenn samt ekki upp alla von. Þann 3. maí 1791 fékk þjóðin stjórnarskrá sem átti að tryggja þingbundna konungsstjórn. Slíkt hafði hvergi þekkst áður. Þótt stjórnarskráin fæli í sér miklar umbætur var hún fyrst og síðast liður í valdatafli,- valdatafli sem ekki var einskorðað við Pólland heldur geisaði um alla álfuna. Þetta var baráttan milli hinnar ört rísandi borgarastéttar og hnignandi aðals. Borgarastéttin efldist og jafnvel smábændur fengu lagalega vernd. Nýjir skattar voru settir á sem standa skyldu straum að kostnaði við uppbyggingu sterks fastahers. Þessar stjórnarskrárbreytingar náðu þó flestar ekki lengra en að verða orð á hvítum pappír. Hluti þeirra samfélagsafla sem biðu lægri hlut með viðtöku stjórnarskrárinnar neitaði að fallast á úrslit mála og kallaði á hjálp hins erkiíhaldssama Rússasars. Hann brá við skjótt.

Á árunum 1793 og 1795 var Póllandi endanlega skipt upp milli hinna voldugu granna,- Rússlands, Prússlands og Austurríkis. Þótt Pólland væri fjarlægt af landabréfinu hélt pólska þjóðin áfram að vera til. Á næstu árum og áratugum risu Pólverjar margsinnis upp, en allar uppreisninr voru kæfðar af mikilli hörku. Margir Pólverjar börðust t.d. með Napóleon í þeirri von að það myndi leiða til frelsis. Og danski bókmentagagnrýnandinn Georg Brandes gat þess eftir að hafa ferðast til Varsjár á seinni hluta 19. aldar að fínna fólkið talaði allt frönsku og tækju Rússum langt fram í kunnáttu sinni um þá tungu. Við skulum athuga hvað Georg Brandes hafði annars um borgina að segja:

Borgin er mikil ummáls, en hún hefir angursamleg áhrif á mann, með sinni horfnu dýrð, og með þeim hræðilegu menjum, sem í henni eru, og sem maður rekst á hvert augnablik. Á næstliðinni öld var hún hin fegurst borg í Evrópu, önnur enn París; nú er hún rússneskur útkjálkabær. Þá átti þar heima óhóflegt skraut; nú ríkir þar vanræksla og hrörnun, er allt af fer dagvaxandi, og nú er ekkert hugsað um útlit hennar eða viðreisn frá yfirvaldanna hálfu. Manni blöskrar að sjá, hversu stræti borgarinnar eru afmánarlega steinlögð, og aðra vesöld hennar, þegar maður kemur frá annari eins ríkilætisborg eins og Vín er, eða frá annari eins borg og Berlín, sem óðfluga eflist og magnast.

Já ekki er lýsingin fögur þessi fyrrum svo glæsilega borg orðin samansafn illaleikinna húsa í útjaðri rússneska keisaradæmisins. En borgin reis aftur úr rústum og í lok 19. aldar og í upphafi 20. var hún miðstöð iðnvæðingar og heimkynni verkalýðsstéttar sem efldist ört.

Örlaganornirnar héldu áfram að spinna. 1915 var Varsjá hertekin af Þjóðverjum sem héldu henni þar til þeir biðu ósigur 1918, en um leið fékk Pólland sjálfstæði og Varsjá varð aftur höfuðborg sjálfstæðs ríkis. Vefurinn var samt ekki fullofinn.

Eftir innrás Þjóðverja í Pólland þann 1. september 1939 varð borgin höfuðskotmark, en íbúar hennar vörðust í 28 daga. Þá höfðu 2.000 hermenn og 10.000 óbreyttir borgarar misst lífið og nær 70.000 voru særðir. Nálægt helmingi bygginga voru ónýtar. En þetta var aðeins upphafið. Það varð brátt ljóst að nasistar ætluðu sér bæði að þurrka út borgina og íbúa hennar. Í byrjun desember 1939 hófust fyrstu fjöldamorðin og um leið var byrjað að flytja fólk í fangabúðir og þrælkunarvinnu í Þýskalandi.

Orðið „gettó“ er upprunalega nafn á afmörkuðu hverfi í Feneyjum miðalda þar sem gyðingar voru neyddir til að hafa búsetu. Síðan hefur orðið m.a. verið notað sem samheiti yfir afmörkuð hverfi þar sem gyðingar hafa verið í meirihluta. Við ekkert hverfi í sögunni hefur nafnið þó festst jafn rækileg og það sem nasistar girtu af í Varsjá með múr og gaddavír. Vorið 1943 gerðu íbúar gettósins örvæntingarfulla uppreisn sem knúin var fram af hinni ólýsanlegu neyð er ríkti bak við múranna. Nasistar svöruðu á þann hátt að í maí gat yfirmaður SS í Varsjá sent símskeyti til Berlínar,- gettóið er ekki lengur til. Einu leifarnar sem standa eftir er hliðarstólpi með gaddavírskrýnda þverslá. Allt annað var þurrkað út.

