2022/08/23 at 8:21 am
Bútan
20. október - 9. nóvember 2026
Ferðalýsing
Hátt í Himalajafjöllum austanverðum, milli Indlands og Tíbets er konungsríkið Bútant, ríflega þriðungur af flatarmáli Íslands.
Allt fram á 7. áratug 20. aldar var hesturinn þarfasti þjónn þeirra sem vildu ferðast um þetta land sem innfæddir segja vera land drekans. Að drekanum slepptum er þetta land dulúðar, stórbrotinnar fegurðar, mikilla fjalla, djúpra dala, ósnortinna skóga og aldagamallar menningar og hefða fólksins sem þar býr. Hvað samfélagsþóun varðar hefur fólkið sem þar býr hefur fetað þröngan stíg á milli nútímavæðingar og strangrar íhaldsemi í trú, menningu og viðhorfum til náttúrunnar. Í náttúruvernd er þjóðin í fararbroddi annarra þjóða og halda í um það bil 70% af ósnortinni náttúru lands síns. Bútan skartar ekki aðeins grösugum dölum og snækrýndum fjöllum heldur fjölbreyttu dýralífi og litskrúðugri flóru. Sagt er að jafnvel víðförulustu ferðamenn verði fyrir ,,opinberun” við komuna til Bútan. Loftið þar er ferskt og heilnæmt, fjöllin stórfengleg og arkitektúr húsa framandi og ævintýralegur.
Íbúarnir eru Búddatrúar en trúin er aðeins einn þáttur menningar sem þar ríkir. Hún er ekki síður heimspeki hvunndagsins, leiðarhnoða í samskiptum fólks og undirstaðan í samfélagi sem einkennist af hreinlyndi og hamingju.
Hvert hérað, hver hreppur, hvert þorp hefur þróað sína eigin sérstæðu menningu, hátíðir, matarhefðir og klæðnað sem oft er jafn framandi íbúum borganna og okkur sem komum lengra að. Í þessari ferð gefst einstætt tækifæri fyrir okkur sem erum áhugasöm um framandi samfélög, sögu þeirra og menningu, að skoða kviku mannlífs fjarlægra sveita og þorpa sem er býsna ólíkt því sem við eigum að venjast.
UM FERÐINA OG DRÖG AÐ DAGSKRÁ
Ferðin er reyndar ferð um fjóra ólíka heima. Þá er millilendingin í Helsinki á báðum leiðum talin með. Á bakaleiðinni náum við að skoða finsku höfuðborgina lítillega. Í Nepal verður gert gott stopp og eins í Dehli á bakaleið. Það er þó fyrst og síðat Bútan sem ferðin hverfist um.
Í Bútan gildir fjöldatakmörkun og æskilegt er að ekki séu fleiri en 16 í hópi. Ástæða þess er, m.a. smágerðar rútur og vegir sem eru ekki beinlínis hraðbrautir. Þegar hafa svo margir sýnt þessari ferð áhuga að líklega verða tvær ferðir. Verðið er ekki enn klárt en örugglega tilbúið rétt eftir að ár er til ferðarinnar. Í október á þessu ári verð ég væntanlega tilbúinn með endanlegt ferðaplan með tímasetningum og verði. Þá þurfa þeir sem ákveðnir eru að koma í ferðina að vera tilbúnir að staðfesta.
Sú dagskrá sem hér er birt er byggð á nýuppfærðum dagskrárdrögum frá Bútan ásamt fyrri Söguferðum og áætluðum flugtíma. Það geta því orðið einhverjar breytingar á. Þegar við erum svo tímalega með undirbúning þá gefst okkur líka tækifæri að gera breytingar svo ef þú hefur einhverjar athugasemdir eða tillögur um breytingar þá er um að gera að hafa samband.
Tímamunur milli Íslands og Delhi eru 5½ klukkustund.
Dagur 1 - 20. október
07:30 Reykjavík - Keflavik – Helsinki - Delhi
Dagur 2 - 21. október
Lendum í Delhi kl. 05:25 og finnum okkur einhvern stað til að hvílast áður en haldið verður áfram með flugi til Paro í Butan.
KOMA TIL PARO
Þegar flugvélin lækkar flugið yfir fjallahlíðunum heilsar Parodalurinn með skínandi hrísgrjónaökrum sem bylgjast í blænum og litlum húsum dreyfðum á bakka bugðóttrar árinnar.
