Þótt það Pólland sem við heimsækjum í byrjun 21. aldar, sé eins í laginu og það sem við sjáum á kortum frá því um miðbik síðustu aldar, er fjarri því að svo hafi það alltaf litið út. Fá lönd í Evrópu, og sennilega ekkert, hafa lifað svo dramatískar breytingar sem þetta og þjóðin sem þar ræður húsum. Frá því seinni heimstyrjöld lauk hefur það verið rúmir 312.000 ferkílómetrar að stærð, ríflega þrefalt stærra en Ísland. En sú stærð og form eru tiltölulega ný. Myndlíkingin –amaba Evrópu – er ekki fjarri sanni. Landamerki hafa teygst og togast í flestar áttir og um 123 ára bil sást það varla á landakorti. Undir lok 15. aldar var ríkjasambandið Pólland-Litháen stærst ríkja í Evrópu og náði yfir 1,115.000 fer km., sem samsvarar tæpri tífaldri stærð Íslands. Ríflega öld síðar hafði það skroppið saman og var 990.000 fer km. En var eftir sem áður stærst ríkja í Evrópu, næstum tvisvar sinnum stærra en Frakkland. En þegar hér var komið sögu var skammt í að halla færi undan fæti þessa stórveldis á brauðfótum. Á tímabilinu frá 1772 til 1795 var landinu skipt í áföngum upp á milli þriggja nágranna sinna, Rússlands, Prússlands og Austurríkis. Þegar 19. öldin reið í garð var það ekki til nema á gömlum og úreltum landakortum. Síðustu leyfar pólskra landamerkja hurfu árið 1874 og sáust ekki aftur á kortum fyrr en friðardaginn 11. nóvember 1918.
BIALAWISA
Er síðustu leifar hins óhreyfða Evrópuskógar enda á náttúruverndarskrá UNESCO. Hann þekur 1260 ferkílómetra og nær inní Hvítarússland. Inní skóginum er veiðihús sem Alexander II Rússasar lét byggja ekki löngu áður en hann var sprengdur í loft upp á götu í St. Pétursborg árið 1881. Nú er a.m.k. hesthúsið notað sem gistihús, lúið og þreytt. Töframáttur umhverfisins er þó slíkur að hver sem hér gistir er ekki með hugann við lúnar innréttingar eða salernisaðstöðu. Náttúran töfrar jafnvel þann sem erfitt á með að greina muninn á jólatré og jólatré. Reyndar eru fæst trén í þessum skógi grenitré. Hér eru ævagamlar eikur, og önnur lauftré og innan um þau lifa ýmsar tegundir viltra spendýra, hindur, hirtir, villisvín, otrar, að ógleymdum Evrópu-vísundinum. Það er einmitt hér sem honum var útrýmt í fyrri heimstyrjöld. Það var lífríki jarðar til happs að einhverjum árum áður höfðu Pólverjar gefið Svíum kálfa héðan til að hafa í dýragarði. Þegar stríði lauk og menn uppgötvuðu að vísundinum hafði verið útrýmt fengu Pólvejar til baka kálfa frá Svíum og gott ef ekki Þjóðverjum sem einnig höfðu fengið kálfa. Dýrunum var sleppt í Biawisaskóg og nú 80 árum síðar hefur þeim fjölgað svo mikið að þeir hafa verið fluttir til ýmissa skóga Póllands og farið er að veiða einhver dýr á hverju ári.
MASÚRÍA
Náttúra Masúríu, dregur að sér fólk sem vill njóta fegurðar og kyrrðar. Bændur hér um slóðir eru flestir smáir einyrkjar og þegar mannlífið hér er sett undir efnahagslega mælistiku verður niðurstaðan ekki uppörfandi. Lansslag: skógivaxnir ásar, vötn, lítil þorp og bæir. Mörg húsin eru úr tré og byggð samkvæmt aldagamalli hefð. Á vötnum sjást bátar, ýmist fiskimanna eða sportbátar fólks sem nýtur þessarar fögru náttúru, sem Pólverjar nefna sjálfir -hin grænu lungu sín. Við fyrstu skiptingu Póllands árið 1772 varð Masúría hluti Prússlands og hér bjuggu þýskir bændur með þýska siði. Fram til 1945 var Masúría þýskt land og enn sjást merki þýskrar fortíðar, m.a. í hlutfallslega stórum söfnuðum mótmælenda, í byggingum og nöfnum staða og bæja sem flest eru bæði pólsk og þýsk.