1. ágúst 1944 braust út uppreisn meðal annarra íbúa borgarinnar. Sú uppreisn stóð í 63 daga. Eitthvað um 150 þúsund illa búnir Pólverjar börðust gegn ofurefli. Er uppreisnin hafði verið bæld niður hófu Þjóðverjar kerfisbundna eyðingu borgarinnar. Hvorki mannvirkjum né mönnum skyldi þyrmt. Þessari áæltlun var svo vel framfylgt, að þegar pólskar og sovéskar herdeildir stóðu við Varsjá, í janúar 1945, stóðu þær ekki andspænis borg heldur rústaauðn. Af þeim 1,3 milljónum sem höfðu búið þar var varla sála eftir. 93% af öllum íbúðarhúsum borgarinnar , og 90% allra sögulegra bygginga voru eyðilögð. Hirosíma, Dresden og Leníngrad standast tæplega samjöfnuð. Í þessari skelfingu höfðu 850 þúsund af íbúum hennar fallið, 400 þúsund í borginni sjálfri og 450 000 í útrýmingarbúðum og fangelsum. Í allt féllu um 6 milljónir pólskra borgara á árunum 1939-1945. Þar af voru tæplega 3 milljónir gyðingar. Af 18 milljónum fórnarlamba nasismans voru um 11 milljónir drepnar innan marka hins hernumda Póllands, þar af voru yfir 5 milljónir Gyðinga.

Eftir stríð lögðu Pólverjar allan sinn metnað í að byggja upp höfuðborgina. Þúsundir verkafólks og fræðinga streymdu að úr öllum hornum landsins til að vinna að uppbyggingunni. Sérstakur sjóður var stofnaður til að standa straum að kostnaðinum og í hann rann ákveðið hlutfall af kaupi alls vinnandi fólks. Þegar árið 1949 var fyrsta hluta endurbyggingarinnar lokið og sex árum síðar var lokið við að endurreysa hávaða allra sögulegra bygginga. Pólverjar eiga óopinbert heimsmet í endurreisn gamalla bygginga, heimsmet sem í senn er stolt þeirra og harmur.

„Gamli bærinn“ er ekki gamall nema að nafninu til, en þó er eins og komið sé með báða fætur inn í liðnar aldir er mjó steinilögð strætin eru þrædd í átt til torgsins. Þessar mjóu götur, sem hlykkjast milli húsa eru eftirlíkingar, en samt eru þær raunverulegar. Frá 17. öld voru þessar götur slagæðar pólsks kaupmannalífs. Hér hefur verið vettvangur mikilla atburð. Hvílíka sögu gætu þessar götur ekki sagt ef… En götur tala ekki. það gerir bókin ekki heldur, en við geturm lesið. Gatan er mannanna verk sem hægt er að lesa úr sögu,- sögu mannsins á götunni. Hryllilegasta sagan birtist í þeirri staðreynd að göturnar og húsin eru eftirlíkingar; samt eru það saga um mannlega reisn og mikinn stórhug. Í þessum mjóu götum börðust pólskir hermenn og ótalin þúsund óbreyttra gegn ofurefli nasista,- það var sumar og árið var 1944. Þá var skrifað blað í stríðsögunni, jafn mikilfenglegt og það er hryllilegt. Ekkert var eftir nema rústir og lík. Torgið í gamla bænum hefur yfir sér einhverja dulúð. Það iðar af lífi og segir svo margt en samt er það hljótt og leyndardómsfullt. Kanski var það þesssi dulúð sem Halldór Kiljan Laxness skynjaði þegar hann var þarna á ferð:

Það er ævintýralegt að stíga fótum í Varsjövu, borg sem var jafnað við jörðu af prakkaraskap fyrir skemstu. Óvíða sannfærist maður eins sterklega og hér um að hernaður Þjóðverja í síðasta stríði var í aðalatriðum einhverskonar tröllaukin húlíganismi. Furðulegt að hafa svona gaman af að skjóta saklaust fólk og brjóta niður hús þess. Látum vera að sértrúarmenn hafi þá kreddu að gyðingar (eða biflíulesarar eða kommúnistar) séu af djöflinum og því beri að leggja bústaði þesa fólks í auðn og stúta hverju mannsbarni. En að nenna að brjóta niður heila höfuðborg sem eingin sérstök kredda er til um í katekismanum, hús fyrir hús, uns ekki er eftir utan eyðimörk, og lífláta eins háa hundraðstölu af fólkinu og hægt er að komsat yfir,- slíkt er heimsundur.

Engum sem heimsótti Varsjá fyrir áratug og fer hingað aftur í dag dylst að hér hafa orðið gýfurlegar breytingar. Jafnframt hefur litróf samfélagsins orðið margbreytilegra. Að hluta til á þetta sér skýringu í að landamæri hafa opnast og fólk streymir frá hinum fátækari löndum svo sem Rússlandi, Hvítarússlandi, Úkraínu og Rúmeníu til Póllands sem er ríkt land í þeim samanburði. Í hópi þess fólks sem leitað hefur til Póllands frá þessum löndum er fólk sem hefur gert betl að atvinnu og nánast listgrein. Engir eru þar fremri en Sígaunar, t.d. konan sem sat við Nowo-grodzka götu, skammt frá félagsmálaráðuneytinu, með sjúkt barn í fanginu og fjögur önnur fátæklega klædd sér við hlið sem litu út eins og þau hafi ekki fengið mat í tvo sólarhringa. Slík sjón lætur engan ósnortinn og jafnvel samansaumuð aurasál grípur til pyngjunnar, þótt viðtað sé að nokkarar líkur eru á að um leikræna sviðsetningu sé að ræða. Það fer þó ekki á milli mála að götulífið hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum, hvað þá áratugum. Á mann hrópar aukin velsæld annars vegar og örbyrgð hins vegar, sá dúett getur aldrei raddast svo vel sé. Það var þá kanski rétt að það sem fyrri stjórnvöldum tóks í efnahagsmálum hafi verið að jafna út skortinum.

