2022/08/23 at 8:21 am

Uzbekistan, Kazakhstan, Kyrgyzstan

31. mars til 14. apríl 2023

Ferðalýsing

Föstudagur – 31.03.- Föstudags 14.04
Flogið með Icelandair og Uzbekistanair

Dagur 1: 31.03. Föstudagur - Keflavík – London – Tashkent

Brottför frá Keflavík kl.  07:40. (FI450) Áætluð lending í London (LHR) kl. 11:55.
16:20-03:10 London - Tashkent HY-202 A321Neo.

Dagur 2: 01.04. Laugardagur → Tashkent – Nukus

03:10 Lending áætluð í Tashkent kl. 03:10. Þá er klukkan þó rétt rúmlega 11 að kvöldi á okkar tíma svo við erum ekki aðfram komin. Rúta bíðu okkar á flugvelli og ekur okkur beint á hótel. Góður svefn og góð hvíld til kl. 13:00.

Eftir síðbúinn morgunverð komum við farangri okkar fyrir í rútunni og höldum síðan í stutta könnunarferð um Tashkent, eina fjölmennustu borg í Mið-Asíu og höfuðborg Uzbekistans. Á máli heimamanna merkir Tashkent “Steinborgin” og er jafnframt þekkt sem borg hinna miklu andstæðna. Fyrsta dag okkar í landinu munum við kynnast þessum andstæðum, hinu gamla og nýja, hinu stóra og smáa. Við heimsækjum m.a. markað heimamanna elsta hverfi borgarinnar og sitthvað fleira. Að loknum kvöldverði verður kvöldflug til Nukus,  höfuðborgar sjálfstjórnarlýðvelsisins Karakalpakstan. Þar bíða okkar uppbúin rúm og hvíld.

Kvöldverður innifalinn.
Gist í Nukus

Dagur 3: 02.04. Sunnudagur → Nukus – Muynaq – Nukus 

Morgunverður á hóteli
Þessi dagur er helgaður Aralvatni og getu mannkyns til að ganga fram af brúninni.

Við ökum ca. 250 km í norður um Aralkum eyðimörkina. Ekki til að skoða útgerð og njóta fiskrétta úr vatni sem eitt sinn sá íbúum Sovétríkjanna fyrir um 7 % þess fiskjar sem þeir neyttu. Nei, þessi dagur er eins konar hamfaraferðamennska til bæjarins Muynak sem fyrir um 50 árum var líflegur útgerðarbær á strönd fjórða stærsta stöðuvatns Jarðar. Á undraskömmum tíma tókst mannfólkinu það sem margir hafa vafalaust talið algjörlega ómögulegt, að láta mestan hluta þessa mikla vatns hverfa og valda líffræðilegum fjölbreytileika Aralvatns, öllu lífi á láði og legi  óbætanlegu tjóni. Nú  eru þær litlu leifar Aralvatns sem eftir eru í Úzbekistan í 150 km fjarlægð.

Skoðunarferð í „skipakirkjugarðinn“.
Skoðum Safnið um Aralvatn.

Miðdegisverður ekki innifalinn
Kvöldverður í staðarskála innifalinn.
Gist í Nukus

Dagur 4: 03.04. Mánudagur → Nukus – Khiva

Morgunverður á hóteli
Við hefjum daginn með því að skoða hið magnaða Nukus safn, einnig þekkt sem Ríkislistasafn lýðveldisins Karakalpakstan. Þetta safn er einstakt í sinni röð, sem geymir sögu um Sovétríkin og ekki síður Igors Savitsky, þess manns sem helgaði líf sitt þessu mikla og einstaka safni.

Miðdegisverður ekki innifalinn

Brottför frá Nukus til Khiva (200 km). Þessi gamla borg er á heimsminjaskrá UNESCO.