Loftið er kristaltært, birtan gegnsæ og við sjóndeildarhringinn ramma snæviþakin fjöll inn friðsældina eins og málverk. Það skiptir ekki máli hversu oft er lent í Paro, dalurinn og sveitin opnast eins og draumsýn. Ef heppnin er með mun blasa við dýrðlegt útsýn til snæviþakinna Himalajafjallanna. Að lokinni innskráningu og eftir að farangri hefur verið komið fyrir munum við hitta okkar mann í Bútan og hvílast eftir langa ferð.
Síðdegi:
Heimsókn í Paro Dzong sem var byggt árið 1646 og hýsir stjórnarmiðstöð Paro svæðisins og trúarstofnun fyrir munka. Paro Dzong kann að koma fólki, sem séð hefur kvikmynd Bertoluccis The Little Buddha, kunnuglega fyrir sjónir, þar sem drengurinn gengur niður að vagninum og yfir þjóðlegu trébrúna sem kölluð er Nymezampa og liggur yfir Paro ána.
Kvöldverður og næturhvíld.
Dagur 3, 22. október - PARI OG WANGUDE
Farið er um hæðir og fagrar sveitir. Thimphu liggur í stórum dal sem skorinn er af Wangchuk ánni undir háum fjallatindum. Á leiðinni sést til Tachogang klaustursins hofs hins frábæra hests sem byggt var af Thangthong Gyalpo (keðjusmið í Bútan) þar sem við ökum upp með Thimphu ánni í gegnum nokkur þorp.
Eftir hádegi:
Akstur til Wangdue yfir Dochu-La-skarðið (3050m). Þetta er ein fegursta akstursleið í Bútan. Á björtum degi er stórkostlegt útsýni yfir austur Himalajafjöll úr skarðinu. Skarðið er líka skrýtt mörgum litfögrum bænaflöggum og 108 stúpum (stúpa, líka kallað hvolfhlað, helgidómur í byggingalist Búddatrúarmanna). Gengið um skarðið og Dochulahofið heimsótt. Síðan er farið niður í gegnum lyng- og magnólíuskóga til Lobesa. Eftir að áð hefur verið á nokkrum stöðum á leiðinni er farið fram hjá bænum Lumitsawa, Thinleygang og hinum frjósama Lobesadal náð.
Kvöldverður og næturgisting á hóteli.
Dagur 4, 23. október - WANGUE OG BUMTHANG
Ekið til Bumthang. Alla leiðina er að sjá síbreitilega fegurð landsbyggðar Bútan með dreyfða byggð langt frá veginum til Nobding. Áfram er ferðinni haldið yfir Phele-skarð (3350m) sem umkringt er Jigme Singye Wangchuckþjóðgarðinum og komið niður í landslag með opnum engjum, dal jakuxahirða og nokkrum bæjum á leiðinni til Chendebji Chorten, sem er bær sem þekktur er fyrir nítjándualdar stúpu sína sem mótuð er eftir hinni þekktu Sawayambhunath stúpu í Katmandu í Nepal. Stúpan, sem byggð var af tíbetska lamanum Shida, er vestasta minningarmark á leið búddískra trúboða fyrr á tíð og hefur hún að geyma leifar ills anda sem drepinn var á staðnum. Fram verður reiddur hádegisverður í Trongsa.
Eftir hádegi:
Ekið verður til að heimsækja hið mikla dzong (virki), Trongsa Dzong, sem er hið áhrifamesta í landinu, frá sjónarhóli byggingarlistar. Þetta dzong hefur gegnt lykilhlutverki í mótun stjórnmálasögu landsins. Eftir þetta er haldið áfram í áttina að Bumthangdalnum. Bumthangsvæðið umlykur eða nær yfir fjóra aðra dali, Choekhor (Jakar), Tang, Ura og Chhumey. Í Bumthangdalnum er fjöldi kaustra og er kallaður hjarta Búddisma í landinu. Nú er ekið um Yotung la-skarðið (3536m) og áfram niður í Chumeydalinn til Zuney, þar sem hægt er að skoða vefnaðarmiðstöð (Yathra ullarfatnað). Um hálftíma akstur þar frá bíður okkar hótel og hvíld.