Þegar Pólverjar fóru að gæla við að komast í Evrópusambandið styrktu þeir landamæravörslu við austurlandamærin og takmörkuðu möguleika fólks þaðan á að koma og bjóða varning sinn. Þessi einhliða ákvörðun stjórnvalda leiddi til vissra erfiðleika í samskiptum þeirra við nágrannaþjóðir sem áður töldust til Sovétblokkarinnar. Og það gerði málið ekki auðveldara að Evrópusambandinu fanst Pólverjar ganga heldur hart fram. Nú standa hins vegar Pólverjar á þröskuldi þessa langþráða draums og verða Evrópusambandsþjóð í maí á þessu ári, en fá sjö ára aðlögunartíma. Einsýnt er að þá muni enn torveldst aldagömul samskipti þeirra og nágrannana, Rússa í Kalínigrad, Hvítrússa og Úkraínumenn. Litháar, Slóvakar og Tékkar ganga í sambandið um leið og Pólverjar. Pawel Bartoszek er pólskrar ættar, áhugamaður um pólsk og íslensk stjórnmál, fastapenni á Deiglunni. is og kennir stærðfræði við Háskólann á Akureyri:

4. Til og frá Kraków

Við höldum ferð okkar áfram, og reynum að draga að okkur ilm sögu og menningar á ferð um Sléttumannaland. Varsjá kveður og við höldum í átt til hinnar gömlu höfuðborgar, Kraków, förum þó ekki stystu leið heldur ökum í suðaustur í átt til Lublin, stöldrum við í Zamosc og þaðan um sveitirnar við landamæri Úkraínu til Przemysl og inn í Poka djöfulsins um Sanok. Þá ökum við með Bieszczady fjöllum í vesturátt til Zakopane og þaðan til Kraków.

Lublin er stærsta borg austur Póllands. Miðaldaborg og miðstöð viðskipta. þar bjuggu mjög margir Gyðingar síðan á fyrrihluta 14. aldar og enn má sjá götuskilti á pólsku og hebresku í gamla bænum. Um skeið voru um 80% íbúa borgarinnar Gyðingar, en sú sál sem þeir áttu þar og maður skynjar enn á götum dó í útrýmingarbúðum Þriðja ríkisnins. Sögulega séð er borgin stórmerkileg. Þar var Lublinarsættin gerð árið 1569 sem innsiglaði samband Póllands og Litháens og gerði ríkið að stærsta ríki Evrópu. Árið 1944 stofnuðu kommúnistar þar þjóðfrelsisstjórn Lublinarstjórnina og í maí 1980 braust þar út verkfall sem varð forboði þess sem síðar kom, stofnun Samstöðu og fall múrsins. Segja má að fyrstu skörðinn í múrinn sem skildi á milli austurblokkarinnar og vesturblokkarinnar hafi einmitt myndast í Lublin vorið 1980, þótt það hafi ekki verið fyrr en í ágúst sama ár sem brestirnir bárust til vesturlanda og þá frá Gdansk.

Sumarið 2001 var ég í ferð um þessar slóðir sem ég hafði skipulagt í samráði við þátttakendur og Vináttufélag Íslendinga og Pólverja. Þegar við vorum stödd í gamla bæjarhluta Lublinborgar tók ég eftir sígaunakonu sem hélt sig í kringum íslenska hópinn með framréttan lófa og bar sig aumlega. Úr andliti hennar og fasi mátti lesa óumræðilega þjáningu. Ég stoppaði stutt við á torginu í það sinn, vildi ganga um gamla gyðingahverfið og horfa af hæðinni sem gamli bærinn stendur á yfir til Konungshallarinnar. Þessi kona hvarf mér ekki úr huga, kanski vegna þeirrar þjáningar sem sagan greinir frá þarna allt í kring, í gyðingahverfinu án gyðinga og Majdanek-búðunum þangað sem flestir íbúar þessa hverfis, þessarar borgar, fóru og liðuðust upp í reyk frá ofnunum sem kyntir voru á fullum dampi dag og nótt. Kanski var það þessi mannlega þjáning sem ég las úr andliti sígaunakonunnar. Þegar ég kom til baka á torgið var hún þar enn og kom nú til mín með útréttan lófa. Ég stenst aldrei sígaunakonur, hef ekki gert það síðan ég kynntist þeim fyrst fyrir löngu síðan og þær rændu mig. Síðan þá hef ég verið viss um að fátt er hollara ungum manni en að vera rændur, ef það er vel og faglega gert. Ég þreif sum sé veski mitt og lét konuna fá 10 zloty. Spurði svo hvort ég mætti ekki taka af henni mynd. Hún tók því ljúflega, en þegar ég var að munda vélina bað hún um tíma til að snyrta sig. Hún greiddi sér og slétti úr síðu rósóttu pilsi, stillti sér svo upp brosandi út að eyrum svo glampaði á gyllta góma. Íslenskur ferðafélagi spurði þá hvort ekki væri ráð að við yrðum saman á myndinni. Við það hýrnaði ennfrekar yfir henni, ekki síður en mér, og enn þurfti hún að snyrta sig. Þegar myndatöku var lokið rétti hún fram lófan og bað ekki um betlipening heldur laun, því nú væri hún orðin mótel og ætti að fá sín laun. Ég fór enn í veskið og dró fram 10zl, sem var ekki svo lítið, en fyrirsætan gerði kröfur um meira. Það var ekki fyrr en hún hafði fengið 50 zl að hún virtist ánægð. Þá spurði hún hvort ég væri ekki til í að senda sér mynd. Jú, en þá verð ég líka að fá heimilisfang þitt. Það var auðsótt. Hún tók fram veskið sitt þar sem hún hafði blað til að skrifa á en um leið varðmér ljóst að þjáningin í andlitinu var ekki vegna skorts á fé, því veskið var bólgið af seðllum. Enn einu sinni hafði ég fallið fyrir eigin einfeldni og sígaunafrauku. Að þessu sinni hét hún, og heitir vonandi enn, Irena með heimilisfang í Rúmeníu.