Á leið til Khiva förum við um ævafornt menningarsvæði, Khorezm. Það samfélag sem hér var um árþúsund nær svo langt aftur í fortíðina að leitun er að samfélögum manna sem geta rakið samfellda sögu sína jafn langt aftur í gráa forneskju.  Ævintýrabærinn Khiva  gegndi hér stóru hlutverki og þangað er stefnt. Það virðist þversagnarkennt að þótt Khiva sé svo gömul að engu er líkara en við séum komin inn í heim Þúsund og einnar nætur, þá er bærinn jafnframt ,,ungabarn” í samanburði við ýmsar aðrar borgir í Úzbekistan. Þessi fullyrðing verður skýrð á staðnum.

Við náum að halda í stutt rölt um  þessa ómótstæðilegu fornu borgarperlu. Khiva er á lista UNESCO sem sameiginlegur arfur mannkyns. Við munum sjá hallir með ríkulegu mósaíkskreyti, einstökum bænaturnum (minaretum), trúarskólum, (madrasahs) og bænahúsum (moskum).

Kvöldverður í staðarskála innifalinn.
Gist í Khiva

Dagur 5: 04.04. Þriðjudagur → Khiva

Morgunverður á hóteli
Að loknum morgunverði hittumst við og spjöllum um sögu þessa unaðslega bæjar með sína, í senn, björtu sögu og kolsvörtu. Hér þarf hver og einn að eiga stund með sjálfum sér, anda djúpt að og frá og finna ilm sögunnar fylla öll vit sín.

Miðdegisverður (ekki innifalinn)
Kvöldverður í fornum trúarskóla. Njótum þar matar að hætti heimamanna ásamt þjóðlegri tónlist og dönsum frá Khorezm svæðinu.
Gist í Khiva.

Dagur 6: 05.04.Miðvikudagur → Khiva – Urgench – Tashkent

Morgunverður á hóteli
Að loknum morgunverði ökum við til Urgench (uþb 30 km). Flug til Tashkent (1 klst 30 mín).

Miðdegisverður (ekki innifalinn)
Kvöldverður í staðarskála innifalinn.
Gist í Tashkent

Dagur 7: 06.04. Fimmtudagur → Tashkent – Bishkek

Morgunverður á hóteli
Skoðunarferð um Tashkent með áherslu á elsta hluta borgarinnar.
Miðdegisverður (ekki innifalinn)

Kl. 15:00 haldið á flugvöll.
Kvöldflug til Bishkek HY779 17:30-19:40 (1 klst 10 mín)

Við komuna bíður rúta ásamt staðarleiðsögumanni. Haldið til Bishkek, höfuðborgar Kyrgyzstans. Um það bil 30 mínútna akstur á hótel.
Kvöldverður á þjóðlegum veitingastað
Gist í Bishkek

Dagur 8: 07.04. Föstudagur → Bishkek

Morgunverður á hóteli
Dagurinn helgaður Bishkek, höfuðborg Kyrgizstana. Við ökum um borgina og röltum þar sem það hentar, skoðum Sigurtorgið, Eikargarðinn, lítum kannski inn á þjóðminjarsafnið en umfram allt reynum við að kynnast sögu og menningu þeirra sem hér búa.

Miðdegisverður (ekki innifalinn)
Kvöldverður á þjóðlegum veitingastað
Gist í Bishkek

Dagur 9: 08.04. Laugardagur → Bishkek

Morgunverður á hóteli
Við hefjum þennan dag með því að  heimsækja Asíska markaðinn sem er, eins og allir góðir hvunndagsmarkaðir, bæði hávær og litríkur. Hér er iðandi mannlíf. Hér má kynnumst við viðskiptaháttum sem lítt hafa breyst um aldir. Fólk að kaupa og selja allt frá litríkum og listilega ofnum gólf- og veggteppum  til skóreima. Um nónbil finnum við einhvern staðarskála þar sem við hvílumst , fáum okkur kannski hressingu og svölum hugsanlegum þorsta.

Miðdegisverður (ekki innifalinn)

Næst bíður okkar heimsókn á Ríkislistasafnið, sem geymir safn um handverk Kyrgizstana, mikið úrval málverka innendra og erlendra listamanna. Hugsanlega hafa einhverjir þörf fyrir að versla og hér verður tími gefinn til þess.