Dagur 5, 24. október - SKOÐUNARFERÐ UM BUMTHANG
Fyrir hádegi
Heimsóknir til eftirfarandi merkra menningar- og trúarlegra staða:
- Zangdopleri Lhakhang reist af Hinni miklu drottningarmóður
- Kurjey Lhakhang: Sagnir herma að líkamseftirmynd (líkamsprent) af Guru Rinpoche (Padmasambhava, Lótus-borinn, einnig þekktur sem Guru Rinpoche, 8. aldar indverskur Búddameistari, sumir segja hann 2. Búdda) hafi orðið eftir þegar hann hugleiddi í helli einum í þessu klaustri
- Jambay Lhakhang byggt af tíbetska konunginum Songsten Gampo á sjöundu öld, sem segir til um útbreiðslu og mikilvægi Búddisma í landinu
- Jakar Dzong, kastali hins hvíta fugls sem er stjórnarmiðstöð og stofnun fyrir munka
- Karchu Dratsgang, stofnun fyrir munka, undir hans hátign Namkai Ningpo Rinpoche, þar sem tækifæri gefst til íhugunar/hugleiðslu
Kvöldverður, dæmigerður fyrir svæðið, snæddur á býli. Mikilvægur þáttur í hverri söguferð er að kynnast matarvenjum þeirra þjóða sem við heimsækjum. Við leitumst líka eftir því að kynnast héraðsbundnum réttum í sínu rétta umhverfi eins og hér í Bumthanghéraði þar sem við snæðum núðlur úr bókhveiti (bókhveitinúðlur, soba-pönnukökur (soba er japanska fyrir bókhveiti) o.s.frv.).
Dagur 6, 25. október - BUMTHANG OG GANGTEY
Ekið til Gangtey. Gangtey og Phobjikhadalurinn eru ein af mest töfrandi svæðum landsins. Víður, flatur og trjálaus dalurinn eftir erfiða hækkun í gegnum þéttan skóginn eru andstæður sem upplifa má í Bútan. Öfugt við suma hluta Bútan, þar sem nútíma þróun er nú þegar vel sýnileg, er Gangtey staður þar sem náttúrufegurð og ósnert umhverfi ríkir, hefðir svæðisins og menning og áreynslulaus friðsemd. Ólíkt öðrum stöðum í Bútan, þá má ganga hér á milli útsýnisstaða og í Phobjikha verður stórkostlegt útsýni stöðugt fyrir augum, hvert sem eigrað er. Hér eru líka vetrarstöðvar (frá því síðla í október og fram að miðjum febrúar) svartkragatrönunnar sem kemur sem farfugl frá Tíbet. Trönurnar eru heiðraðar með hátíð í nóvember og svo eru þær í hávegum hafðir hér að ekki má reisa raflínur um héraðið af ótta við að þær gætu særst af þeim.
Kvöldverður og gisting á heimili í héraðinu.
Dagur 7, 26. október - GANGTEY OG PUNAKHA
Náttúruganga að morgni um Gangtey og Gangteyklaustur skoðað
Með þessari ánægjulegu morgungöngu mun fást góð tilfinning fyrir Phobjikhadalnum og þetta er ein auðveldasta og fegursta gönguleið landsins. Gangteyklaustrið er 16. aldar klaustur sem stendur tígulega á hæðarbrún við enda Gangteybæjar og er byggingin kennileiti í Phibjikhadal. Þar er miðstöð kennslu í andlegum fræðum. Þjóðsaga segir að Pema Lingpa (Pema Lingpa, helgur maður frá í Bumthang í Bútan 1450-1521, sagður koma næst sjálfum Guru Rinpoche) hafi spáð því að hann, endurholdgaður, myndi stofna klaustur á hæðinni fyrir útbreiðslu Peling safnaðarins. Trúr sínum spádómi, kom fyrsta endurholdgun Pema Lingpa, Gyelse Pema Thinley, til Gangtey og byggði þar sem hofið stendur nú. Kvöldverður og hvíld.
Dagur 8, 27. október - PUNAKHA
Heimsókn til Punakha Dzong. Þessi virkisbygging (dzong) er ein þeirra fegurstu og áhrifamestu í landinu, frá sjónarhóli byggingalistar. Virkið er fullkomlega staðsett á milli tveggja áa, Pho Chu, Karlár og Mo Chu Kvenár. Það var byggt árið 1637 og hefur verið stjórnarsetur til 1953.
Sagt er að Guru Rimpoche hafi sagt fyrir um byggingu virkisins. Hann spáði því að maður að nafni Namgyel myndi koma að hæð nokkuri sem liti út eins og fíll. Á þeim tíma var þarna minna virki, Dzong Chung, sem hýsti styttu af Búdda. Sagt er að Shabdrung hafi fyrirskipað arkitektinum Zowe Palep að gista frami fyrir styttunni. Á meðan Palep svaf þarna leiddi Shabdrung hann í draumum sínum til Zangtopelri og sýndi honum höll Guru Rimpoche. Eftir þessari sýn hannaði Palep nýja virkið sem, samkvæmt hefðinni, var þó aldrei teiknað á blað. Virkið var nefnt Druk Pungthang Dechen Phodrang, Höll hinnar miklu hamingju. Punakha er enn vetraraðsetur Je Khenpo höfuðábóta og miðstjórnar munka.