Borgina Przemysl við landamæri Úkraínu kannast fáir við enda ekki á kortum íslenskra ferðaskrifstofa. Engu að síður er hún vel þess virði að heimsækja. Hún er elsta borg í suður Póllandi ásamt Kraków, frá 8. Öld. Gömul verslunarborg sem tengdi Úkraínu við þjóðbrautir Evrópu. Þegar gengið er um krókóttar götur gamla bæjarins er engu líkara en maður sé horfinn aftur um aldir til daga Habsborgara. Borgin komst í hendur Austurríkismanna 1772 og varð einhver ægilegasti vettvangur stríðs Austurríkismanna og Rússa veturinn 1914. Przemysl er ein af þessum borgum sem maður gleymir ekki og vill gjarna heimsækja aftur og aftur. En í þessari ferð var ekki til setunnar boðið.

Við ökum inn í hornið á milli Úkraínu og Slóvakíu, í Bjestadefjöllum, þann stað sem Pólverjar kalla Poka djöfulsins, Bieszczadzki þjóðgarðsins. Hér í Bieszczady fjöllum búa fjallaþjóðirnar Boykar og Lemkar sem Pólverjar kalla Rusini. Þeir eru skyldir Úkraínumönnum, en eru sérstakar þjóðir með sérstaka tungu, sögu og menningu. Sumir þeirra börðust með úkraínskum fasistum í stríðinu og að því loknu þurftu allir að gjalda fyrir það með aðgerð sem átti sér stað í apríl 1947 og var kölluð Aðgerð Visla (operation Vistula). Svo til allir voru fluttir nauðugarflutningum til Úkraínu. En Gomulka aðalritari pólska kommúnistaflokksins átti Lemkum skuld að gjalda síðan í stríðinu og greiddi skuld sína með því að hann leyfði þeim að snúa aftur á 7. áratugnum. Nú er uppi ákveðin þjóðernisbarátta þessara þjóða sem m.a. felur í sér kröfu um skóla á þjóðtungu þeirra. Fjöllin hér eru fremur í ætt við stærri gerð Heiðmerkurása en eiginleg fjöll. Skógivaxnar hæðir, lækir og vötn. Hér lifa vilt dýr, gaupa, úlfur, villisvín og refur, og hátt á himni sjást stundum gullernir á tignarlegu voki.

Við höldum leið áfram í vestur með Karpatafjallgarði í átt til Kraków. Við höfum ekki ekið lengi þegar við blasir borgin Sanok, sem frægust er fyrir gúmíframleiðslu og Auto San bíla. Þar er næst stærsta safn rúthenskra íkona í heimi. Umhvervis Sanok eru einnig þó nokkrar olíulindir en Pólverjar eru nefnilega í hópi ólíuvinnsluþjóða.

Áfram er haldið vestur með Karpatafjöllum og áð um stund íborginni Zakopane. Hún stendur 800 til 1000 m. yfir sjávarmáli við rætur Tatrafjalla, hæsta fjallgarðs Karpatafjalla. Umhverfis borgina er ein helsta nátúruperla Póllands sem hefur verið þjóðgarður síðan 1954. Landamæri Póllands og Slóvakíu liggja eftir hrygg Tatrafjalla og þangað má fara í svifvagni. Þegar upp er komið er hægt að standa öðrum fæti á pólskri grund og hinum á slóvakskri og njóta heillandi útsýnis til beggja handa. Á vetrum eru hér afbragðs skíðasvæði og á sumrin heilla fjöllin áhugafólk um fjallgöngur og fagra náttúru. Auk þess er svæðið víðfrægt fyrir litríka þjóðhætti sem hafa lifað mann fram af manni og gera enn. Í einhverju þorpi hér nálægt er siður að gluggakarmar, eða gluggakarmur herbergis heimasætunnar, sé hún ólofuð sé málaður blár. Þegar stúlkan er gengin út er lit breytt úr blátt í hvítt.

Víða má sjá lítil þorp þar sem tíminn virðist hafa staðið í stað og ef fljúgandi kýr bæru fyrir augu, myndu sennilega fæstir undrast, heldur finna enn sterkar til þess að vera stödd inn í einhverju málverki Schagalls. Storkahreiður á staurum og strompum, gamlar konur sem ekkert hafa breyst í aldir og börn að leik eins og þau hafa gert síðan á tímum Brügels.