Kvöldverður á þjóðlegum veitingastað, væntanlega með spilverki og klassískri fótmennt.
Gist í Bishkek

Dagur 10: 09.04. Sunnudagur → Bishkek – Kordai – Almaty

Morgunverður á hóteli
Að loknum morgunverði komum við farangri okkar fyrir í rútu sem mun aka okkur yfir landamæri Kyrgyzstan og Kazakhstan um 230 km. Almaty er stærsta borg Kazakhstans með um 2 milljónir íbúa. Hún var höfuðborg Kazakhstan frá 1029-1997 þegar Astana var gerð að höfuðborg. Við hefjum ,,rannsókn” á þessari borg með því að stoppa við Kok Tobe hæð þar sem gnæfir hæsti sjónvarpsturn í heimi,- ef talið er frá sjávarmáli. Hér gefst tækifæri til að fara með kláfi upp á útsýnispall sem staðsettur er á hæðinni og njóta  útsýnis yfir þessa fyrrum höfuðborg Kazakhstan.

Miðdegisverður (ekki innifalinn)
Kvöldverður í staðarskála.
Gist í Almaty

Dagur 11: 10.04. Mánudagur → Almaty

Morgunverður á hóteli

Þessi dagur verður að mestu leyti helgaður  borginni. Spankulerum um Lýðveldistorgið skoðum Minnisvarðan um sjálfstæði Kazakhstan. Kynnumst borgarskipulaginu, húsahönnun og stöldrum við merkar byggingar, svo sem Zenkov dómkirkjuna.

Miðdegisverður (ekki innifalinn)

Að loknu hádegispásu verður boðið uppá ferð í Medeo-gljúfrið, um hálftíma akstur. Ferðin er (eins og reyndar allar ferðir) valkvæðar og þeir sem það kjósa geta haldið áfram borgarskoðun.

Kvöldverður í staðarskála.
Gist í Almaty

Dagur 12: 11.04. Þriðjudagur → Almaty – Issyk – Almaty

Morgunverður á hóteli
Að loknum morgunverði höldum við í söguferð sem jafnframt er náttúruskoðun. Við förum þar um sem  leiðir silkikaupmanna horfinna alda lágu og enn má sjá hér ,,spor” þeirra. Á leiðinni munum við líka heimsækja sögusafn ríkisins kynnast lönguhorfinni menningu  þjóðar Saka.

Miðdegisverður (ekki innifalinn)

Að lokinni afslöppun og snarli liggur leiðin í 1756 metra hæð yfir sjávarmáli, að hinu fallega fjallavatni Issyk, sem staðsett er í samnefndum dal. Á vatninu munum við njóta tignarlegrar fegurðar blágrænns vatnsyfirborðs þess og Issyk-gljúfursins, auk þess að kynnast hinum miklu  náttúruhamförum árið 1963. Hér gefst líka tími til að eiga stund með náttúrunni og hér er líka staður til innhverfrar íhugunar.

Kvöldverður í staðarskála
Gist í Almaty

Dagur 13: 12.04. Miðvikudagur → Almaty – Tashkent 

Morgunverður á hóteli

Að loknum morgunverði verður haldið út í borgarysinn. Við höfum rútuna og fræðumst um borgina bæði á ferð og á rölti. (Fótlúnir þurfa ekki að óttast langar og erfiðar göngur). Við kynnumst gamla borgarhlutanum skoðum merkilegar byggingar frá 19. öld, svonefndar Vernensky byggingar 19. aldar, Hetjutorgið og fleira. Sennilega gerum við rétt í að kveðja þessa borg með heimsókn á hvunndagsmarkað.

Miðdegisverður (ekki innifalinn)

Seinni hluti þessa dags er frjáls þó við gerum rétt í því að halda hópinn.
Kvöldverður innifalinn.