Gott er að gefa sér tíma til að skoða hina áhrifamiklu, litfögru og nákvæmu list í umhverfinu, þar á meðal hinar stóru styttur af Búdda, Guru Rinpoche og Zhabdunf Nawany Namgyel.
Eftir hádegi:
Gönguferð að Khamsum Yueling Namgyel stúpunni, sem er 30m há og sést úr fjarska þegar ekið er um héraðið. Það tók átta og hálft ár að byggja stúpuna sem er þrjár hæðir og var hún vígð árið 1999. Hún er tileinkuð fimmta konungi Bútan og var reist til að fjarlægja neikvæð öfl og til að tryggja frið, stöðugleika og samhljóm í síbreytilegum heimi. Hún er því full með öllum þeim litfögru vörnum sem hægt er að hugsa sér.
Kvöldverður og hvíld.
Dagur 9, 28. október - PUNAKHA OG THIMPHU
Ekið snemma morguns til Thimphu yfir Dochu-La-skarð.
Eftirfarandi áhugaverðir í Thimphu heimsóttir:
Minningarstúpan: Stúpan, með sínum gullnu turnspírum og klingjandi bjöllum, var reist til heiðurs þriðja konungi Bútan, Jigme Dorji Wangchuck. Málverkin og stytturnar innan dyra veita einstakt innsæi inn í búddíska heimspeki í öllum fjölbreytileika búddískrar dulspeki Stúpan stendur miðsvæðis og sjá má endalausa röð eldra fólks ganga í kring um hana.
Handlistastofnunin: Þetta er verknámsskóli þar sem nemendum er kennd myndlist, trésmíði og höggmyndalist með það að markmiði að varðveita hina ríku og óspilltu arfleifð.
Kuengzang Phordang: Ferð til að skoða heimsins stærstu styttu af sitjandi Búdda.
Dagur 10, 29. október - PARO TAKTSANG
Snemmbúinn morgunverður og ganga að Taktsangklaustrinu (Tígrishreiðrið). Leiðin liggur bratt upp í gegnum furuskóg, þar sem, svo kallaður spænskur mosi, hangir í sveigum á mörgum trjánna. Í stöku lundi má sjá bænaflögg blakta. Gestum er heimilað að ganga upp að útsýnisstað þaðan sem sjá má klaustrið eins og hangandi á klettasnös. Þjóðsagan segir að Guru Rimpoche, stofnandi Búddisma, hafi flogið frá austur Bútan á tígrislæðu, fært með sér búddískar kenningar og hugleitt hér í bjarginu. Þetta er einn helgasti staður búddista í heiminum. Eftir að hafa heimsótt klaustrið er gengið niður að Taktsang kaffihúsinu og snæddur hádegisverður.
Eftir hádegi:
Ekið í áttina að norðurhluta Parodals til að heimsækja Drukgyel Dzong (virki sem nú eru rústir) sem sýnir forna byggingalist. Á bakaleið er komið við í Kyichu Lhakhang, einu af elstu og helgustu klaustrum Bútan, frá árum innleiðingar Búddisma á 8. öld. Ekið aftur á hótelið.
Kvöldverður og gisting á hóteli.
Dagur 11, 30. október
Flogið til Nepal þar sem við dveljum næstu 7 nætur. Þegar komið á Tribhuvan, alþjóðaflugvöllinn í Katmandú (Tribhuvan International Airport, TIA) og lokið hefur verið við innskráningu inn í landið er komið að því að nálgast farangurinn og leita eftir okkar manni á staðnum. Gert er ráð fyrir að okkur verði fagnað á hefðbundinn, þjóðlegan hátt við komuhlið. Síðan verður farið á hótel og um kvöldið notið góðrar þjóðlegrar máltíðar.
Dagur 12, 31. október
Skoðunarferð í Patan og Apahofið (Shoyambunath)
Snemma morguns er farið til Bungamati og Khokana. Bungamati, sem er einungis í nokkura kílómetra fjarlægð og undir mun minni áhrifum frá nútímaborginni, sýnir sanna fegurð gamallar, lifand menningar og samfélags. Bungamati er lítill Newaribær sem enn heldur í gamlar hefðir og mikilvægi þeirra fyrir daglegt líf. Eftir aðeins nokkura mínútna gang er komið að öðrum Newaribæ sem heitir Khokana. Seinni part dags er ferðast um hina fögru borg Patan (Lalitpur) sem er þekkt fyrir þjóðlega Newari byggingalist, tréskurð og málmsmíð meðal annara lista. Þá má sjá málmsmiði, tréskurðarmeistara og teppavefara að störfum. Síðan er farið aftur á hótelið til næturgistingar.