Hér er landslag hæðótt og hátt á himni má sjá tignarlegan Gullörn voka yfir og hér um slóðir skyggndist vinur minn, meistari Árni Waag mjög eftir þeim sjaldgæfa fugli galinu gomedíu, sem mun eiga sér einstaklega tignarlegan ástardans þegar náttúran kallar. Nú nálgumst við Kraków en áður en þangað er komið skyggnumst við ekki til himins heldur í iður Jarðar. Við stoppum við saltnámurnar í Wieliczka. Í þessum litla bæ skammt norð-austur af Kraków hefur verið unnið frá því á steinöld en námagröftur hefur verið stundaður þar í nærfellt eitt þúsund ár. Arðurinn af saltvinnslunni átti drjúgan þátt í að gera Kraków að því stórveldi í pólskri og evrópskri sögu sem raunin var. Enn er unnið þar salt og nú eru göngin orðin samanlagt um 300 kílómetra löng. Umfram allt hafa þó saltnámurnar aðdrátarafl fyrir ferðafólk vegna þeirra stórkostlegu listaverka sem námamenn á liðnum öldum hafa skilið eftir sig. Við göngum tæpa 4 kílómetra í allt að 135 metrum undir yfirborði jarðar. Ferð í saltnámurnar er ekki aðeins ferð inn í heim sem flestum Íslendingum er framandi heldur getur þar að líta ótrúlega fegurð, allt frá kirkjuhvelfingum þar allt er úr salti til veraldlegra listaverka. Vegna þess hversu joð-mettað loftið í námunum er hefur þar verið starfrækt hressingarhæli fyrir fólk sem þjáist af ýmsum öndunarfærasjúkdómum s.s. astma. Eftir að hafa ferðast um ævintýraheima í námugöngum höldum við upp á yfirborð jarðar og þótt við hföum gengið niður þá tökum við nútímaþægindi í þjónustu okkar og förum í lyftu sem sannast sagna er ekki mjög nútímaleg að sjá. Hún gerir samt sitt gagn og með ískri og skrölti fikast hún nær yfirborðinu þétt staðin fólki, bæði ferðamönnum og námamönnum sem hafa lokið vaktinni.

Við höldum til Kraków, einnar fegursu fegurstu borgar Evrópu, hinnar fornu höfuðborgarlandsins. Þessi töfrandi borg með um eina milljón íbúa, mikla iðnað og aldalanga sögu mennta og vísinda, er ein af þeim borgum er hæst ber á lista menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) yfir byggingarsöguleg verðmæti. Öll miðborgin, ekki færri en 760 byggingar, er friðuð vegna stíls og sögulegs gildis og telst sameiginlegur arfur mannkyns.

Í fyrndinni stóð kastali á hæð við Vislu og bar hátt yfir þyrpingu smáhúsa á sléttunni við ána. Samgöngur á ánni sköpuðu vaxtarmöguleika þorpsins litla. Kaupmenn settust þar að, handverk og þónusta jukust og húsamergðin með, sem brátt náði yfir á hinn bakka árinnar. Á sömu hæð, Wawel-hæðinni við Vislu stendur enn í dag mikill kastali með stórri aðalbyggingu, dómkirkju og nokkrum minni byggingum.

Í höllinni á Wawelhæð bjuggu pólskir konungar frá fyrrihluta 14. aldar og fram til 1595 er Sigmundur III. Vasa lét flytja hina konunglegu stjórnsýslumiðstöð til Varsjár. Kraków hélt samt sem áður allnokkru mikilvægi um langt skeið. Fram til 1764 var borgin krýningarstaður pólskra konunga. Í dómkirkjunni þar voru þeir krýndir og í grafhýsi undir gólfi hennar eru þeir flestir grafnir. Það má því segja að saga pólskra konunga hafi hafist og endað í dómkirkjunni á Wavel.

Kraków féll í hendur Asturríkismanna 1795, en varð síðan sjálfstætt lýðveldi frá 1815 til 1846 þegar hún féll aftur í hendur Austurríkis sem ríkti yfir borginni fram til 1918. Sem geta má sér til af hinum fjölmörgu byggingum sem eru verndaðar, geymir Kraków fleira merkilegt en Wawel höllina. Þar eru fjöldi fagurra listasafna og í gamla bænum er markaðstorgið (Rynek Glowny) stærsta miðaldatorg í Evrópu. Á því miðju stendur mikil bygging. (Sukiennice) Klæðahúsið, sem upprunalega var byggt í gotneskum stíl en síðar endurbyggt í renesans, en þó án þess að missa allan svip bernsku sinnar. Núna gegnir þessi fagra bygging sama hlutverki og hún hefur gegnt allar götur síðan, þ.e. kaupmiðstöð. Efri hæð þessa húss geymir þjóðarlistasafnið og þeir sem þangað fara og gaman hafa af list ættu að heimsækja þetta safn. Verkin þar eru mörg frá 19. öld og krauma af þjóðernisrómantík og þrá Pólverja eftir sjálfstæði. Við hornið á Florienskagötu stendur Maríukirkja sem geymir hin frægu altaristöflu Weit Stoss sem hann gerði á árunum 1477 til 1489, eitthvert mikilfenglegasta dæmi um síðgotneska list í Evrópu. Á hverjum heilum tíma allan sólarhringinn alla daga ársins blæs trompetleikari í lúður sinn úr öðrum turni Maríukirkju. Þar er á ferð starfsmaður brunaliðs borgarinnar sem blæs sama stef í allar höfuðáttir. Stefið sem hann leikur er stutt og lýkur einhvernveginn þannig að þeim sem á hlýða er ljóst að það er eins og skorið á það, það vantar eitthvað… Sagan segir að árið 1241, sama ár og Snorri var veginn í Reykholti og sama ár og menn hófu að grafa salt úr jörðu í Wieliczka hafi varðmður staðið þar og átt að gefa viðvörunarmerki ef hann sæi liðsveitir tartara sem sóttu að borginni. Þegar hann kom auga á óvinaherjina blés hann þessa melódíu, en þegar hann var rétt að byrja fékk hann ör í gegnum hálsinn. Þessi sama melódía hefur lengi verið leikin í pólsku útvarpi klukkan þrjú síðdegis. Við Groskastræti berast til eyrna hraðir og angurværir fiðlutónar. Upptök þessarar tónlistar reynist í lítil sveit sígauna. Einn er þeirra elstur, örsmár, í hjólastól, varla mikið annað en höfuð og hendur.