Kvöldflug til Tashkent HY776 22:30-23:10 (1 klst 40 mín)

Dagur 14: 13.04. Fimmtudagur → Tashkent

Morgunverður

Þessi dagur verður frjáls að öðru leyti en því að um kvöldið verður þjóðleg veisla með mat, drykk og spilverki.

Gist í Tashkent. Þeim sem kjósa að fara út fyrir borgarmörkinn stendur til boða að heimsækja fjalllendið norðaustur af Tashkent, Amirsoy, eitt helsta útivistarsvæði og skíðasvæði Úzbeka.

Kveðjustund með veitingum, víni og dans- og spilverki.
Gist í Tashkent

Dagur 15: 14.04. Föstudgur → Tashkent – London-Keflavík 

Morgunverður

07:30 Haldið á flugvöll
Tekið á loft kl: 10:45 – 14:25 Tashkent – London HY201 Uzbekistan Airways
London-Kef. Kl. 21:25- 23:40.

Verð:                                                             650.000 ISK
Aukagjald fyrir einbýli                                  85.000 ISK

Innifalið í verði:

  • Gisting á eftirfarandi eða sambærilegum hótelum (Stjörnugjöf - staðbundinn staðall):
    • Tashkent 1 nótt: 31.03-01.04.22 “Hampton” 4* eða álíka
    • Nukus 2 nætur: 01-03.04.22 “Jipek Joly” 3* eða álíka
    • Khiva 2 nætur: 03-05.04.22 “Asia Khiva” 4* eða álíka
    • Tashkent 1 nótt: 05-06.04.22 “Hampton” 4* eða álíka
    • Bishkek 3 nætur: 06-09.04.22 “Plaza” 4* eða álíka
    • Almaty 3 nætur: 09-12.04.22 “KazZhol Park” 4* eða álíka
    • Tashkent 2 nætur: 12-14.04.22 “Hampton” 4* eða álíka
  • Máltíðir: Hálft fæði (14 morgunverðir + 13 kvöldverðir);
  • Íslensk leiðsögn auk enskumælandi staðarleiðsögumanna alla ferðina (mismunandi í hverju landi);
  • Allur akstur í loftkældum rútum:
  • Aðgangseyrir í skoðunarferðir samkvæmt dagskrá;
  • Þjóðleg tónlist og dansar í Khiva á 7. Degi, Tashkent á 14. degi og í Bishkek á degi 9;
  • Vatn í rútu.

Ekki innifalið:

  • Allur kostnaður sem sem er ekki tilgreindur í ofangreindri ferðaáætlun;
  • þjórfé;
Valkvæð viðbót

14.04.-18.04. föstudagur – þriðjudagur

Dagur 15: 14.04. Föstudagur → Tashkent – Samarkand

Kl. 07:28-09:42, með hraðlest til Samarkand, borgar hinna bláu hvolfþaka. Dagurinn helgaður sögu borgarinnar sem rekja má aftur um vel yfir hálft þriðja árþúsund, en þó sérstaklega til Timur stórveldisins á 14. og 15. öld. Sú byggingarlist sem Samarkand geymir er einstök á heimsvísu og hefur menningarlegt gildi sem stendur hvergi að baki þeirri verkmenningu sem finna má menningarsögu Egypta, Kínverja , Indverja, Grikkja og Rómverja.

Miðdegisverður (ekki innifalinn)
Kvöldverður á þjóðlegum veitingastað.
Gist í Samarkand

Dagur 16: 15.04. Laugardagur → Samarkand - Bukhara

Að loknum morgunverði skellum við okkur út í borgarysinn og höldum áfram sem frá var horfið og tryggjum að við munum ekki hverfa frá þessari stórkostlegu borg án þess að hafa skoðað: Shahi-Zinda moskuna, Gur Emir grafhýsið og Ruhabad grafhýsið, Registan torgið, Ulugh Beg trúarháskólann, Sher-Dor skólann, að ógleymdri stjörnuathugunarstöð sem kennd er við 15. aldar stjörnu- og stærðfræðinginn Ulugh Beg (1394-1449).