- Apahofið
- Patan
- Bungmati Khokana
Dagur 13, 1. nóvember
Haldið til Pokhara, útsýnisferð og sigling á Phewavatni
Að loknum morgunverði er ekið að innanlands flughöfninni og flugið tekið til Pokhara. Það tekur 30 mínútur. Eftir það er ekið á hótel og gengið frá skráningu. Að því loknu er gengið um við vatnið og gist á hótelinu í Pokhara.
Dagur 14, 2. nóvember
Dags skoðunarferð í Pokhara
Farið (eldsnemma) til að ná sólarupprás í Sarangkot og svo aftur á hótelið í morgunverð. Eftir það tekur við heill dagur í skoðunarferð um Pokhara. Á leiðinni er komið við í Guptaswar Mahadev hellinum (einnig nefndur Shiva Gufa) sem er í suður hluta borgarinnar. Meðal annara staða sem heimsóttir verða í ferðinni eru Seti árgljúfrið, en Setiáin sem rennur í gegn um borgina markar djúp gljúfur og rennur á nokkrum stöðum alveg neðan jarðar. Devisfoss – þekktur af heimamönnum sem Patale Chhango eða Heljarfoss, uggvekjandi foss. Tíbetskar flóttamannabúðir og Fjallasafnið auk annara staða.
Gist í Pokhara.
Staðir skoðaðir í Pokhara
- Gupteswar Mahadev hellirinn
- Seti árgljúfrið
- Devisfoss (Heljarfoss)
- Tíbetskar flóttamannabúðir
- Fjallasafnið
Dagur 15, 3. nóvember
Frá Pokhara í Chitwan þjóðgarðinn. Fimm tíma akstur.
Nú mun fegursta borg Nepal yfirgefin og ekið í áttina að Chitwan þjóðgarðinum í almenningsvagni fyrir ferðamenn. Áfangastað verður náð eftir hádegi. Chitwan, sem víðast hvar er viðurkenndur sem einn tilkomumesti þjóðgarður í Asíu, státar af ótrúlegum fjölda dýrategunda. Má þar nefna indverska einhyrnda nashyrninginn, vísund, hlébarða, villisvín, leti- eða varabjörn, dádýr, langúr (apar af markattaætt, Cercopithe cidae), resusapa (Macaca mulatta, sem eru reyndar af ætt markatta) að ógleymdum hinum stórfenglega og dularfulla Bengaltígri. Hér má upplifa ýmsa atburði eins og fílasafarí (skógarferð á fílsbaki), frumskógargöngu og Tharu þjóðdansa.
- Móttaka, drykkur og kynning á húsakynnum.
- Hressing og stutt kynning.
- Hádegisverður.
- Menningarferð (í Tharuþorp).
- Horft á sólarlagið af árbakkanum.
- Tharu stafadans.
- Kvöldverður.
Dagur 16, 4. nóvember
Ekið frá Chitwan til Katmandú. Flúðasigling á leiðinni (valkvætt)
- 6:00 Hópurinn vakinn.
- 6:30 Morgunverður.
- 7:00 Heimsókn í Fílaeldisstöð hins opinbera.
- 9:00 Brottför til Katmandú. Á leiðinni er val um 3-4 tíma flúðasiglingu á Trisuliánni sem kostar u.þ.b. 5000 kr. auka. Ekið áfram til Katmandú. Um kvöldið gefst tími til kaupa á minjagripum og svo er kveðjukvöldverður á þjóðlegu veitingahúsi. Gist í Katmandú.
Dagur 17, 5. nóvember
Katmandú – Brottför til Delhi.
Eftir morgunverð verður ekið á Katmandúflugvöll. Flogið til Delhi. Stutt skoðunarferð um borgina. Kvöldverður á hóteli.
Dagur 18, 6. nóvember
Eftir morgunmat verður farið í skoðunarferð um gömlu og nýju Delhí. Meðal annars heimsækjum við Jama Masjid moskuna, minnisvarðan um Ghandi og gamla markaðinn.
Dagur 19, 7. nóvember
Þessi dagur verður helgaður dagsferð til hallar hinnar ódauðlegu ástar, Taj Mahal.
Dagur 20, 8. nóvember.
Haldið heim. Flug frá Delhi kl. 10:40. Lent í Helsinki kl. 14:45. Gisiting í Helsinki.
Dagur 21, 9. nóvember (miðvikudagur)
Flogið til Íslands kl. 14:20. Lent í Keflavík kl. 15:55.