Það er erfitt að slíta sig frá þessum konsert en við ætlum okkur lengra. Við sjáum Wawel kastala í sínum tignarlega mikilleik okkur á hægri hönd og kirkju Péturs og Páls í glæsilegum barrokstíl, á vinstri. Við enda Groskastrætis endar gamla Kraków og þó sér maður ekki mikinn mun. Við höldum áfram eftir Stradomskagötu og Krakowska stræti. Þegar við sjáum götuskilti þar sem á er letrað Ul. Josefa á vinstri hönd göngum við hana og erum þá komin inn í gamla gyðingahverfið, Kazimierz, sem ekki hefur breyst mikið frá því að hin skelfilegu örlög gengu yfir íbúa þess á árum síðari heimstyrjaldar. Atriði í myndinni Listi Sindlers voru tekin í þessu hverfi. Í Kazimierz bjuggu um 65 þúsund Gyðingar árið 1939, nú eru þeir innan við 200. Þó er gyðinglegri arfleifð haldið hér lifandi, m.a. með frábærum veitingastöðum eins og þessum sem við heimsækjum, Ariel. Í mörg ár hefur sama hljómsveitin … frá Odessa í Úkraínu skemmt gestum hér.

Þetta hverfi lét Kazimíerz mikli á 14. öld reysa sem sérstakan bæ fyrir Gyðinga sem hann bauð vekomna. Um það leyti áttu þeir mjög erfitt víða í Evrópu, ekki síst eftir hinn illskæða svartadauða sem geysaði um miðja 14. öld. Varnarleysi fólks gagnvart þeim skefjalausu hörmungum leiddu víða til ofsókna á hendur Gyðingum sem sannkristnir kaþólikkar margir hverjir töldu að væru að kalla yfir sig og umhvefi sitt refsingu Guðs fyrir að hafa tekið Krist af lífi. Í ljósi þess að dauði hans var var lögmálsbundinn og skammur, breyttist í upprisu og fyrirgefningu synda okkar aumra, hefði kanski verið nær að þakka og krossa sig, en við mennirnir hugsum ekki altaf rökrétt og kanski er þessar vangaveltur mínar einmitt dæmi um það, enda ég ávalt á hálum ís þegar guðfræðin er annars vegar. Við skulum því ekki flækja mig frekar í guðfræðinni helsur halda áfram ferð í tíma og rúmi.

Við kveðjum nú Kraków og þó ekki alveg. Ferðinni er heitið til hinna illræmdu Auschwitzbúða, en gerum krók á leið okkar og komum við í úthverfi Kraków, Nowa Huta, sem til skamms tíma var sérsök borg. Á svipuðum tíma og íslendingar gengu í gegnum sameiningarferli sveitarfélaga gerðu Pólverjar slíkt hið sama, ekki nóg með að sýslur væru sameinaðar heldur borgir og bæir einnig. Eftir heimstyrjöldina síðari og valdatöku kommúnista í Póllandi hugðust þeir koma hökki á hið ramma höfuðvígi kaþólskunnar í Póllandi, Kraków, með því að byggja iðnaðarborg og risastáliðju rétt þar hjá. Þarna sáu þeir fyrir sér höfuðvígi hins stéttvísa verkalýðs, höfuðvígi hins pólska nýja samfélags. En einhvernvegin snerist þetta í höndunum á þeim. Reyndar var borgin bygð í dæmigerðum stalínískum fúnkís og þar bjuggu verkamenn sem unnu í eiturspúandi stáliðju, en þeir urðu ekki framvarðarsveit hins sósíalíska framtíðarríkis. Þeir urðu öllu heldur stjórnvöldum óþægur ljár í þúfu, ef svo bændalega má til orða taka. Þarna hófust oftar en einu sinni mikil verkföll, sem áttu eiginlega ekki að vera til í orðabókum sósíalismans nema til að lýsa gráum veruleika kapítalismans. Innganginn í stáliðjuverið og torgið er vel þess virði að skoða. Þegar við skoðum það eða torgið sem slær Íngólfstorg við í steinsteyptum gráma, verður manni hugsað til þess fjölda glæsilegra bygginga í gömlu Kraków. Þetta er einmitt frábært tækifæri til að bera saman ólíka stíla ólíkra tíma og skynja nið tímans með breyttum áherslum og áhrifum.