Með síðdegislest til Bukhara. (tími ekki kominn)

Bukhara var reist á hinni helgu hæð vorfórna samkvæmt trú sem kennd er við Saraþústra (Zoroastrians). Nafnið „Bukhara“ er dregið af sanskrít sem táknar musteri, klaustur. Þessi borg var viðskiptamiðstöð við Silkileiðina miklu og hér er einnig afar fornt og merkilegt samfélag Gyðinga sem nú er reyndar að hverfa. Á rölti okkar um gamla bæinn sjáum við hvert undrið öðru merkilegra. Bukhara hefur staðið vörð um aldagamla menningararfleifð sína í arkitektúr og gamli borgarhlutinn er safn í sjálfu sér.

Gist í Bukhara

Dagur 17: 16.04. Sunnudagur → Bukhara

Að loknum morgunverði munum við skoða elstu múrsteinsbyggingu í Mið-Asíu, grafhýsi Samanída frá 9./10. öld. Grafhýsi Chashma Ayub (Jónas eða Job) eftir spámanninum Jónasi eða Job sem ku hafa heimsótt staðinn meðan hann lifði og starfaði. Þá liggur leiðin að sumarhöll síðasta emírsins í Bukhara, höllinni sem kennd er við „Sitora-i-Mokhi Khosa. Við ljúkum þessari borgarrannsókn við „Chor Minor“ (bænaturnarnir fjórir) er óvenjulegt mannvirki byggt af kalífanum Niyazkul (18. öld).

Miðdegisverður (ekki innifalinn)
Kvöldverður á þjóðlegum veitingastað.
Gist í Bukhara

Dagur 18: 17.04. Mánudagur → Bukhara

Að loknum morgunverði höldum við áfram sögurölti um gamla borgarhluta Bukhara.

Við skoðum grafhýsi Samanids- elstu múrsteinsbyggingu í Mið-Asíu og meistaraverk heimsarkitektúrs (9-10. aldar). Grafhýsi Chashma Ayub. Goðsögnin segir að einu sinni hafi spámaðurinn Job (Ayub) heimsótt þennan stað. Þá skoðum við Sitora-i-Mokhi Khosa höllina sem eitt sinn var sveitasetur síðasta emírsins.

Miðdegisverður (ekki innifalinn).

Stefnt er að því að við fljúgum til Tashkent (1 klst 10 mín), en þó ekki útilokað að við tökum því rólega og förum landleiðina með hraðlest.

Kvöldverður í Tashkent.
Gist í Tashkent.

Dagur 19: 18.04. Þriðjudagur → Bukhara – Tashkent

Að loknum árbít verður haldið á flugvöllinn- u.þ.b. 20 mínútna akstur.

Brottför áætluð kl. 10:45 – 14:25. Tashkent – London HY201 Uzbekistan Airways.

Við höfum góðan tíma á Heathrow. Þurfum að fara á milli termínala en það er auðvelt, fljótlegt og ókeypis. Flugið okkar heim, London-Kef.,  er áætlað kl. 21:25- 23:40.

Viðbótin 4 nætur                                                         98.000 ISK

Innifalið í verði:

  • Gisting í efturtöldum hótelum eða sambærilegum i (Stjörnugjöf- staðbundinn staðall):
    • Samarkand 1 nótt: 14-15.04.22 Emirhan 4* eða álíka
    • Bukhara 2 nætur: 15-17.04.22 Zargaron Plaza 4* eða álíka
    • Tashkent 1 nótt: 17-18.04.22 Hampton 4* eða álíka
  • Máltíðir: Hálft fæði (4 morgunverðar + 4 kvöldverðir);
  • Íslensk leiðsögn og vel hæfur enskumælandi staðarleiðsögumaður;
  • Rúta með loftkælingu
  • Vatn í rútu

Ekki innifaliðr:

  • Þjónusta sem er ekki er nefnd í ferðaáætlun.
  • þjórfé.

Gott að hafa í huga