GDANSK
Gdansk er sögð stofnuð árið 997. Gamli bærinn, sem er líkt og margir gamlir bæir Póllands, eftirlíking sálfs sín, var byggður í þeirri mynd sem nú ber fyrir augu af þýskum Hansakaupmönnum. Í rás aldanna hafa íbúar þessarar borgar þurft að glíma við ýmsar hörmungar; náttúrulegar og af mannavöldum. Að lokinni seinni heimstyrjöld blasti við þeim sem lifðu rústaauðn.
Þessi borg er kanski sú borg Evrópu sem á sér hvað dramatískasta sögu allra borga á 20. öld. Hér hófst seinni heimstyrjöld og héðan bárust fyrstu brestirnir sem boðuðuðu fall múrsins. Hér voru veralýðssamtökin Solidarnoch, Samstaða stofnuð og yfir hlið skipasmíðastöðvarinnar sem kennd var við Lenín hoppaði ungur rafvirki sumarið 1980 og hafði með þeirri ákvörðun meiri áhrifum á heimssöguna en þegar Sesar reið yfir Rubiconfljót tveim árþúsundum áður.
VARSJÁ
Varsjá er að stofni til frá 14. öld en það var ekki fyrr en á árunum 1596-1611 að hún haslaði sér völl sem höfuðborg Póllands. Borgin óx og blómstraði og varð skjótt miðpunktur pólsks athafnalífs og stjórnsýslu. Við flutning höfuðborgarinnar var hafist handa við að breyta þessum litla bæ í borg og engu til sparað. Konungshöllin, sem enn stendur, var þá reist og aðrar hallir á næstu áratugum, hallir sem geisla af glæsileika, hallir eins og sumarhöllin Wilanów (Villa nova) og Wazienki í garðinum við Vislu sem nú er oftast kenndur við tónskáldið Copin.
Eftir stríð lögðu Pólverjar allan sinn metnað í að byggja upp höfuðborgina. Þegar árið 1949 var fyrsta hluta endurbyggingarinnar lokið og sex árum síðar var lokið við að endurreysa hávaða allra sögulegra bygginga. Pólverjar eiga óopinbert heimsmet í endurreisn gamalla bygginga, heimsmet sem í senn er stolt þeirra og harmur.
„Gamli bærinn“ er ekki gamall nema að nafninu til, en þó er eins og komið sé með báða fætur inn í liðnar aldir er mjó steinilögð strætin eru þrædd í átt til torgsins.
KRAKÓW
Þessi töfrandi borg með um eina milljón íbúa, mikinn iðnað og aldalanga sögu mennta og vísinda, er ein af þeim borgum er hæst ber á lista menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) yfir byggingarsöguleg verðmæti. Öll miðborgin, ekki færri en 760 byggingar, er friðuð vegna stíls og sögulegs gildis og telst sameiginlegur arfur mannkyns.
Í fyrndinni stóð kastali á hæð við Vislu og bar hátt yfir þyrpingu smáhúsa á sléttunni við ána. Samgöngur á ánni sköpuðu vaxtarmöguleika þorpsins litla. Kaupmenn settust þar að, handverk og þónusta jukust og húsamergðin með, sem brátt náði yfir á hinn bakka árinnar. Á sömu hæð, Wawel-hæðinni við Vislu stendur enn í dag mikill kastali með stórri aðalbyggingu, dómkirkju og nokkrum minni byggingum.
Í höllinni á Wawelhæð bjuggu pólskir konungar frá fyrrihluta 14. aldar og fram til 1595 er Sigmundur III. Vasa lét flytja hina konunglegu stjórnsýslumiðstöð til Varsjár. Kraków hélt samt sem áður allnokkru mikilvægi um langt skeið. Fram til 1764 var borgin krýningarstaður pólskra konunga. Í dómkirkjunni þar voru þeir krýndir og í grafhýsi undir gólfi hennar eru þeir flestir grafnir. Það má því segja að saga pólskra konunga hafi hafist og endað í dómkirkjunni á Wavel.