Í ársbyrjun 1942 gaf Adolf Hitler út tilskipun um „hina endanlegu lausn gyðingavandans“. Í kjölfarið var gerð áætlun um „austurferð gyðinga“ sem var dulnefni á hryllilegasta glæp gegn mannkyninu sem sagan kann frá að greina. Þar ber nafn Auschwiz-búðanna hæst, enda voru um a.m.k. á aðra milljón karla, kvenna og barna myrt á þessum stað. Búðirnar, sem eru u.þ.b. 50 km, fyrir vestan Kraków, standa enn og eru varðveittar sem safn um eigin sögu. Ferð þangað er engin skemmtiferð, en engu að síður fróðleg og þörf upprifjun á hryllilegum kafla mannkynssögunnar sem lætur engan ósnortinn. Aðgangur er ókeypis (það vantaði nú bara!!).

Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar þangað er komið eru nokkur tvílyft hús hlaðin úr rauðum múrsteini með tvöfaldan gaddavír allt um kring. Á litlu skilti við aðalhliðið stendur skrifað með rauðum stöfum og svörtum: „VORSICHT Hochspannung Lebensgefahr“ (Varúð háspenna lífshætta) Fyrir ofan aðalhliðið er letrað með stórum stöfum: „ARBEIT MACHT FREI“ (Vinnan frelsar). Hvílík sannindi! á þessum friðsæla stað voru fjórar milljónir þurrkaðar út úr tölu lifenda,- á aðeins fjórum og hálfu ári, frá júní 1940 til janúar 1945.

Það er erfitt að skýra þær hvatir sem reka mann að skoða gasklefann, brennsluofnana, fangageymslurnar og „Blokk dauðans nr. 11“.

Gasklefi 1, sem upprunalega var grænmetisgeymsla pólska hersins, er lág sakleysisleg bygging með litlum vinarlegum lampa yfir dyrum. Þessi hái voldugi strompur er reykháfur brennsluofnana sem sem eru merktir framleiðandanum, Herra Topf og sonum. Ég hef oft velt fyrir mér þeim siðferðilegu spurningum sem þeir Topffeðgar hafa haft ríka ástæðu til að spyrja sig. En veit reyndar ekki hvort þær hafi nokkurntíma þvælst fyrir þeim.

Eftir að hafa prófað ýmsar aðferðir, sem gáfust misvel, voru bæði mis afkastamiklar og misdýrar, fundu menn gastegundina Cyklon B sem framleidd var af fyrirtækinu Tesch und Stabenow. Svo fremi sem klefinn væri þurr og þéttur, þéttpakkaður fólki og búinn nægjanlega mörgum gasopum var, fannst ekkert sem sló Cyklon B við í afkastagetu.

SS foringjanum Rudolf Höss sem var yfirmaður útrýmingarbúðanna fórust svo orð í minningum er hann reit áður en hann var tekinn af lífi í apríl 1947: „Hvað Auschwitz varðar hefi ég aldrei heyrt um eina einustu mannveru sem fundist hefur lifandi þegar klefinn var opnaður, hálfri klukkustund eftir að gasinu var hleypt á“ Í sama riti segir hann að oft hafi borið við að mæður hafi reynt að fela börnin sín undir fatahrúgum, en án árangurs. „Hinir sérstöku eftirlitsmenn vorju vel á verði gegn slíkum tilraunum og töldu konurnar jafnan á að taka börnin með.“ Eftirlitsmennirnir voru yfirleitt sjálfir fangar og oftast af sama þjóðerni og það fólk sem hverju sinni átti að færa inn í gasklefann. Þeirra hlutverk var fyrst og fremst að halda hinum dauðvona rólegum, og það var best gert með því að tala til þeirra á þeirra eigin tungu. Þeir fullvissuðu fólkið um að nú ætti að baða það og aflúsa. Sumir gátu jafnvel sagt fréttir af ættingjum og vinum sem dveldu í búðunum. Það yrðu ábyggilega fagnaðarfundir. Til að auka á trúverðugleikan var mælst til að hver og einn gengi frá sínum fötum á vísum stað og umfram allt muna hvar þau voru. Fólk yrði þá fljótara að klæða sig þegar það kæmi út hreint og fínt.

Minni börnin grétu oftsast er þau voru afklædd á þennan hörkulega hátt, en er mæðurnar eða eftirlitsmennirnir hugguðu þau, þurrkuðu þau tárin, tóku leikföngin sín í fangið og gerðu að gamni sínu hvert við annað um leið og þau gengu inn. ,,Ég tók eftir að konur, sem annað hvort gátu sér til, eða vissu hvað beið þeirra, höfðu samt hugrekki til að gera að gamni sínu við börnin til að hvetja þau, en augu þeirra sjálfra lýstu af dauðaangist.

Kona gekk til mín á leið sinni inn. Hún benti á börnin sín fjögur sem voru að burðast við að hjálpa því minnsta, sem átti erfitt um gang á holóttri jörðinni. Hún hvíslaði: „Hvernig getið þið fengið af ykkur að drepa svo yndisleg börn? Hafiði ekkert hjarta?“

En orð og tár breyttu engu. Eftir að hafa afklæðst var engin undankomuleið. Fólkið gekk inn í klefann sem sem búinn var sturtum og vatnsrörum, en það kom ekkert vatn.

Á vegg í einangrunarklefa í blokk nr. 11 dauðablokkinni, þaðan sem fæstir komu út nema sem lík á leið í ofnana, hafði verið krotað nafn og dagsetningin 20.09. 1942. Þetta voru einu merkin um þann er þar beið dauða síns. Þennan sama dag skrifaði læknir Auschwitz búðanna, Johann Paul Kremer í dagbók sína:

Ég hlustaði á konsert fangahljómsveitarinnar þennan sunnudagseftirmiðdag frá þrjú til sex í fegursta sólskini. Hljómsveitarstjórinn var stjórnadi Ríkisóperunnar í Varsjá. 80 hljóðfæaraleikarar. Steikt svínakjöt í miðdegismat, bakaður silungur í kvöldverð.

