2022/08/23 at 8:21 am
Sögu og skemmtiferð um Dali í Barðastrandarsýslu júní 2025
11. - 14. júní 2025
Ferðalýsing
Dagur 1 – 11. júní
Ekið með rútu frá Reykjavík áleiðis til Patreksfjarðar. Fyrsti viðkomustaður er í skála Eiríks rauða í Haukadal og rifjuð upp sagan um landafundina og Leif heppna. Haldið áfram sem leið liggur um Dalina og bókstaflega ekið um landnám Auðar djúpúðgu og sögusvið Laxdælu. Eftir stutta viðkomu að Laugum í Sælingsdal er haldið áfram sem leið liggur um Barðastrandarsýsluna áleiðis til Patreksfjarðar. Væntanlega eru flestir að fara í fyrsta skipti veginn um hinn umþrætta Teigsskóg til 20 ára og í síðasta skipti fyrir firðina sem á að fara að þvera. Fallegt er að aka um Barðaströndina sjálfa sem er gróðursæl og kjarri vaxin og full af áhugaverðri sögu. Komið fyrir kvöldmat til Patreksfjarðar og gist á Fosshóteli.
Dagur 2 – 12. júní.
Eftir morgunverð er ekið út að Látrabjargi, stærsta sjávarbjargi Evrópu en á þessum tíma iðar þar allt af fugli. Í bakaleiðinni er komið við í gamla upptökuheimilinu í Breiðavík sem er rekið sem gisti og veitingastaður í dag. Ekið sem leið liggur í Sauðlauksdal og staldrað við þar og rifjuð upp hin merka saga staðarins og ræktunartilraunir Björns Halldórssonar sem enn sjást merki um. Næsti viðkomustaður er Rauðasandur sem margir segja að sé einn fegursti staður landsins. Gengið út að gamla bæjarstæðinu að Sjöundá sem er létt
20 mínútna ganga. Farið yfir sögusviðið og hina skelfilega atburði sem áttu sér þar stað. Ótal sögur og rannsóknir hafa verið gerðar um þessa atburði og verður reynt að varpa ljósi á atburðarrásina og dómsmálin. Að lokum er komið við á hinum merka sögustað Bæ (Saurbæ) á Rauðasandi áleiðis til baka til Patreksfjarðar og gist á Fosshótelinu.
Dagur 3 – 13. júní
Ekið yfir í Tálknafjörð þar sem við fáum yfirlit yfir laxeldi og æðarrækt. Þaðan er svo ekið yfir í Arnarfjörð til Bíldudals. Hinni merku sögu þessa menningarstaðar gerð skil áður en haldið er áfram hina einstaklega fallegu leið um Ketildalina út í Selárdal. Skoðuð verk og farið yfir sögu Samúels Jónssonar sem kallaður hefur verið listamaðurinn með barnshjartað, Uppsalir og saga Gísla, vagga galdrafársins ofl. Til baka til Patreksfjarðar og gist á Fosshótelinu.
Dagur 4 – 14. júní
Eftir morgunverð er ekið heim á leið og er núna farið um suðurfirðina og uppá Dynjandisheiði og stöldrum við útsýni yfir Geirþjófsfjörðinn, sögusvið Gísla sögu Súrssonar. Síðan ekið niður í Vatnsfjörð með viðkomu í Flókalundi. Aðrir helstu viðkomustaðir í bakaleiðinni eru Ólafsdalur þar sem fyrsti búnaðarskóli landsins var stofnaður en þar eru miklar framkvæmdir í gangi við endurreisn staðar og endurbyggingu mannvirkja. Næst er svo staldrað við á Staðarhóli, sem er eitt helsta höfuðból landsins í sögu og sagnaritun og etv. í Vínlandssetrinu í Búðardal ef tími vinnst til. Komið til Reykjavíkur síðdegis.
Fararstjóri er Sigurður Friðriksson fyrrverandi skólastjóri og leiðsögumaður.
Verð á mann í tvíbýli kr 138.000
Aukagjald fyrir einbýli kr 30.000
Hægt er að tilkynna þátttöku á netfangið kennsla@outlook.com og þarf skráning að berast í síðasta lagi 30. mars.
Allar frekari upplýsingar gefur Sigurður fararstjóri í síma 660 2305.
Innifalið:
Rútuferðir allan tímann.
Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4* hóteli
Morgunverðarhlaðborð
Fararstjórn