Hvaða hvatir reka menn til að skoða þetta hryllilega minjasafn, sem þó eru aðeins nokkrar sakleysislegar byggingar girtar af með tvöföldum gaddavír? Ég veit það ekki. Ég held hinsvegar að hverjum sé holt að heimsækja slíkan stað og minnast þess að það er skammt á milli þeirra hvata, er nasisminn bæði nærðist á og nærði og þess kynþáttahaturs og morðlausna sem menn grípa enn til þrátt fyrir að sagan ætti að hafa kennt okkur að morð leiðir af morði og hatur af hatri.

Við kveðjum þennan stað sem geymir sögu um hvert það brjálæði sem blindir fordómar og umburðarleysi í bland við þjóðernishroka og mannfyrirlitningu getur leitt.

Ætlunin var að ná hringferð um Pólland og heimsækja Svörtu-Maríu frá Jesna Gora, aka niður Slesíu gera lykkju á leið okkar og heimsækja Posnan, aka þaðan niður til Stettin og taka ferjuna heim. Því náum við ekki en skreppum til Wroslaw og endum þar ferð í þeirri von að Pólland fari hvergi og verði áfram byggt þeirri gestrisnu þjóð sem þar ræður húsum. Það er reynsla mín að þeir sem einu sinni koma hingað til Póllands vilja hingað aftur.

Neðri-Slesía er eitt af 16 sjálfstjórnarhéruðum í Póllandi. Í þessu frjósama héraði í Óderdal búa um þrjár milljónir manns, en þar af um 700 þúsund í Wroclaw, höfðuðborg héraðsins. Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós að fólk hefur búið á þessum slóðum a.m.k. frá yngri steinöld, 4000 – 1800 f. Kr. Wroclaw er miðalda- og barrokkborg sem á rætur að rekja a.m.k. aftur í 9. öld og biskupssetri var valinn þar staður um líkt leiti og Íslendingar gengu kristni á hönd. Elsti hluti borgarinnar stendur á Dómkirkjueyju í Óderfljóti og myndar ásamt þeim hluta sem stendur á Sandeyju og við gamla torgið eins konar byggingarsögulegan kjarna borgarinnar. Þessi borgarhluti er perla fyrir hvern þann sem hefur yndi af því að lesa götur og hús. Flestir stílar frá 13. til 20. aldar eiga hér sína fulltrúa þótt gotík, renesans og barrokk séu mest áberandi.

Lega Wroclaw við Óderfljót, á vegamótum norðurs og suðurs gerði hana þýðingarmikla bæði frá sjónarhorni herfræði og kaupmensku. Hér var áningarstaður Rómverja í raf- og loðvöruferðum til Eystrasalts og Hansakaupmenn byggðu þar miklar miðstöðvar enda borgin í þjóðleið fyrir saltflutninga frá námunum miklu í Wieliczka. Lega borgarinnar hefur valdið því að um hana hafa leikið menningarstraumar úr mörgum áttum, tékkneskir og slavneskir, þýskir, austurrískir. Hinar íburðarmiklu barrokkbyggingar sem setja svo mjög svip sinn á miðbæinn eru frá tímum austurríkismanna. Pólska nafn borgarinnar Wroclaw er kennt við tékkneska aðalsmanninn Vraticlav sem réði hér ríkjum undir lok 10. aldar, en sennilega þekkja flestir Íslendingar betur þýska nafn hennar – Breslau.

Í Wroclaw eru hlutir sem tengjast íslenskri sögu. Í Háskólabókasafninu á Sandeyju er eitt fárra eintaka Guðbrandsbiblíu. Á gamla bókasafninu „Ossolinski“ er einnig Orteliusar- kort af Ísandi frá lokum 16. aldar. Á sama stað er frumútgáfa af ferðasögu tékkans, eða Mórovans (frá Mæri) Daníels Vetters til Íslands í byrjun 17. aldar. Ferðasagan Islandia er fyrsta ferðasagan sem kom út á pólsku (kom út í borginni Leszno árið 1638).

Hinir fjölbreyttu og blæbrigðaríku menningarstraumar sem um aldir hafa umleikið borgina eru ekki aðeins söguleg fyrirbrigði heldur hafa þeir einnig markað nútímann. Nú á tímum frjálsra fjármagnsflutninga og mikillar uppbyggingar í Póllandi eru Wroclaw og Neðri-Slesía þeir staðir í Póllandi sem vestræn fyrirtæki leita hvað helst til í því skini að fjárfesta, enda ríkir þar alþjóðlegur andi sem býr við gamla hefð.

Við rætur Súdetafjalla er jarðhiti sem hugsanlega er hægt að nýta. Þarna er um umhverfisvæna orku að ræða sem ætti að verða auðvelt að fjármagna, ef hægt er að sýna fram á að hugmyndin sé raunsæ. Nú þegar Pólverjar eru gengnir í Evrópusambandið verða þeir í enn ríkari mæli en áður að leita umhverfisvænna lausna og hver veit nema þá verði leitað til Íslendinga um þekkingu við nýtingu heits vatns við rætur Súdetafjalla?